12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Frsm. meiri hl. iðnn. lýsti því yfir að hann sæi sig ekki hér í hlutverki grafara og það er líklega alveg rétt, en það verður að halda því fram að hann hafi staðið hér sem fulltrúi rukkaranna því að sú rukkun sem hér á sér stað er allveruleg. Menn eru búnir að básúna hér og ræða mikið um vandamál Útvegsbankans og Hafskips undanfarna daga og sumir hafa talað um að þegar það dæmi verði gert upp verði þar með búið að leggja 10-20 þús. kr. skatt á hverja fjölskyldu í landinu. Þegar þetta 2 milljarða dæmi er gert upp, þegar þeirri rukkun hefur verið vísað til þegnanna í landinu eru það ekki 10 eða 20 þús. kr. á hverja fjölskyldu, það eru 10 þús. kr. á hvert mannsbarn. Þannig bliknar jafnvel Hafskipsmálið svokallaða við hliðina á þessu hneyksli.

Menn deila hér um hvort verðið á þessari virkjun hafi verið of lágt eða of hátt, hvert hið endanlega mat á þessum eignum var. Ég er þeirrar skoðunar að eignirnar séu reyndar allt of hátt metnar því að þetta fyrirtæki er þvílík áhætta og það er svo lítil von í því. Það að borga yfir höfuð nokkuð fyrir það lýsir gífurlegri bjartsýni, enda kom það í ljós þegar rætt var við þá aðila sem að þessum viðskiptum stóðu að hvorugur þeirra var eigandi að þessari bjartsýni. Bjartsýnin kom frá ríkissjóði. Það var hann sem vildi að þessi viðskipti færu fram og þess vegna fóru þau fram hvort sem hinum aðilunum líkaði betur eða verr. Þó má líklega ætla að RARIK hafi líkað það heldur betur, en Landsvirkjun sýnu verr.

Það kom m.a. í ljós í þessari umræðu að þetta framleiðslufyrirtæki er einna arðsamast þegar það starfar ekki, þ.e. til þess að ná „arðsemi“ í þessu fyrirtæki, í gæsalöppum því hún er raunverulega ekki til, er alltaf vænlegast að stöðva það um ákveðinn tíma á hverju ári. Menn geta þá alveg sagt sér það sjálfir að ef þetta fyrirtæki er lagt alveg niður hlýtur arðsemisvonin að hámarkast, a.m.k. hvað þetta fyrirtæki snertir.

Það má segja að þeir stjórnmálamenn sem að svona vitleysu standa geti þakkað fyrir að kjósendur ná jafnilla til þeirra og raun ber vitni. Auðvitað er það engin tilviljun að það er verið að flytja þetta til með þeim hætti sem gert er. Það er verið að flytja aðalþungann af þessari skattlagningu yfir á þau svæði þar sem kjósendurnir hafa minni mannréttindi en annars staðar á landinu, þar sem þeir verða að taka því sem að höndum ber með þökkum og geta ekki borgað fyrir sig nema með rýrðum atkvæðisrétti. Þetta er ekkert öðruvísi en í virkjunar- og raforkusölumálunum yfirleitt þar sem það er vitað mál að 1/3 notendanna borgar 2/3 kostnaðarins og 2/3 notendanna borga 1/3 kostnaðarins, alveg í beinu hlutfalli við mannréttindi á þessu landi sem birtast í kosningarrétti manna.