12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta er alvarleg stund, sem við upplifum hér, þar sem menn velta því fyrir sér hvort þeir séu grafarar, jafnvel útfararstjórar, þeirrar virkjunar sem átti að flytja birtu og yl til allra Norðlendinga og reyndar landsmanna allra, virkjunar sem var byggð á afar hæpnum forsendum án tilhlýðilegra rannsókna, athugana á því hvort þessi virkjun mundi borga sig, vera fjárhagslega hagkvæm.

Það hefur farið fram mikil umræða í þjóðfélaginu um þessa virkjun, Kröfluvirkjun sem svokallaðir Kröfluflokkar hafa staðið fyrir og eytt þúsundum milljóna frá skattgreiðendum til að láta fjarlægan draum sinn rætast. Nú er komið í ljós að allt talið um ágæti Kröfluvirkjunar var á afar litlu byggt og nú standa menn frammi fyrir því að viðurkenna þær staðreyndir að þessi virkjun er mikill baggi á öllum skattgreiðendum, á öllum almenningi, viðurkenna að hér hefur verið illa staðið að verki, rangt staðið að verki, kapp hefur verið meira en forsjá. Er athyglisvert að í áliti minni hl. eru röksemdir mjög byggðar á því að önnur vélasamstæða gæti hugsanlega aukið verðmæti virkjunarinnar eða þessara eigna að einhverju marki, en það liggur ekkert fyrir um hvort til er orka til að knýja þessar vélar. Mér er skapi næst að halda að það væri öllu vitlegra að taka þessa blessaða vélasamstæðu, sem nú mun vera til, og flytja hana suður á Suðurnes þar sem er næg orka, næg gufa, og framleiða þar rafmagn á þann ódýra hátt sem þar er hægt að gera. Vonandi væri það hægt og vissulega væri það æskilegt.

Það liggur alveg fyrir að þessi gjörð, sem hér á sér stað, er hreingerning, er viðurkenning á staðreyndum. Það má deila um það með hæpnum fullyrðingum hvort söluverðið er eðlilegt eða ekki eðlilegt. Ég er nær því að taka undir það, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan, að líklega er verðið allt of hátt frekar en það sé of lágt.

Ég bið hv. þingdeildarmenn að láta hugann reika aftur í tímann, minnast þeirra umræðna sem farið hafa fram um þessa virkjun, þau mistök sem gerð voru í orkuöflunarmálum Íslendinga með þessari virkjun. Líka bið ég Kröfluflokkana að reikna það út hversu mikið þessi mistök hafa kostað almenning í landinu. Það væri fróðlegt ef þeir kæmu því á framfæri við sína kjósendur á næstunni.