11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Frv. þetta til laga um breyt. á l. nr. 100 frá 31. des. 1974 um Hitaveitu Suðurnesja, sbr. lög nr. 26 frá 1980 og nr. 91 frá 1984, hefur hlotið góða og hraða meðferð í hv. iðnn. þessarar deildar. Ég vil færa henni þakkir fyrir góða afgreiðslu og skjóta.

Það hefur borist ein brtt., en því miður get ég ekki stutt hana.

Frv. felur í sér þær breytingar á lögunum um Hitaveitu Suðurnesja, er leiðir af samningum um sameiningu rafveitnanna á Suðurnesjum. Samningar þessir voru gerðir í framhaldi af samþykkt heimildarlaganna þar um, þ.e. laga nr. 91 frá 1984 um breytingu á lögum um Hitaveitu Suðurnesja. Ákvæði frv. um innbyrðis skiptingu eignarhluta sveitarfélaga svo og tillögur um stjórnarkjör og starfstilhögun í stjórn eru samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um milli sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ríkið hefur fyrir sitt leyti fallist á þá tilhögun.

Samkomulag það sem vísað er til er dags. 5. júlí 1985 og undirritað af fulltrúum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Í samkomulaginu er kveðið á um skiptingu á eignarhlutum. Eignarhlutur ríkisins lækkar skv. því í 20%. Þessi lækkun kemur til þar eð sveitarfélögin leggja fram skuldlausar eignir í fyrirtækið og auka þar með eign sína í fyrirtækinu. Ríkissjóður leggur engar eignir í fyrirtækið á móti og lækkar því eignarhlutur þess að sama skapi. Um þetta efni er full eining meðal eigenda. Í tengslum við samningsgjörðina undirrituðu sveitarfélögin sérstaka bókun um breytingu á lögum um félagið vegna breytts stjórnarskipulags.

Í öðrum tölulið bókunarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnir eru sammála um að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögum um Hitaveitu Suðurnesja:

1. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja skal skipuð níu fulltrúum, einum frá hverju sveitarfélagi og tveimur frá ríkissjóði.

2. Við afgreiðslu mála skal að jafnaði viðhafa hlutfallslega atkvæðagreiðslu miðað við eignarhluta samkvæmt 1. gr., enda komi ósk a.m.k. eins stjórnarmanns þar um og þarf þá 60% atkvæða til að mál teljist afgreitt.

3. Hitaveita Suðurnesja verði undanþegin álagningu hvers konar gjalda til sveitarsjóðanna.“

Iðnrh. samþykkti þetta fyrir hönd ríkisstj. með bréfi dags. 26. sept. 1985 og er frv. þetta lagt fram í samræmi við það. Um þetta mál virðist því vera gott samkomulag. Ein brtt. hefur þó komið fram frá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Hann leggur til að ríkissjóður tilnefni einn stjórnarmann í stað tveggja en Keflavíkurbær tvo í stað eins, svo sem gert er ráð fyrir í frv. Með vísan til þess að viðhafa ber hlutfallslega atkvæðagreiðslu í stjórn, miðað við eignarhlutfall, þegar þess er óskað, sýnast áhrif Keflavíkurbæjar í stjórn vel tryggð. Með vísan til þess sem áður sagði um samkomulag eignaraðila um stjórnarkjör, sem m.a. er staðfest með undirritun fulltrúa Keflavíkurbæjar, get ég ekki tekið undir brtt. frá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Þar af leiðir að ég legg til að frv. verði samþykkt óbreytt.