11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Hitaveita Suðurnesja er merkilegt fyrirtæki og árangur af samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ríkisins, samstarfi sem leiddi til þess að sú hitaveita varð til, hitaveita sem flytur yl til allra Suðurnesjamanna á mun lægra verði en hefði verið þyrftu menn að búa við olíu eins og gerðist hér áður fyrr. Nú hefur Hitaveita Suðurnesja keypt raforkukerfið eða raforkudreifinguna alla, rafveitur allra sveitarfélaganna, og því er eitt orkudreifingarfyrirtæki, Hitaveita Suðurnesja, sem sér um þessi mál í dag. Samstarfið, sem þarna hefur átt sér stað, getur og ætti að verða öðrum sveitarfélögum til fyrirmyndar, svo vel hefur það gengið.

Þetta samstarf hefur þó haft þann annmarka að sá aðili, sem hefur verið hvað stærstur að eignaraðild, hafði samkvæmt fyrra fyrirkomulagi ekki fulltrúa í stjórn í fjögur ár og hafði því engin áhrif þar. Er það Keflavíkurkaupstaður. Þetta olli mikilli óánægju og vissulega líka tortryggni hjá íbúum þessa stærsta byggðarlags á Suðurnesjum.

Samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir, hvar eignaraðildin hjá sveitarfélögunum er hækkuð verulega, á enn að hafa hlutdeild Keflavíkur rýrari en efni standa til. Samkvæmt frv. á ríkissjóður að eiga tvo fulltrúa í stjórn. Ríkissjóður er með 20% eignaraðild. En Keflavíkurkaupstaður, sem er með um 40% eignaraðild, á að hafa aðeins einn.

Við 1. umr. gagnrýndi ég þessa gjörð og nú hef ég með brtt., sem er hér á sérstöku þskj., lagt til að þessu verði breytt á þann veg að Keflavíkurkaupstaður fái tvo fullfrúa en ríkissjóður einn fulltrúa. Tel ég það sanngirni og eðlilegt að svo sé. Reyndar sagði ég einnig að ríkissjóður gegndi þýðingarmiklu hlutverki við uppbyggingu hitaveitunnar og hjálpaði þar mjög vel til. Hitt er annað að það er skoðun mín að smám saman eigi ríkið að fara út úr þessum rekstri. Nú hefur eignaraðild ríkisins lækkað úr 40% í 20% og ég hygg að í framtíðinni sé rétt að stefnt verði að því að ríkissjóður hætti eða hafi ekki eignaraðild þarna. Það er ekki tímabært nú en það verður sjálfsagt tímabært seinna að sveitarfélögin ein taki þennan rekstur í sínar hendur.

Ég bendi á að það er mjög mikið sanngirnismál að Keflavíkurkaupstaður hafi tvo fulltrúa með 40% eignaraðild en ríkissjóður einn fulltrúa með 20% eignaraðild, en samkvæmt frv. er þessu alveg öfugt farið. Ég treysti því að hv. deildarmenn samþykki þessa till. og sjái hversu mikil sanngirni er þarna á ferðinni. Ég veit að séu menn sjálfráðir með atkvæði sitt muni þeir greiða þessari tillögu atkvæði.