12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Frsm. meiri hl. (Björn Dagbjartsson):

Virðulegi forseti. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að lengja þetta mikið meira en það var út af því að við skiptumst held ég á um það nokkrum orðum um daginn hvað langt hefði verið komið í framkvæmdum þegar gos hófst. Stöðvarhúsið mun hafa verið uppsteypt, þaklaust, og vélar pantaðar en talið öruggt að beita mætti svokölluðum „force majeure“, óviðráðanlegum orsökum æðri máttarvalda, almættið blandast enn í þetta mál, þannig að þau ákvæði hefðu gilt til þess að hægt hefði verið að hætta við þessi kaup. Það er mér nú tjáð.

Annað atriði lagði hv. þm. Ragnar Arnalds áherslu á, að aðeins væri reiknað með nýtingu upp á einn þriðja eða helming af því sem hugsanlegt væri að fá af orku út úr virkjuninni. Ég verð að segja að í þessu stóra dæmi skiptir það ekki máli hvort hægt væri með einhverjum reikningsaðferðum að fá útkomu upp á 1500 millj. kr. söluverðmæti reikningslega séð eða hvort söluverðmætið er eins og nú er 1172 millj. Út af stendur heilmikil skuld sem gera verður upp á einhvern hátt.

Ég vil að síðustu ekki viðurkenna það að í mínum huga séu neinir pólitískir fordómar í þessu máli. Ég held, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds var að gefa í skyn, að einhvern tíma geti komið að því að talið verði hagkvæmt að virkja Kröflu áfram og þá mun það koma öllum landslýð til góða.