12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

178. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir orð síðasta ræðumanns um þá stefnu sem fólst í breytingunni í vor á jarðræktarlögunum. Það sem ég hélt að ég hefði sagt hér í máli mínu áðan var að verið væri að reyna að breyta þeim í samræmi við þarfir nútímans. Hins vegar má ekki alveg gleyma þeim búgreinum sem vissulega halda áfram að vera mikilvægastar í okkar landbúnaði. En það á að halda áfram að endurskoða jarðræktarlögin, eins og hér hefur komið fram og þar verður, vænti ég, fylgt þessari stefnu, að auka stuðning við nýjar búgreinar.

Eins og hér hefur komið fram er stuðningur við fóðurstöðvarnar orðinn eins og hægt er að reikna með. En það eru alltaf erfiðleikar fyrstu rekstrarárin. Hins vegar er það svo að uppbyggingarþörf fóðurstöðvanna er meiri en menn reiknuðu með þegar af stað var farið þar sem áhugi fyrir þessari nýju búgrein er meiri. Það kemur fram í því að á þessu ári er búið að veita 169 ný loðdýraleyfi auk þess sem á milli 30 og 40 þeirra, sem þegar eru farnir af stað, hafa óskað eftir stækkun á sínum búum. Þörf fyrir aukna afkastagetu í fóðurstöðvunum er því mjög mikil.