11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fjárhags- og viðskiptanefndarmönnum fyrir þá vinnu sem þegar hefur verið lögð af hálfu þessarar hv. þingdeildar í afgreiðslu frv. Það hagar svo til, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, að lánsfjárlög eru nú með beinni hætti en áður tengd afgreiðslu fjárlaga og fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hafði nokkurt frumkvæði að því að sú nýbreytni hefur verið upp tekin sem að mínu áliti og flestra sem til þekkja er til mikilla bóta. En auðvitað setur það mark sitt á umfjöllun málsins hér og er eðlilegt að ýmis erindi og álitaefni, sem upp koma og taka þarf afstöðu til í tengslum við lánsfjárlög, séu ekki fram komin eða um að bil að koma fram í ljósi þess hversu seint lánsfjárlög hafa verið afgreidd frá Alþingi á undangengnum árum. En með þessu nýja vinnulagi er þess að vænta að betri skipan komist á í þessu efni.

Auðvitað er það áhyggjuefni, eins og hér hefur komið fram í ræðum manna, hver skuldastaða þjóðarbúsins er. Við höfum um allnokkurt árabil glímt við þennan vanda. Þessi þróun, að fjármagna útgjöld ríkisins með erlendum lánum, hófst af fullum þunga á árunum upp úr 1980 og því fer auðvitað víðs fjarri að við höfum komist út úr þeim vanda. Af augljósum ástæðum kostar það verulegt átak og sérstakt aðhald í útgjöldum eigi það að takast.

Við undirbúning fjárlaga og með þeim breytingum sem ákveðnar hafa verið á fjárlögum hefur verið miðað að því að draga úr erlendri lántöku á næsta ári frá. því sem ella hefði orðið. Í athugasemdum með fjárlagafrv. kemur fram að ráð er fyrir því gert að erlendar skuldir á þessu ári séu 54,8% af landsframleiðslu, en verði á næsta ári 54,4% eða lítið eitt lægri. Þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að draga enn úr opinberum útgjöldum lækka þessa tölu nokkuð frá því sem hún er birt í athugasemdum með frv. Hitt er svo satt og rétt, eins og vakin hefur verið athygli á hér í umræðunum, að viðskiptahallinn hefur auðvitað veruleg áhrif á skuldasöfnunina við útlönd og skammtímaskuldir sem þannig hlaðast upp verða að langtímaskuldum og þyngja heildarskuldabyrði og greiðslubyrði ef ekki er spyrnt við fótum.

Auðvitað eru ýmsir aðrir þættir í efnahagskerfinu sem hafa áhrif þar á, en því verður ekki á móti mælt að með undirbúningi fjárlaga og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á fjárlagafrv. hefur verið við það miðað að ríkisbúskapurinn sjálfur stuðlaði ekki að því að erlenda skuldabyrðin ykist. En í þessu efni glímum við enn við mikinn vanda vegna viðskiptahalla og væri of langt mál að fara út í almenna efnahagsumræðu að því leyti á þessu stigi málsins.

Hv. 11. þm. Reykv. vék að nokkrum atriðum, m.a. framlögum til húsnæðismála, og þóttist sýna fram á það í ræðu sinni að ríkissjóður stæði ekki við skuldbindingar sínar lögum samkvæmt með því að draga frá hina sérstöku fjáröflun til húsnæðislánakerfisins. Þetta er nokkuð kyndug útreikningsaðferð. Það hefur verið ákveðin sérstök fjáröflun til húsnæðislánanna sem leiðir til þess að framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðanna verður langt umfram það sem lög mæla fyrir um. En það er svo hálfkynleg aðferð að draga þessa sérstöku fjáröflun frá og segja að á þann veg verði framlagið fyrir neðan það sem lög kveða á um.

Hér var einnig minnst á ýmsa aðra sjóði, m.a. Kvikmyndasjóð. Ef nú yrðu á hinu háa Alþingi samþykkt lög um viðbótarfjáröflun til Kvikmyndasjóðs ætti með sömu röksemdafærslu að vera unnt að segja að enn skorti á að framlög yrðu fullnægjandi samkvæmt lögum til Kvikmyndasjóðs því að að sjálfsögðu yrði að draga frá hina sérstöku fjáröflun. Slíkur málflutningur fær að sjálfsögðu ekki staðist.

Auðvitað er það áhyggjuefni að um langt árabil hefur þurft að skerða framlög sem lög kveða á um. Eins og fram kom hjá hv. 5. landsk. þm. hafa margar ríkisstjórnir komið að verki og ástæðan sú, augljós, að Alþingi hefur samþykkt í einstökum lögum útgjöld sem þingið sjálft hefur síðan ekki treyst sér til að standa við með tekjuöflun. Í þessu efni verða menn að sigla á milli skers og báru og finna hið eðlilega jafnvægi á milli þess sem menn treysta sér að leggja á borgarana í sköttum og hins sem þeir ákveða sem útgjöld ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu, frú forseti, til að fara fleiri orðum um þau atriði sem fram hafa komið við þessa umræðu, en eins og greint hefur verið frá er viðbúið að frekari umræða fari fram við 3. umr. málsins.