11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna greiddi atkvæði með svokölluðum álsamningum á síðasta þingi og þótti þeir vera skársta leiðin til að losna úr sjálfheldu sem við töldum að álmálið væri komið í. Fyrir þeirri samþykkt okkar lágu helst viðskiptalegar forsendur varðandi raforkuverð sem okkur þóttu þess eðlis að skynsamlegt væri að styðja þetta á þann hátt í efnahagslegu tilliti og síðan til þess að koma skrið á framgang þessa máls sem allt of lengi hafði dregist að vinna úr. Á þessum spretti að þessum 4. viðauka virðist okkur hins vegar ekki hafa verið nægilega vel haldið á okkar spilum. Ég á að vísu ekki aðild að hv. iðnn. sem hefur fjallað um þetta mál, en ég átti þess kost að sitja á einum tveimur fundum þar sem þó nokkuð var fjallað um þetta. Ég hef sömuleiðis haft aðgang að ýmsum gögnum sem ýmist hefur verið dreift á nefndarfundum eða gögnum sem hafa verið búin til vegna þeirra. Mér sýnist að sá kostur sem við nú höfum sé ekki viðunandi. Það er reyndar búið að rekja þetta mál mjög vandlega og það er orðið framorðið af degi, en ég get nefnt hættu á lækkandi heildarskatttekjum og ég get nefnt lækkandi grunn framleiðslugjalds. Að auki virðist mér staða Íslendinga furðu veik í öllum samskiptum við þetta fyrirtæki eftir sem áður varðandi t.d. aðhald og eftirlit með hinum ýmsu þáttum sem koma við sögu þegar þarf að meta skatttekjur og annað sem er lagt til útreiknings.

Í heildina verð ég að segja að mér virðist að Íslendingar hafi borðið skarðan hlut frá borði í þetta sinn, enda virðist manni af fundum iðnn. að samningamenn hafi verið furðu fljótir að taka það til bragðs að útskýra ætíð stöðu ÍSALs og reyna að verja hana sem skynsamlega, reyna að útskýra fyrir þm. hvers vegna það sé skynsamleg niðurstaða sem orðið hefur hverju sinni og reyna að sætta þingnefndina þannig við sinn hlut.

Þetta hefur allt saman leitt huga minn að máli sem er mjög vinsælt þessa dagna og er eitt vinsælasta efnið í umfjöllun fjölmiðla um Alþingi, en það er rannsóknarnefndin. Menn ná ekki upp í nefið á sér yfir rannsóknarnefndum. Málið er að við höfum rannsóknarnefndir og við tökum þátt í starfsemi rannsóknarnefnda í Alþingi á hverjum einasta degi. Hv. iðnn. er rannsóknarnefnd. Hún er nefnd fyrir hönd löggjafarvaldsins sem er að fylgjast með því sem framkvæmdavaldið gerir. Og hver er niðurstaðan af því? Niðurstaðan af því er einfaldlega sú að ef ekki hefði komið til lofsverð framganga hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í þeim efnum hefði löggjafarvaldið ekkert lagt til mála þar. Þessi rannsóknarárátta þingmanna er ekki meiri þegar á hólminn er komið. Það er kannske ekki skrýtið vegna þess að þegar maður litast um í herberginu þar sem þessi rannsóknarnefnd er, sem ekki þarf að setja sérstaklega á fót samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, er löggjafarvaldið alls ekki að rannsaka framkvæmdavald. Ég veit ekki í hvoru valdinu flestir þar eru.

Ég nefni sem dæmi að í þessari nefnd sátu hv. þm. Gunnar G. Schram og Birgir Ísl. Gunnarsson sem báðir eru aðilar á einn eða annan hátt að samningnum sem framkvæmdavaldið er að leggja fyrir löggjafarvaldið til að skoða. Þannig kemur þetta undarlega út. Þeir þm. stilla sér ekki upp löggjafarvaldsmegin til að spyrja spurninga fyrir hönd Alþingis til að vita hvað er á ferðinni. Þeir verða til varnar þegar löggjafarvaldið vill spyrja og stilla sér upp með samninganefndum framkvæmdavaldsins. Þessa mynd fær málið á sig. Ég held það sé ágætt fyrir menn að velta þessu fyrir sér, ef þeir ná andanum yfir rannsóknarnefndarmálinu vegna Hafskips, vegna þess að það eru augljóslega ekki öll kurl komin til grafar þó að mönnum takist að koma rannsóknarnefndum á fót. Kjarni málsins er einfaldlega að það er engin hefð í Alþingi Íslendinga fyrir starfsemi rannsóknarnefnda. Alþm. mundu líklega aldeilis fá á baukinn ef þeir sætu uppi með þetta Hafskipsmál og ættu að fara að rannsaka það eftir framgangi flestra þeirra í hv. iðnn. að dæma. Hér er komið enn eitt dæmið um það þegar reytur ruglast og menn gleyma hvorum valdþættinum þeir tilheyra.

Svo ég láti af þessum rannsóknarnefndaráhyggjum mínum og ef ég sný mér aftur að þessu máli, þá sýnist mér að við Íslendingar höfum hvorki út úr þessu máli þá peningalegu stöðu né þá samningalegu stöðu sem hægt sé að telja viðunandi eftir allt. Það er orðin niðurstaða þingflokks BJ að við munum greiða atkvæði gegn þessu frv.