12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

178. mál, jarðræktarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal gera örstutta athugasemd. Hv. 11. landsk. þm. taldi mig hafa farið rangt með, taldi mig hafa sagt að í ákvæðum núgildandi jarðræktarlaga væri kveðið á um 19 millj. til loðdýraræktar. Það er nú einu sinni svo að þegar nefndir fá lagafrv. á sín borð er oft spurst fyrir um það hvað ákvæði laganna kosti mikið fjármagn úr ríkissjóði. Við fengum þær upplýsingar á okkar borð að þetta ákvæði í lögunum mundi kosta sem svaraði um 19 millj. kr. Ég hef þá mismælt mig ef ég hef sagt að það stæði í lögunum. En ég tel mig fara með rétt mál. Hvort þarna munar einni milljón til eða frá skal ég ekki fara með, en þetta eru u.þ.b. stærðirnar. Við fengum upplýsingar um það frá ráðuneytinu hvað þetta ákvæði mundi kosta ríkissjóð.