12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

178. mál, jarðræktarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Það er ekki stórmál sem ég flyt hér og mun ekki valda neinum þáttaskilum í þjóðarsögunni en þó engu að síður mikilvægt mál fyrir nokkurn hóp manna og um leið sanngirnismál. Þetta er frv. á þskj. 202 um breytingu á jarðræktarlögum nr. 79 frá 29. maí 1972.

Í VI. bráðabirgðaákvæði laganna er til tekið hvaða styrk fá megi samkvæmt jarðræktarlögum vegna tiltekinna fjárfestinga. Þar er hins vegar ekki getið um þær heyskaparaðferðir sem á því byggjast að binda hey með rúllubindivél og verja það með plastklæðningu. En sú heyskaparaðferð hefur nokkuð rutt sér til rúms undanfarin ár og krefst þess að byggð sé nokkur hlíf utan um rúllubaggana, heygeymsla sem ver baggana fyrir veðri og vindum, kannske fyrst og fremst vindum því þeir munu vera vatnsheldir. Það vill svo einkennilega til að við afgreiðslu jarðræktarlaga á s.l. vetri gleymdist að tiltaka styrkveitingar til bygginga sem breyta þarf eða koma á fót yfir þessa heyverkunaraðferð. Fjárfestingar af þessu tagi eru því ekki styrkhæfar eins og aðrar heygeymslur. Þó er fengin reynsla fyrir því að þetta er ein öruggasta og fljótvirkasta geymsluaðferð sem völ er á, eins og kom í ljós óþurrkasumrin á Suðurlandi árið 1984 og á Norðurlandi árið 1985.

Ég vænti þess fastlega að frv. þetta, sem að sjálfsögðu er gjörsamlega ópólitískt mál, verði tekið til velviljaðrar athugunar í hv. landbn. Frv. er flutt til þess að bæta úr ágalla á lögunum og öll sanngirni virðist mæla með því að hér verði gerð nokkur bragarbót.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. þetta gangi til hv. landbn. að lokinni þessari umræðu.