11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi geta þess að í hv. fjh.- og viðskn. hefur eins og að venju verið góður samstarfsvilji og ráð var fyrir því gert að við mundum geta hér í dag lokið 2. umr. um frv. til lánsfjárlaga. Af óvæntum ástæðum hefur dregist langt fram á fundartímann að þetta mál kæmi á dagskrá. Frá minni hálfu er engin krafa gerð um það að málinu verði lokið á þessum fundartíma, sem við höfum til ráðstöfunar nú, né þá heldur milli kl. 6 og 7 - ef mönnum svo sýnist - ef öruggt er að deildafundir verði á morgun. En auðvitað væri æskilegt að við gætum haldið þeirri stefnu, sem við urðum sammála um í nefndinni, að reyna að koma málinu til 3. umr. nú.

Hér er um dálítið sérstæða afgreiðslu að ræða. Ég veit ekki hvort hv. þdm. hafa almennt gert sér grein fyrir því að nú þarf að fjalla með öðrum hætti um lánsfjárlög en áður hefur verið. Frv. til lánsfjárlaga fyrir 1986 var núna lagt fram samhliða fjárlagafrv. en þar að auki þá er nú fjallað um það í samræmi við nýsett lög um breytingu á framsetningu ríkisreiknings og fjárlaga, þ.e. lög frá síðasta vori, lög nr. 84/1985, um breytingu á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, en lánsfjáráætlunin er nú hluti af fjárlagafrv. ef rétt er með farið.

Við í hv. fjh.- og viðskn. Ed. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þdm. að tala saman í hliðarherbergjum, þetta truflar ræðumann.) Við í hv. fjh.- og viðskn. Ed. áttum raunar frumkvæðið að því þegar fjallað var um þessi lög, breytingu á þessum lögum sem ég nefndi, um ríkisbókhald og ríkisreikning að gerð yrði gangskör að því að reyna að koma fjárlagagerð ríkisins í annað horf en verið hefur, þ.e. að fella lánsfjárlög inn í fjárlögin sjálf þannig að á einum stað væri að finna sem mest af því sem ríkisfjármál - hv. forseti Sþ., mætti ég biðja um að fá hljóð? (ÞK: Ég stjórna ekki þessari deild.) Sameinaðs þings sagði ég. Ég sagði hv. forseti Sþ., mætti ég fá hljóð. (ÞK: Forseti Sþ. stjórnar ekki þessari deild.) Nei, en hann var að tala stöðugt. (ÞK: Nú, var það?) Já. (ÞK: Var enginn að tala nema hann?) Jú, hv. þm. Skúli Alexandersson líka. (Gripið fram í: Hann er nú bara ritari.) (Forseti: Við skulum ekki hafa svona samtal í salnum.) Ég veit nú varla hvert ég var kominn í messunni, en við áttum sem sagt í hv. fjh.- og viðskn. frumkvæðið að því að upp var tekinn sá háttur sem nú er á gerð lánsfjárlaga og fjárlaga, þ.e. að reyna að sameina á einum stað sem mest af því sem ríkisfjármálin varðar. Ég held að þarna sé um mjög mikla bót að ræða og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka sérstaklega fyrrv. fjmrh. - núv. hæstv. iðnrh. fyrir það að hafa tekið alvarlega þessar breytingar sem gerðar voru í fyrravor fyrir okkar frumkvæði á nefndum lögum og raunar líka Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. og svo auðvitað núv. hæstv. fjmrh.

En það varð sem sagt að samkomulagi milli okkar nm. að reyna að ljúka afgreiðslu 2. umr. þó að mál væru alls ekki komin í höfn því það var um tvo kosti að velja. Annaðhvort mundum við hér í Ed. óska eftir samstarfi við hv. fjh.- og viðskn. Nd. til að vinna málið, þannig að það gæti fylgt fjárlögunum, eða við mundum reyna að hraða afgreiðslu hjá okkur og málið gengi þannig til Nd.-nefndarinnar sem hefði þá nokkurra daga svigrúm til að fjalla um það. Og þar verða örugglega einhverjar breytingar gerðar á fjárlögum eða lánsfjárlögum sem þýðir að málið verður að koma aftur til okkar samhliða afgreiðslu fjárlaga eða rétt á undan samþykkt fjárlaganna.

Við komumst að þeirri niðurstöðu að þessi háttur væri heppilegri, að reyna að koma málinu héðan út úr deildinni, og mundum síðan sameinast um að afgreiða málið með þeim breytingum sem í Nd. verða vafalaust gerðar á stuttum fundi í lokin. Þessi vinnubrögð verðum við að viðhafa og síst sæti það á okkur, sem börðumst fyrir þessari breytingu, að sinna ekki þeirri skyldu okkar, sem nú leggst á þm., að afgreiða lánsfjárlög samhliða fjárlögum.

Til þess að lengja ekki mitt mál ætla ég ekki að fara að rekja frv. sjálft til lánsfjárlaga enda hefur það verið gert við 1. umr. af hæstv. fjmrh., heldur eingöngu að víkja að þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar ýmist í samkomulagi í hv. fjh.- og viðskn. eða af hálfu meiri hl. nefndarinnar.

Þegar fjmrh. mælti fyrir fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga þá gerði hann grein fyrir allnokkrum breytingum á lánsfjárlögum og eru fluttar um það sérstakar brtt. á þskj. 228, sem ég hygg nú að menn átti sig nokkuð vel á, og er raunar ekkert í því nýtt, það er ekkert umfram það sem hæstv. fjmrh. boðaði í fjárlagaræðu sinni. Ég skal því ekki fara að rekja hverja einstaka tillögu.

Ég vil geta þess að ég hef látið fjölrita og útbýta meðal þdm. skjali sem nefnt er „Framlög til ýmissa sjóða“ og þar koma fram allar skerðingar, og raunar líka viðbætur við sjóði, og skal ég ekki fara að lesa hér upp hvern einstakan lið. Ég hygg að menn átti sig nokkuð á því. Í fjórðu línu í upptalningunni, þar sem talað er um Byggðasjóð, á að vera Byggðastofnun að sjálfsögðu og þar eru á fjárlögum 80 millj. kr. en í dálkinum sem heitir „Framlög samkvæmt lögum“ er 0 því að í lögum um Byggðastofnun er ekki kveðið á um sérstök framlög heldur að þau séu ákveðin á fjárlögum. Og þar sem talað er um aftur Stofnlánadeild landbúnaðarins og Lífeyrissjóð bænda þá er rétt að sameina þá liði þar sem þetta er samtengt. Að öðru leyti held ég að þetta skýri sig allt saman sjálft.

Í samræmi við þessar breytingar sem hæstv. fjmrh. boðaði eru brtt. nú fluttar.

Ljóst er að breytingar verða á þeim fjárhæðum sem hér hafa verið nefndar, eins og ég áðan vék að. Þar ber fyrst að nefna áhrif af afgreiðslu fjvn. á lánaþörf A-hluta fjárlaga sem þarf að sjálfsögðu að koma inn í 1. gr. þeirra. Í öðru lagi hafa nefndinni borist nokkur erindi um lántökuheimildir sem ekki eru enn afgreidd.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega geta þess að erindi mun hafa borist hingað til þingsins frá Iðnþróunarsjóði sem dags. er 28. nóv. Það var hins vegar ekki í möppum okkar nm. en fannst inni í horni í dag, þegar mér hafði verið gert aðvart um þetta erindi, var þar í sérstakri möppu langt frá plöggum nefndarinnar, en eins og menn vita eru margir nefndir sem þurfa að hafa aðgang að þessu herbergi og talsvert mikið af skjölum þar, og ég held þess vegna að engan sé hægt að saka um þetta. Þarna hafa orðið mistök. Þar er sem sagt umsókn frá Iðnþróunarsjóði um heimildir til erlendrar lántöku og að sjálfsögðu mun sú umsókn eins og annað verða tekið upp á milli 2. og 3. umræðu á nefndarfundum. En auðvitað eru fleiri umsóknir væntanlegar, hygg ég, og allt það þurfum við að ræða núna næstu 2-3 dagana.

En hvað varðar þau erindi sem okkur hafa borist en hafa ekki verið afgreidd þá er um að ræða 100 millj. kr. lántöku til mengunarvarna í fiskimjölsverksmiðjum. Það er reyndar ekki erindi heldur brtt. frá hv. þm. Helga Seljan. Þá er ósk um lántökuheimild Útflutningslánasjóðs sem enn hefur ekki hlotið afgreiðslu. Enn er til umræðu að tryggja fjármagn til fiskiræktar að upphæð 350 millj. kr. án þess að raska niðurstöðum lánsfjárlaga. Tillaga er í nefndinni um að gera það með þeim hætti að liðurinn „Framkvæmdasjóður og fiskeldi“ í lánsfjáráætluninni sem er upp á 150 millj. kr. í frv. verði nefndur Fiskeldi eingöngu, féð gangi sem sagt allt til fiskeldis. Að eigin ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs verði hækkað úr 230 millj. kr. í 330 millj. og renni 100 millj. til fiskiræktar. Loks fari 100 millj. kr. af fé því sem ætlað er í Byggðastofnun með einhverjum hætti til fiskiræktar, annaðhvort með því að stofnunin ráðstafi 100 millj. kr. til þessa verkefnis eða lántökuheimild hennar lækki um 100 millj. kr. en liðurinn „Fiskirækt“ hækki sem því nemur. Ég hygg að eðlilegast væri og skemmtilegast að ná um það samkomulagi nú þessa dagana við stjórn Byggðastofnunar að hún ráðstafaði þessum 100 millj. í lán til fiskiræktar þannig að ekki þyrfti að koma til neinna breytinga út af fyrir sig í lánsfjárfrv. frá því sem þar er ákveðið. Stofnunin hefur allmikið fé, á 700. millj. til ráðstöfunar og það fer varla á milli mála að þó að sjöundi partur af því eða eitthvað slíkt, sjötti partur, færi til fiskiræktar yrði því fé áreiðanlega ekki betur varið í neinum öðrum tilgangi. Ég á von á því að um þetta gæti náðst fullt samkomulag, bæði í hv. fjh.- og viðskn. og eins með stjórn Byggðastofnunar.

Loks var hjá nefndinni erindi frá grænfóðurverksmiðjunni Vallhólma hf. um heimild til 23 millj. kr. lántöku. Nefndin taldi ekki efni standa til afgreiðslu málsins, m.a. vegna skorts á upplýsingum.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta nema þá að gefnu tilefni. Ég hygg að málið liggi nokkuð ljóst fyrir og, eins og ég gat um, hefur samstarf verið gott í nefndinni og það leyfi ég mér að þakka. Hins vegar eru auðvitað skiptar skoðanir eins og vera ber og alltaf hlýtur að verða, en meginumræðuna um þetta mál höfum við hugsað okkur að hafa við 3. umr., og fara þá kannske vítt um völl eins og vera á í pólitískri umræðu. Sem sagt, ég legg ekki áherslu á að málið verði afgreitt nú á svona skömmum tíma, en vissulega þætti mér vænt um það.