11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 3. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 237. Ábyrgð á því nál. bera Ingvar Gíslason og Páll Pétursson. Nál. er svohljóðandi:

„Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Við undirritaðir leggjum til að frv. verði samþykkt, þ.e. staðfestur verði 4. viðauki við aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium frá 11. nóv. 1985.

Nefndin hefur fjallað vandlega um frv. og kvatt á fund sinn eftirtalda: Stefán Svavarsson, löggiltan endurskoðanda, Ragnar Árnason lektor, Halldór J. Kristjánsson lögfræðing, Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðanda, Eirík Tómasson hrl., Ragnar Aðalsteinsson hrl., Hjört Torfason hrl., Garðar Ingvarsson hagfræðing, Jóhannes Nordal, formann stóriðjunefndar, og Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra.

Í þessum samningi eru tveir meginþættir: skattstofn og skattstigi. Hvað varðar skattstofn þá er reynt í samningnum að skilgreina nánar þá þætti sem hætt er við að deilum gætu valdið, söluverð á áli og kaupverð á súráli og rafskautum, og ávinningur er að því að fækka hugsanlegum ágreiningsefnum. Með aukningu eigin fjár og breyttum reikningsskilareglum er tvímælalaust stefnt að því að reikningsskilin gefi réttari mynd af raunverulegri afkomu félagsins sem að líkindum verður okkur til hagsbóta. Hvað varðar skattstigana er um verulega einföldun að ræða á þeim reglum sem um þá gilda.

Þegar á heildina er litið er líklegt að þessar breytingar á skattstofni og skattstigum muni ekki verða okkur óhagstæðari en þær reglur sem nú gilda, heldur eru líkindi til að skatttekjur muni fremur aukast.

Hinum almenna rétti ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar á gögnum ÍSALs er í engu hróflað frá fyrri samningum en ekki hefur tekist að gera orðalag endurskoðunarákvæðisins ótvíræðara.

Við samningsgerð sem þessa verður í ýmsum tilfellum að byggja á framtíðarspám þegar meta skal árangur af samningum. Þess ber að geta að raforkuverðsspá ÍSALs, sem iðnn. var kynnt á s.l. ári, hefur ekki staðist.

Með vísan til ofanritaðs teljum við um nokkurn ávinning að ræða með samningi þessum og leggjum því til að frv. verði samþykkt óbreytt.“ Undir þetta nál. skrifa Páll Pétursson og Ingvar Gíslason.

Vegna ummæla sem prentuð eru í nál. 4. minni hl. iðnn., hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, er rétt að fram komi hér að ég bauð fulltrúa frá Alþfl. og fulltrúa frá BJ að sitja fundi iðnn. Í flestum tilfellum höfðu þau tækifæri til þess að mæta en á einn eða tvo fundi misfórust boð. Er það miður. En að sjálfsögðu viljum við ekki halda upplýsingum fyrir fulltrúum neinna stjórnmálaflokka hér á Alþingi þó að þeir eigi ekki fulltrúa í nefndinni.

Það er svo með þetta mál og þessa samningsgerð alla að mér virðist að menn hafi ákaflega fastmótaðar skoðanir á viðskiptum okkar við álverið. Sumir eru ákaflega fullir trúnaðartrausts í garð Alusuisse og ÍSALs en aðrir eru fullir tortryggni. Ég held nú að millivegurinn sé farsælastur, það sé fyllsta þörf á aðgát án þess að telja fyrir fram víst að óvinir sitji hvarvetna á fletjum fyrir.

Forsaga þessa máls bindur hendur okkar mjög. 1966 var gerður samningur sem okkur var um margt mjög óhagstæður. 1975 var reynt að laga hann en það lánaðist ekki vel. Enn þá var samið í fyrra. Þá náðist veruleg leiðrétting á sumum sviðum, t.d. á raforkuverði. Þó var þessi raforkuverðsleiðrétting ekki nægileg og spárnar um raforkuverðshækkunina, sem þá var gert ráð fyrir og reiknað með, hafa ekki staðist.

Raforkusala á 12,5 mill er ekki ábatasöm þegar framleiðslukostnaður úr nýjum virkjunum er a.m.k. þriðjungi hærri. Við erum búnir að koma okkur í mjög háskalega stöðu vegna erlendra skulda og helmingur af erlendum skuldum okkar er vegna lántaka í orkugeirann. Menn tala um erlendar skuldir og offjárfestingu í sjávarútvegi sem þó einungis ber ábyrgð á u.þ.b. 17% af okkar erlendu heildarskuldum. Við sitjum uppi með ónotaða raforku. Það er rétt að hægja á virkjunarframkvæmdum og nauðsynlegt að þjóðin sjái að sér í því efni.

Ég ætla ekki að tefja tímann með langri ræðu. Við leggjum sem sagt til að þessi samningur verði samþykktur. Við teljum að hann sé nokkurt skref í rétta átt að flestu leyti. Það er ekkert risaskref - það vil ég taka fram - að okkar mati en þó skref í rétta átt.