11.12.1985
Neðri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minn hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Síðasti hv. ræðumaður tók nú þann tíma sem hv. forseti nefndi hér sem umræðutíma fyrir deildina í dag.

En ég get alveg fallist á að reyna að ljúka þessari umræðu hér nú ef menn hafa biðlund til að hlýða á mitt mál kannske viðlíka langan tíma og hv. 2. þm. Reykn. tók hér. Er ég þó síður en svo að gagnrýna það að hann leggi hér orð í belg, svo þýðingarmiklu hlutverki sem hann hafði að gegna fyrir íslensk stjórnvöld í þessu máli. Ég er hins vegar ekki viss um að ræða hans sé neitt sérstakt fagnaðarefni eða stuðningur við hæstv. iðnrh. í þessu máli.

Mér þykir í rauninni mjög gott að þessi málflutningur skuli vera færður inn í þingtíðindi því að hann skýrir fyrir okkur alþm., sem erum að reyna að átta okkur á þessu máli, betur en flest annað hvernig það mátti gerast á öllum þessum tíma, langtum lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir til samninga um þessi efni, skuli niðurstaða vera jafnhrakleg og fyrir liggur í þessu frv.

Auðvitað veldur hver á heldur. Og þar skiptir máli ekki aðeins vandvirkni og þekking á málsatvikum og innsýn inn í aðstöðu gagnaðilans, heldur líka að það sé til staðar einhver metnaður og eitthvert þor til að ná fram þeim leiðréttingum sem verða að teljast eðlilegar, nauðsynlegar og sanngjarnar miðað við allar aðstæður.

Hvers vegna ætli hv. 2. þm. Reykn. sé svona órótt út af þessu máli, eins og fram kom hér í hans síðustu ræðu? Ég hygg að hann hafi vikið að einu atriðinu undir lok síns máls, því atriði sem ég hef sérstaklega hirt hann fyrir, svo ég leyfi mér að nota það orð - ég gerði það bæði við 1. umr. þessa máls og eins í nál. sem ég kynnti hér í ræðu minni áðan - í sambandi við endurskoðunarrétt á rafskautum. Þar er þó um að ræða efni sem hv. þm. ætti að hafa einhverja faglega þekkingu á sem lögfræðingur því að maðurinn er lögmenntaður. En hver er uppskeran? Allar hans staðhæfingar hér í ræðu í 1. umr. eru gersamlega fallnar. Hann reynir ekki lengur að bera blak af sér eða hönd fyrir höfuð sér í sambandi við þetta efni. Þó voru aðeins tilburðir til þess hér áðan og þess vegna er nauðsynlegt að ganga aðeins betur frá honum að þessu leyti.

Maðurinn sagði okkur hér við 1. umr., samningamaður íslensku ríkisstj., að rafskautasamningarnir, sem verð á rafskautum væri miðað við, lægju á lausu, væru opinbert plagg. Hann segir okkur nú, að þarna sé um að ræða óháðan alþjóðlegan endurskoðanda og það verði bara að treysta þeim, með svipuðum hætti og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson bar hér á borð, því að hann hefur þegar áttað sig á þessu, endurskoðanda sem Alusuisse velur og sem staðfestir gagnvart ríkisstj. hvert verðið er.

Síðan er sagt: „Það er hægt að tengja þetta við hina árlegu endurskoðun.“ Það datt ekki nokkrum lögmanni, sem kom á fund iðnn. deildarinnar, í hug að halda því fram að við hefðum þann rétt til að komast að þessum samningum um rafskautin í sambandi við hina óháðu, árlegu endurskoðun nema Alusuisse hefði áhuga á því að sýna okkur þá. Það er búið að afsala okkur réttinum, það þarf að fara í gerðardóm samkvæmt ákvæðum 47. gr. ef menn ætla að knýja Alusuisse til þess. En einn lögmanna staðhæfði það til viðbótar að það hefði ekki neina efnislega þýðingu vegna þess að við hefðum ekkert að sækja fyrir gerðardóm að þessu leyti. Það er búið að ganga frá þessu með því að engar forsendur fyrir staðfestingu eru festar inn í samning.

Svo segir lagaprófessorinn hér áðan, hv. 2. þm. Reykn., að þá hefðu endurskoðendur Íslands fullan rétt til að endurskoða þessa samninga skv. gr. 29.04 eða 5 sem fjallar um hinn árlega endurskoðunarrétt. Hvar stendur það? Er þar talað um rétt endurskoðenda íslensku ríkisstj. til að komast inn í bækur Alusuisse þar sem þessir samningar liggja? Hvernig er það, hv. 2. þm. Reykn., er þar réttur til að komast inn í bækur Alusuisse? Nei, það er aðeins talað um bækur ÍSALs. Þar liggur munurinn. En enn reynir þessi samningamaður íslensku ríkisstj. að klóra hér í bakkann. Þetta sýnir okkur í hvers konar stöðu þetta mál hefur verið af Íslands hálfu þegar samningamenn halda með þessum hætti á málum og átta sig ekki á stafrófinu þó að þeir eigi að heita faglærðir í lögum.

Hvað er svo fleira sem veldur ókyrrð í huga hv. þm.? Jú, það er það að þær forsendur, sem iðnrn. hefur reynt að bera hér fram til að sýna fram á ágæti þessa samnings eða a.m.k. að réttlæta það að hann er lagður hér fram til staðfestingar, eru svo misvísandi, rangar sumpart og villandi að ekki stendur steinn yfir steini. Eitt er taflan og bilaða vasatölvan, ég ætla ekki að ræða það frekar, það liggur fyrir. Hæstv. iðnrh. hefur beðist afsökunar á þeim ósköpum, þeim fádæmum.

En síðan kemur staðhæfingin um að skattarnir skv. skattstiga eldra, núverandi skattkerfis og þess sem á að innleiða, geti ekki orðið lægri. Sú staðhæfing stóðst ekki einfaldasta próf. Það liggur hér fyrir og var viðurkennt af talsmönnum iðnrn. sem komu fyrir iðnn. deildarinnar. Þeir fengu ekkert annað út úr sínum tölvum.

Þegar málið var komið í þessa stöðu og þetta bil lá fyrir þar sem samanburðurinn leiddi í ljós neikvæða útkomu á samanburði þessara kerfa, neikvæða útkomu miðað við þær breytingar sem hér er lagt til að lögleiða, þá fóru menn að ókyrrast, ekki bara uppi í iðnrn. heldur líka niðri í Seðlabanka. Formaður samninganefndar um stóriðju áttaði sig á því að málið var komið í þannig hættu hér og hans orðstír allur að nú yrði að reyna að reikna upp á nýtt.

Það er sennilega í seinni hluta síðustu viku sem tölvurnar niðri í Seðlabanka eru settar í gang til að reyna að framleiða nýjar forsendur, nýtt mat, ný talnagildi til að bera hér fram á Alþingi, til að klóra í bakkann. Uppskeran liggur fyrir í fylgiskjölum sem ég hef sumpart tekið hér inn með mínu nefndaráliti því að það er gott að hafa þessar upplýsingar þar upp á framtíðina. Það er gott að halda þessum vinnubrögðum til haga. Það lá svo mikið við að koma þessu á framfæri að búið var að afgreiða málið út úr nefnd þegar tölvurnar í Seðlabankanum spýttu út síðasta fylgiskjalinu sem hér liggur fyrir frá samninganefnd um stóriðju.

Og hvernig er þessi reikningur, hvernig er þetta til búið, hvernig er þetta framreitt? Það er gert með þeim hætti að dregnir eru inn alveg nýir þættir sem ekki er neitt um fjallað, a.m.k. ekki talnalega, í frv. hæstv. ráðh., í grg. með frv., þ.e. þættir sem tengjast skattstofni. Nú er það ekki bara samanburður á skattstiganum, sem Ríkisendurskoðun hefur staðfest að við reiknuðum rétt og iðnrn. rangt, heldur varð að draga skattstofninn og mat á honum inn í umræðuna og fá flinkan endurskoðanda - sem ég ætla ekki nema gott eitt, ég reikna með að hann vinni sín verk af samviskusemi eftir sinni sýn - Stefán Svavarsson, sem átti sæti í undirnefnd samninganefndar um stóriðju, til að yfirfara málið og reyna að reikna til baka miðað við leiðréttingu á skattstofni. Þannig varð til það sem hv, þm. Birgir Ísl. Gunnarsson setur inn í sitt nál. og þeirra hv. sjálfstæðismanna og fylgdi eftir hér í ræðu sinni, endurreikningur til baka á skattstofni 1984-1980.

Hvað segja þessir hv. þm. hér? Þeir eru ekki í nokkrum vafa um að endurskoðandinn hafi alveg hitt naglann á höfuðið í sínum útreikningum, þeir eru ekki í hinum minnsta vafa um það. Sjálfsagt hafa þeir bókhaldsþekkinguna og nú er þetta bara staðreynd. „Þetta er staðreynd," sagði hv. 4. þm. Reykv.

Og hvað sagði hv. 2. þm. Reykn. um þetta? Ég má til með að vitna í hann, ég tók það orðrétt niður. Það var ekki ónýtt að fá það hér fram til að lýsa inn í þessa stöðu. Hann sagði hér óbeint að þar af leiðandi fengjust hærri skattar út úr þessari breytingu á grundvelli þessara bakreikninga til 1980 sem, burtséð frá ótal óvissuþáttum sem inn í þá reikninga ganga, eru t.d. þeim annmarka háðir að þar eru ekki teknar inn leiðréttingar endurskoðenda íslenskra stjórnvalda á ársreikningum ÍSALs, t.d. fyrir árið 1980. Það er ekki haft fyrir því. Ríkisstj. treystir ekki betur sínum endurskoðendum, Coopers & Lybrand, en svo að hún lætur vera að taka inn leiðréttingar þeirra á ársreikningum ÍSALs þegar farið er í svona endurreikning. Er þó búið að borga þeim allvel fyrir ekki síður en 2. hv. þm. Reykn. sem fékk rösklega þingfararkaupið hér á fyrra ári til að standa sig í þessum samningum væntanlega. Svo segir hv. þm. orðrétt: „Þar af leiðandi fást hærri skattar, óvefengjanlega, og þýðir ekki að bera á það brigður.“ „Nýja skattkerfið myndi, eins og menn sjá á þessu fskj.“, gefa svona og svona mikið. Hvar eru menn staddir í heiminum sem reyna að bera hluti af þessu tagi hér á borð á Alþingi Íslendinga?

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði hér margar skarplegar athugasemdir og veit ég þó að hann hefur ekki átt þess kost að vinna sig inn í þetta mál eins og hann hefði gert ef hann hefði starfað með þingnefndinni. Hann hefur mikla reynslu af samskiptum við ÍSAL sem stjórnarmaður og með því að fylgjast með samningagerð og hann hefur orðið sannspár um marga þætti. Hann benti réttilega á að það sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson var að reyna að vefengja hér úr forsendum úr fskj. - ætli það sé ekki fskj. VI með mínu nál. - það væri ekki mjög mikið innihald í þeim athugasemdum.

Hráefniskostnaður er í þessu fskj. metinn heldur hærri en var á síðasta ári, að ég hygg, sem við er miðað. Hann er skv. nýju skattkerfi metinn á 41,5% en skv. gildandi skattkerfi á 40,5% af söluverðmæti og síðan eru nefndar rauntölur frá fyrri árum þessu til samanburðar. Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson er auðvitað ekkert að hugleiða það hvort afsal ákvæðanna um bestu kjör á hráefnum hafi einhverjar breytingar í för með sér þegar litið er á samanburð á milli þessara kerfa.

Það var gott að hv. 2. þm. Reykn. fór að vekja athygli á afskriftunum og þeim mikla pytti sem Ragnar Árnason lektor hefði dottið ofan í í sambandi við þær. Hér er verið að bera saman skattkerfið til framtíðarinnar. Mat á fastafjármunum ÍSALs var fyrir breytingar 64 millj. bandaríkjadala, var hækkað um 25 millj. upp í 89 millj. Gert er síðan ráð fyrir afskriftum á tíu árum og afskriftastofni samkvæmt hinu eldra kerfi upp á 6,4 millj. og hins vegar 8,9 samkvæmt nýju kerfi. Lögmaðurinn, hv. 2. þm. Reykn., veit bara ekkert hvað upp snýr eða niður. Ég vil biðja hæstv. iðnrh. um að athuga hvort ekki væri rétt að endurskoða skipun þessarar nefndar. Þótt hv. 2. þm. Reykn. veiti sjálfsagt ekkert af því að bæta einhverju við þingfararkaupið held ég að það væri ekkert óskynsamlegt miðað við stöðu þessara mála, áður en t.d. farið er að taka upp viðræðurnar við Kínverja og túlka á milli á kínversku, að prófa að skipta um áhöfn. Væri nokkuð á móti því að seðlabankastjórinn okkar hv., sem er mætur maður um margt, færi nú að taka sér frí úr þessum samskiptum eftir 25 ára hrakfallasögu?

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. vék réttilega að þeim forsendum sem eru fyrir fskj. VI og gagnrýndi málflutning hv. 4. þm. Reykv. í því sambandi. Það er rétt að fram komi að þar eru tekin inn, eins og kemur fram í ,inngangi fskj., ýmis matsatriði bæði varðandi skattstiga og hina nýju málafylgju iðnrn. og Seðlabanka um skattstofn. Það er annar grunnur, þetta er önnur nálgun en kemur fram í fskj. II sem er einfaldlega talnalegir útreikningar á gildandi skattstigum skv. gömlu og nýju kerfi og verða ekki vefengdir og Ríkisendurskoðun skrifaði upp á þá áður en ég tók þetta mál hér upp við 1. umræðu. En inn í fskj. VI, sem leiðir til athyglisverðar niðurstöðu eru teknar ákveðnar forsendur og þær eru birtar. Hv talsmenn 2. minni hl., hv. sjálfstæðisþingmenn eru hér að reyna að gera lítið úr forsendum þar að baki, mennirnir sem hafa ekki haft fyrir því að leggja fram forsendur á eigin útreikningum og rök fyrir sínu máli þannig að uppfyllt séu lágmarksskilyrði um vinnubrögð. Þetta vildi ég aðeins benda á.

Ég vek einnig athygli á því að í fylgiskjölum með mínu nál. er þriðja nálgunin sem ég tel að eigi einnig fyllilega rétt á sér og hv. 3. þm. Reykn. gat einnig um. Það eru hinar breyttu aðstæður sem skapast ef ákveðinn hagnaður fer að myndast í áliðnaði. Inn í texta nál. eru teknar ákveðnar niðurstöður úr því og hagnaðarforsendur og bent á það, sem hlýtur að gerast, að þegar ákveðnum hagnaði er náð í iðnaðinum fara nýfjárfestingar að koma inn sem munu draga úr slíkri hækkun upp á við til lengri tíma litið.

Það er rétt að menn reyni í erfiðu og flóknu máli sem þessu að horfa til allra átta, reyna að leggja fjölþætt mat á hlutina og okkar stöðu. Það hefur verið reynt í áliti 1. minni hl. Ég get að vísu unnt þeim hv. sjálfstæðismönnum þess að gagnrýna hér Ragnar Árnason lektor ef þeim býður svo við að horfa. Hann getur vel tekið við slíkri gagnrýni þótt utan þingsala sé.

En það er eitt atriði að lokum, herra forseti - því að ég ætla ekki að ganga á bak orða minna um ræðutíma - sem ég vildi nefna og vel þar aðeins úr fjölmörgum athugasemdum sem ég hefði að gera við málflutning 2. minni hl., hv. 4. þm. Reykv. Það er í sambandi við liðinn tíma og þá undirstöðu sem fyrrv. ríkisstjórn lagði í þessu máli og hv. 2. þm. Reykn. hefur ítrekað reynt að gera lítið úr. Ég segi við þessa þm. hv. þingbræður, í allri vinsemd: Ég hefði viljað sjá í hvaða sporum þeir hefðu staðið og stæðu gagnvart Alusuisse ef ekki hefði í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens og raunar einnig í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar verið farið ofan í saumana á rekstraraðstæðum og bókhaldsskilum Alusuisse vegna ÍSALs. Ég bið þm. um að íhuga hvaða þýðingu það hafði, ekki aðeins að auka þekkingu íslenskra stjórnvalda á þessum rekstrarforsendum heldur líka að draga fram með óyggjandi hætti þau bókhaldslegu svik sem Alusuisse hafði stundað árum saman vegna reksturs á dótturfyrirtækinu - svo að ég noti hefðbundið orðalag - í Straumsvík.

Hv. 4. þm. Reykv. valdi mér ákveðnar einkunnir í þessu sambandi. Ég get vel tekið við þeim. En ég vil rifja það enn einu sinni upp úr þessum ræðustól sem ég gerði hér á árum áður, 1980-1983 og 1984, í umræðum um þessi mál. Þá bað ég hv. 4. þm. Reykv. að koma hingað upp í þennan stól og skýra þinginu og þjóðinni frá því hvenær hann hafi talið ástæður til að endurskoða samningana við Alusuisse vegna ÍSALs, hvenær hann fyrst hafi fallist á að það gæti verið einhver ástæða til að líta á rafmagnssamninginn gagnrýnum augum. Ég hef marglýst eftir þessu gagnvart hv. 4. þm. Reykv. Hann hefur enn ekki haft fyrir því að fara í gegnum þingtíðindin til að leiða fram hvenær hann tók upp baráttuna fyrir breytingu á rammasamningi og hækkun rafmagnsverðs frá Landsvirkjun til ÍSALs og á hann þó sæti í stjórn Landsvirkjunar.

Það gerðist hins vegar, vegna þeirrar vinnu sem fram fór á árunum 1981 og 1982, að hinir harðsoðnustu í þessu máli, aðilar sem hafa fest sig í því fari að verja samningana frá 1966 í merg og bein, sáu að múrarnir voru að brotna og féllust á að endurskoða sinn málflutning í sambandi við rafmagnsverðið. Það var í fyrsta sinn sem aðeins krældi á, aðeins kom fram vottur hjá þáv. formanni Sjálfstfl., Geir Hallgrímssyni hæstv. núv. utanrrh., í mars 1981 eftir harðar umræður hér, að þrátt fyrir hið mikla ágæti álsamninganna væri kannske ástæða til að fara að huga að einhverjum breytingum á raforkuverði. En kúvendingin í þessu efni gerist ekki fyrr en í ágúst 1982 þegar iðnrn. leggur fram gilda skýrslu um þróun rafmagnsverðs til áliðnaðar.

Herra forseti. Þessi samningur, sem hér er til 2. umr., þetta frv., er aðeins hluti af heild og það er löng saga að baki. Það er ekki hægt að líta á þennan samning án þess að tengja hann við þann samning sem hér var lögfestur í fyrra og auðvitað einnig í tengslum við þann aðalsamning sem gerður var fyrir bráðum 20 árum síðan og sem var vissulega gallaður í alla staði, að flestu leyti er a.m.k. óhætt að segja, en hann var frumraun. Menn hefðu átt að læra síðan og læra meira og læra betur en talsmenn þessa frv. virðast hafa gert og samningamenn íslensku ríkisstj. bæði hér innan þingsala og þeir sem komið hafa á fundi iðnn. Nd.