11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Fyrir fáum dögum var það opinberlega upplýst að afkoma ríkissjóðs á árinu 1985 væri verulega miklu lakari en ráð hafði verið fyrir gert á þessu hausti. Það er því ljóst að þær forsendur sem menn gáfu sér þegar þessi lánsfjáráætlunardrög voru sett saman í haust eru brostnar, eru orðnar allt aðrar. Má því gera ráð fyrir að þær tölur sem eru í lánsfjáráætluninni eigi eftir að breytast verulega jafnhliða meðferð fjárlagafrv. í fjvn. þegar upplýsingar munu koma fram um væntanlega tekjumöguleika ríkissjóðs á næsta ári í ljósi nýrra viðhorfa og í ljósi þróunar á útgjöldum ríkissjóðs á þessu hausti. Sem sagt, forsendur hafa breyst frá því sem var, eru í raun og veru brostnar, og þetta gerir að sjálfsögðu öllum afskaplega erfitt fyrir að leggja mat á efni þessa frv. Það ríkir veruleg óvissa um tekjuöflun og lánsfjárþörf ríkissjóð. Hætt er við að allt verði í óvissu a.m.k. þar til 3. umræða fjárlaga hefur farið fram um það hvað ríkissjóður þarf raunverulega að taka að láni og segja mætti mér að sú óvissa mundi kannske standa jafnvel miklu lengur en svo eða langt fram á næsta ár.

Ég sagði við 1. umræðu þessa máls að ég hefði heyrt að verulega stórar upphæðir vantaði inn í fjárlagafrv. miðað við frv. eins og það var lagt fram í haust, og ég minnist þess að hæstv. fjmrh. brást ókvæða við og taldi að um einhverjar einkennilegar dylgjur væri að ræða ef ekki eitthvað þaðan af verra. En það er nú einmitt að koma í ljós þessar vikurnar að þetta var rétt og sér þó ekki fyrir endann á þeirri óreiðu. Þess vegna er það svo að allar tölurnar sem við erum með í þessari lánsfjáráætlun, niðurstöðutölur á ég þá við, eru bráðabirgðatölur, tölur sem kunna að breytast verulega á næstu vikum. Þetta er viðurkennt í fjh.- og viðskn. og er ekkert launungarmál eða deiluefni.

Við í stjórnarandstöðunni höfum fallist á að 2. umræða málsins fari fram í dag og 3. umræða eftir nokkra daga og síðan verði málið sent til Nd. og fái þar venjulega afgreiðslu. En við vitum það að frv. á kannske eftir að koma aftur til Ed. Þar kann það að taka verulegum breytingum miðað við þær breytingar sem yrðu þá gerðar á frv. í Nd. vegna þeirrar óvissu sem ríkir um fjárlagadæmið. Þannig verða menn að vinna. Ef þeir vilja hafa einhverja minnstu von um að lánsfjárlagafrv. verði afgreitt fyrir jól er auðvitað óhjákvæmilegt að ljúka meðferðinni í Ed. en það er á margan hátt alls óviðunandi að þegar deildin er að afgreiða málið frá sér gerir hún það í vitund þess að málið á sennilega eftir að koma aftur til deildarinnar verulega breytt. Það er mjög óvenjulegt að þannig þurfi að standa að málsmeðferð hér á Alþingi. En auðvitað er skýringin engin önnur en sú að málin eru svona óljós hjá hæstv. ríkisstj. og svona mikil ringulreið ríkjandi við fjárlagaafgreiðsluna sem m.a. lýsir sér svo aftur í því að fulltrúar minni hl., fulltrúar stjórnarandstöðunnar, hafa ekki treyst sér til á þessu hausti að skrifa upp á tillögur nefndarinnar. Það er því meiri hl. fjvn. sem stendur að úthlutun á fjárveitingum til einstakra málaflokka, og ég hygg að það sé í fyrsta skipti í mjög mörg ár sem þannig stendur á að minni hl., stjórnarandstaðan, treystir sér ekki til vegna þessarar ringulreiðar allrar að standa að nál. um skiptingu á einstökum fjárlagaliðum.

Samkvæmt frv. eins og það liggur fyrir nú og er, eins og ég hef þegar tekið fram, bráðabirgðaafgreiðsla er áformað að taka 7136 millj. kr. að láni erlendis, en afborganir af löngum erlendum lánum nema 5870 millj. kr. Langtímaskuldir gagnvart útlöndum eiga því að aukast um rúmlega 2000 millj. kr., reyndar, svo að nákvæmt sé farið í hlutina, 2066 millj. kr., en varla tekur því að vera að telja þessar milljónir nákvæmlega fram því að við vitum að þessi tala er afskaplega lítils virði, mjög svo gróft reiknuð áætlunartala í svipinn og á kannske eftir að taka verulegum breytingum.

Á sínum tíma lýsti ríkisstj. því yfir að erlendar skuldir í hlutfalli við þjóðarframleiðslu mundu ekki fara yfir 60%. Við afgreiðslu lánsfjáráætlunar í fyrra var þetta hlutfall áætlað 64%, var sem sagt komið 4% fram úr áformum ríkisstj. þegar hún kom til valda miðað við árslok 1985. Við sem skipum minni hl. nefndarinnar höfum gert tilraun til að afla vitneskju um hver þessi hlutfallstala er í árslok 1985 miðað við nýjustu upplýsingar. En þessi tala hefur ekki fengist reiknuð á nákvæman hátt og Þjóðhagsstofnun féllst ekki á að reikna hana, taldi ýmislegt í veginum til að unnt væri að gera það og verður þá að segjast að ríkisstj. er aldeilis bærilega sloppin frá hinu svikna loforði sínu um 60% þegar Þjóðhagsstofnun hefur komið málum svo fyrir að þessi tala fæst bara hreinlega ekki reiknuð lengur og þar af leiðandi er engan samanburð að fá. Fjárlaga- og hagsýslustofnun var vissulega reiðubúin að aðstoða í þessum efnum eins og henni var framast unnt, en vegna þess að ekki lágu fyrir gögn, sem til staðar þurftu að vera, höfum við ekki neina samanburðartölu sem á er byggjandi.

Nýja reikningsaðferðin hjá Þjóðhagsstofnun er miðuð við landsframleiðslu og er reiknuð út á dálítið annan hátt. Til upplýsingar er rétt að taka fram að hún telst vera nú í árslok 1985 tæp 53%, 52,9%, sem auðvitað segir okkur ekki neitt, segir okkur nákvæmlega ekki neitt af því að við getum ekki borið þá tölu saman við neina aðra tölu, en kannske getum við borið hana saman við töluna sem stendur eftir að þessu ári loknu þegar þar að kemur.

Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á því að þessar tölur um þróun langtímalána segja alls ekki alla söguna. Það kemur skýrt fram í töflu 23 í fjárlagafrv., þar sem fjallað er um áætlaðan greiðslujöfnuð við útlönd, að skammtímalán munu aukast mjög verulega á næsta ári eða um 2234 millj. kr, sbr. liðinn Stuttar fjármagnshreyfingar nettó í þessari töflu nr. 23, þannig að raunveruleg skuldaaukning er miklu meiri en nemur 2000 millj. kr. skuldaaukningu í löngum erlendum lánum. Hún er í raun og veru samanlagt upp á 4200 millj. sem vissulega kemur ekki neitt á óvart því að auðvitað er sú tala í nánum tengslum við áætlaðan viðskiptahalla á komandi ári.

Að öðru leyti er ekki ástæða til að fjölyrða um afgreiðslu nefndarinnar á þessu frv., en rétt er að láta þess getið að bersýnilegt er að ýmsir liðir í áætluninni eru grunsamlega útreiknaðir og sennilegast vanáætlaðir. Nægir að nefna sem dæmi að beiðnir hitaveitna sveitarfélaga um lántökur, sem einkum eiga að ganga til skuldbreytinga vegna mikilla fjárhagserfiðleika, eru upp á 200 millj. kr. en í frv. eru 95 millj. Ég á afskaplega bágt með að trúa því að beiðnum þessara hitaveitna verði alfarið hafnað þegar þar að kemur þó að slík áform séu höfð uppi í frv. Hitt finnst mér miklu líklegra að menn setji þessa lágu tölu inn í frv., 95 millj., einfaldlega vegna þess að menn vilja sýna sem lægsta tölu og reyna að stæra sig af því að lántökurnar séu þó ekki meiri en þetta eða a.m.k. að forðast aukna gagnrýni miðað við að talan væri enn hærri, en síðan sé ætlunin að leysa vandræði þessara hitaveitna með sérstökum ráðstöfunum öðrum á næsta ári og afla til þess heimilda á síðara stigi, eins og vissulega eru mörg fordæmi fyrir.

Ég vil líka taka það fram að varlega ber að treysta því og trúa að einkafyrirtæki taki ekki meiri erlend lán en nemur þessum 2535 millj. kr. sem nefndar eru í frv. því að ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir meiri lántökur en hér eru nefndar sýnir reynslan að aðhaldið er ekki meira en svo að allt eins er líklegt að verulega sé farið fram úr áætlun, og svo gæti orðið einnig á næsta ári. Til fróðleiks er rétt að geta þess að á þessu ári virðast lántökur einkaaðila hafa farið 130 millj. kr. fram úr áætlun ársins.

Eins er rétt að benda á að sala spariskírteina ríkissjóðs virðist áætluð nokkuð bjartsýnislega, að ekki sé hreinlega sagt að þar sé um óraunsæja spá að ræða, því að miðað við þá stefnu sem ríkisstj. rekur í lána- og vaxtamálum er ákaflega varlegt að trúa því að nettóinnstreymi hjá ríkissjóði verði í þeim mæli sem áætlunin gerir ráð fyrir.

Við í stjórnarandstöðunni höfum ýmsar athugasemdir að gera við þetta frv. í einstökum atriðum. Þess var getið við 1. umræðu að við í stjórnarandstöðunni værum ekki öll mjög hrifin af ýmsum skerðingarákvæðum frv. Ég gat þess t.d. sérstaklega að ég væri mjög óhress með það að Kvikmyndasjóður væri skorinn niður eins og raun ber vitni. Þar er um smáupphæðir að ræða. Ríkissjóður og Alþingi eða ríkisstj. hafði heitið kvikmyndaiðnaðinum íslenska, þessum vaxtarbroddi í íslenskri menningu, að betur yrði við hann gert en verið hefur og samþykkt lög þess efnis vorið 1984, en svo á ekki að standa við þau fyrirheit. Það tel ég mjög til vansa þeim sem þá tillögu gera. Kvikmyndaiðnaðurinn íslenski ætti að vera óskabarn okkar allra. Hann hefur staðið sig ákaflega vel og verður að fá hliðstæðan stuðning opinberra aðila og sambærilegur iðnaður í öðrum löndum. Annars er hann dauðadæmdur og viðleitni þess fólks sem mikið hefur lagt á sig í þessum efnum að engu gerð. Ég skora mjög eindregið á hæstv. fjmrh. og ríkisstj. alla að sjá sóma sinn í því að skera ekki niður Kvikmyndasjóð frá þeim tölum sem gert er ráð fyrir í lögunum um Kvikmyndasjóð.

Sama má segja um fleiri sjóði eins og sérstaklega Framkvæmdasjóð fatlaðra sem er mjög verulega skorinn niður. Ég held að þeim sjóði veiti ekkert af þeim upphæðum sem lög gera ráð fyrir að til hans gangi. Og almennt er það sorgarsaga að gripið er til þess ráðs að skerða mjög verulega framlög til menningarmála og menntamála og félagsmála í þessu frv. Þar er í mörgum tilvikum um algerar smáupphæðir að ræða sem ekki mundu miklu breyta.

Ég nefni svo hins vegar eina stóra upphæð í frv. sem sannarlega mætti skera. En það eru áformaðar framkvæmdir Landsvirkjunar. Þær eru áformaðar á næsta ári hvorki meira né minna en 642 millj. kr. Það er skoðun okkar í stjórnarandstöðunni að engin þörf sé á þessum gífurlega miklu framkvæmdum í orkugeiranum, enda er spáin um orkuþörf landsmanna á þann veg að ekki er þörf á þeim framkvæmdahraða sem þar er áformaður. Þarna er ég að tala um stóra upphæð, upphæð sem er margföld á við þær litlu upphæðir sem hins vegar þyrfti að hyggja að í hækkunaráttina.

Virðulegi forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en læt þess getið að við 3. umr. er ekki ólíklegt að við í stjórnarandstöðu berum fram nokkrar brtt. - [Fundarhlé.]