11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

186. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Við gerð laga nr. 98/1984, þegar fæðingarorlof var lengt vegna fleirburafæðinga, láðist að breyta orðalagi 10. og 11. málsgr. 16. gr. laga um almannatryggingar til samræmis við hina breyttu reglu sem Alþingi samþykkti í fyrra. Í áðurnefndum málsgreinum er því gengið út frá fjögurra mánaða fæðingarorlofi sem algjöru hámarki en lagabreytingin, sem gerð var í fyrra, heimilaði lengra fæðingarorlof, t.d. þegar um var að ræða þríbura. Fyrir bragðið hefur ekki verið unnt að breyta reglugerð um fæðingarorlof og þess vegna hafa starfsmenn Tryggingastofnunarinnar haldið óbreyttum starfsreglum og þríburamóðir, ja, mæður, ef fleiri eru, hafa ekki átt kost á viðbótarmánuði sem lögin áskilja vegna sérstakra veikinda af þessum sökum. Það er sérstakur vandi sem upp hefur komið sem hefur orðið til þess að menn sáu að nauðsynlegt var að gera þessa breytingu. Ég tel þetta augljóst sanngirnismál og nauðsynlegt að breyta þessu nú fyrir þinghléið.

Ég tel að ekki þurfi að fara um þetta réttlætismál frekari orðum en tek fram að ástæðan til þess að ekki er sérstök kostnaðaráætlun með þessu frv., eins og vera ætti, er sú að mér þótti ekki svo líklegt að þríburar færu að fæðast í miklu stærri stíl en hingað til og því geri ég ekki ráð fyrir að hér sé um kostnaðarauka að ræða nema í algerum undantekningartilfellum. Í fyrsta lagi þurfa að vera þríburar og í öðru lagi að um sé að ræða sérstök veikindi annaðhvort hjá börnunum eða móðurinni.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu litla frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.