12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

178. mál, jarðræktarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um frv. sem hér er rætt.

Þá vil ég beina spurningu til hæstv. landbrh.: Er ekki í bígerð að leggja slíka styrki niður? Er ekki nú þegar búið að byggja nóg af heygeymslum og garðávaxtageymslum þannig að hægt sé að leggja slíkt niður? (Gripið fram í.) Ég geri mér fulla grein fyrir því að hv. 11. landsk. þm. er ekki búinn að byggja sé geymslu fyrir plastklædda rúllubagga, en tel að það komi þessu máli ekki sérstaklega við.

Ef bændur vilja breyta sinni heyverkun geta þeir væntanlega breytt sínum heygeymslum þannig að þeir geti geymt plastklædda rúllubagga í þeim geymslum. En það mun mjög erfitt að geyma slíka bagga í súrheysturnum. Það er mér fyllilega ljóst. Það mundi jafnvel ekki nýtast fyrir hv. 11. landsk. þm. En það kemur þessu máli ekkert við.

Í öðru lagi: Ef ekki á að fella þessa styrki niður væri þá ekki rétt að styrkja þær verksmiðjur sem framleiða fóður til loðdýraræktar? Ekki getum við byggt upp loðdýrabú hér á landi ef enginn getur framleitt fóður ofan í loðdýr. Eins og hæstv. ráðh. er eflaust kunnugt um standa verksmiðjur sem framleiða fóður til loðdýra mjög höllum fæti í dag. Það eru styrkir á styrki ofan til að byggja og byggja yfir dýrin, en ekkert komið til móts við þá sem ætla að framleiða fóður ofan í þau. Það má því ýmsu breyta í núverandi kerfi okkar og ýmislegt sem má alveg missa sig.

Ég ætla ekki að fara út í langa umræðu að þessu sinni, en við eigum eflaust margt órætt um þessa hluti, ég og hv. þm. Egill Jónsson.