23.10.1985
Neðri deild: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

65. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér sýnist það mál sem hér er til umræðu vera mjög eðlilegt, enda um það full samstaða, og ætla ekki að fara að gera athugasemdir við það hér, enda mun það ganga til nefndar til athugunar. En það er annað mál, sem snertir framlög til landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem var til umræðu seint á síðasta þingi, sem mig langaði til að inna hér eftir hæstv. félmrh. eða aðra ráðherra sem kynnu að telja sér málið skylt í fjarveru hæstv. forsrh., en það snertir það framlag sem rann til landshlutasamtakanna á meðan í gildi voru lög um Framkvæmdastofnun ríkisins eins og þau voru áður en þeim var breytt á s.l. vori. Ég má segja að landshlutasamtök sveitarfélaga hafi fengið frá Byggðasjóði talsverða upphæð og það voru lagðar fram tillögur um að lögfesta slíkt framlag hér í sambandi við breytingu á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Þær tillögur náðu ekki fram að ganga, en látið var að því liggja að landshlutasamtökin mundu njóta slíkra framlaga áfram án þess að það væri lögfest.

Ég vil inna hæstv. félmrh. eftir því hvort hann geti greint þd. frá stöðu þessa máls því hér er um veruleg hagsmunaatriði að ræða fyrir landshlutasamtökin og er efnislega tengt því máli sem hér er til umræðu, tekjum til landshlutasamtaka sveitarfélaga.