12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

178. mál, jarðræktarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Í jarðræktarlögum er kveðið á um styrki, ef ég man rétt, sem muni nema rúmum 19 millj. til nýrra búgreina eins og loðdýraræktar. En hér erum við að ræða framlög sem í heild sinni eru í kringum 140 millj. Mín spurning var sú hvort ekki væri kominn tími til að fella niður styrki til þeirra hefðbundnu búgreina sem við búum nú við, hvort það væri ekki búið að byggja nú þegar nógu margar hlöður, garðávaxtageymslur, fjós eða hverju nafni sem þessar byggingar nefnast, hvort nú þegar væri ekki búið að byggja yfir hefðbundinn búskap og m.a.s. miklu fleiri hús en við höfum þörf fyrir og hvort ekki væri tími til kominn að leggja þá mun meiri áherslu á nýjar greinar en nú er gert í framlögum ef á að halda þessum styrkjum áfram. Mér finnst rétt að stutt sé við bakið á nýjum búgreinum, helst með lánafyrirgreiðslu en ekki ríkisframlögum, vegna þess að við eigum þó á endanum að miða við það að þessar búgreinar standi undir sér. Ég vil endilega fá skýr svör frá hæstv. ráðh. um þetta atriði.