12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

178. mál, jarðræktarlög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að það dró ský fyrir sólu, í smávonarglætu sem örlaði fyrir þegar framleiðsluráðslögin flugu fyrir í fyrra. Ég vil andmæla þeim sem töluðu á undan mér og sögðu að það frv. hafi legið fyrir hv. þingdeild. Það var alla vega mjög stutt lega. Þar sannaðist enn einu sinni að það ætlar að verða langt í að íslenskum ráðamönnum, og þá sérstaklega ráðamönnum íslensks landbúnaðar, verði það ljóst sem er líklega einhver einfaldasta setning í hagfræði og ekki frá mér komin heldur frá vestfirskum fjárbónda: „Það er takmarkað hvað er hægt að snúast í kringum eina rollu þannig að hún gefi eitthvað af sér.“ Þrátt fyrir útflutningsuppbætur, þrátt fyrir niðurgreiðslur og þrátt fyrir styrki ætlar mönnum ekki að lærast þessi einfalda lexía.

Ég hafna þeim hugmyndum, sem komu fram hjá hv. 11. landsk. þm., þegar hann lýsti skoðunum sínum á þessu frv. þar sem hann talaði um að skoða það, leggja það fyrir búnaðarþing og kanna málið. Ég tel að þegar frv. af þessu tagi eru komin fram, sem gefa mönnum einhverjar vonir um einhverja styrki einhvers staðar, sé það ekki nema siðferðilega rétt af okkur gagnvart þessum aðilum að afgreiða slík frv. nokkuð hratt og örugglega, að sjálfsögðu ekki án skoðunar, en þó þannig að menn fái svör við sínum væntingum sem allra fyrst. Annars lifa menn í voninni um eitthvað sem aldrei verður eða kannske verður. Með því að viðhafa þau vinnubrögð sem hv. 11. landsk. þm. lagði til eru að minnsta kosti tveir vetur í það að þetta frv. komist inn á fjárlög og þá til framkvæmda. (EgJ: Það er grundvallarmisskilningur.)