11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það er hægt að viðurkenna að samningur hafi verið gerður við Suðurnesjamenn um að yfirtaka eignarhluta Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum og sá samningur hafi verið gerður við löglega fulltrúa ríkisins. En ekki er þar með sagt að sá samningur beri í sér eitthvert réttlæti sem við eigum endilega að samþykkja. Hann ber nefnilega ekki í sér réttlæti vegna þess að þeir sem hafa gert samning og þeir sem hafa búið til samning þannig að þeir séu stjórnarmenn þess fyrirtækis presentera ekki gegnumgangandi skoðanir Suðurnesjamanna. Samningurinn er gerður við meirihlutamenn á Suðurnesjum og eins og við höfum sagt hér áður: Þar hafa ekki komið að aðrir en stjórnarsinnar, þ.e. framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, og sú stjórn sem þetta fyrirtæki er síðan að koma sér upp er byggð upp á nákvæmlega sama máta.

Þess vegna tel ég að Alþingi hafi fullan og sjálfsagðan rétt til þess að samþykkja brtt. Karls Steinars og það sé raunverulega réttlætismál þvert á þann samning sem hefur verið lagður fyrir Alþingi.