12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

178. mál, jarðræktarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann stuðning sem fram hefur komið í þessum umræðum hér við þessa till. og vænti þess fastlega að hún verði tekin til jákvæðrar athugunar. Ef ríkisstj. hyggst leggja fyrir þingið frv. að nýjum jarðræktarlögum þar sem vikið væri að þessum vanda þá er það auðvitað ágætt út af fyrir sig. En ef það kynni hins vegar að dragast þannig að ekki yrði nein breyting á jarðræktarlögunum á þessum vetri mundi ég mjög eindregið óska eftir því að menn tækju til velviljaðrar athugunar að afgreiða þetta frv. sér á parti nú í vetur.

Það hefur orðið hér svolítil umræða um það hvort stefnan í sambandi við styrki til jarðræktar sé rétt eða röng og hvort ekki væri hyggilegra að verja þessu fé með öðrum hætti en gert er. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að vel komi til greina að endurskoða þessi mál. Það má vel vera að það ættu að vera aðrar áherslur á þessu sviði en nú eru og að nýjar búgreinar og nýjungar í íslenskum landbúnaði ættu að njóta miklu meiri stuðnings en þær gera nú.

En ég vek á því athygli að þetta frv. fjallar eiginlega fyrst og fremst um jafnrétti, þ.e. að þessi sérstaka heyskaparaðferð, sem ekki er hefðbundin heldur nýtískuleg, njóti sama réttar og aðrar heyskaparaðferðir. Meðan veittur er styrkur til hlöðubyggingar eða til votheysturna eða til að geyma vothey á annan hátt er nauðsynlegt að veita samsvarandi stuðning til þessara heyskaparaðferða því að annars væri verið að mismuna mönnum og mismuna aðferðum. Þá yrði ekki hin æskilegasta þróun í landbúnaðinum ef menn veldu ekki hverju sinni þá heyskaparaðferð, sem þeir hefðu sannfæringu fyrir að hentaði sér best, bara vegna þess að lögin væru svona eða hinsegin, það vantaði í þau eitthvert lítið ákvæði sem setti allar þessar heyskaparaðferðir nokkurn veginn á sama bekk.

Ég held að það væri mjög óheppilegt ef langur tími liði áður en þessu yrði breytt og þeir sem ætluðu sér að prófa þessa aðferð mundu falla frá því vegna þess að hún er sú eina sem ekki nýtur neins stuðnings. Það sjá allir að það væri mjög óheppileg þróun og óeðlileg auk þess sem þar væri verið að mismuna einstaklingum.

Ef menn aftur á móti ákveða að engir styrkir skuli ganga til þessara verkefna, til þessara fjárfestinga, þá hefur það sinn gang og þá er auðvitað ekki lengur verið að mismuna einum eða neinum. En meðan þessir styrkir eru á annað borð veittir verður eitt yfir alla að ganga og eitt yfir allar heyskaparaðferðir að ganga.