12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að sú frestun, sem hefur átt sér stað á þessu frv., hlaut að verða vegna þess að beint hafði verið mörgum spurningum til hæstv. sjútvrh. En nú er hann kominn, hann þurfti að vera í Nd. vegna atkvæðagreiðslu.

Hvað varðar þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá hef ég skrifað undir það með fyrirvara. Það eru ýmis atriði í frv. sem eru andstæð því sem maður hefði helst kosið. Hitt er annað að ég tel að það sé ekki annað að gera en að samþykkja það eins og það liggur fyrir. Það verður vart hægt að breyta því nú að tekið sé fram hjá hlutaskiptum en því hefur oft verið mótmælt af hálfu sjómannasamtakanna. Hitt er annað að við lítum björtum augum til þeirrar endurskoðunar sem nú er hafin á sjóðakerfinu og ég vænti þess að hún hafi það í för með sér að þetta millifærslukerfi verði lagt niður að öllu eða mestu leyti.

Það heyrist oft í umræðum hér og víðar í þjóðfélaginu að sjávarútvegurinn gangi á styrkjum, ríkið styrki sjávarútveginn o.s.frv. Það er ákveðinn vælutónn í þessu hjá fólki sem ekki gerir sér grein fyrir því að íslenskur sjávarútvegur nýtur engra styrkja. Ef sjávarútvegur væri styrktur væri afskaplega lítilfjörlegt mannlíf hér á Íslandi því að vissulega er það staðreynd að við lifum á sjávarútvegi.

Það hefur flest komið fram af því sem ég ætlaði að ræða hér, eins og t.d. ónákvæmni í áætlunum. En eitt atriði vil ég gera að sérstöku umtalsefni. Það er sagt frá því hér að 1% verði lífeyrisframlag úr áhafnadeild til lífeyrissjóða sjómanna. Ég vil vekja athygli á því að þetta er svo til nýtt ákvæði sem varð til í kjarasamningum sjómanna í vetur og varð mjög til þess að liðka fyrir deilu sem sjómenn áttu í við útvegsmenn. Ég tel sérstaka ástæðu til þess hér að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það hvernig hann stóð að málum í þeirri kjaradeilu. Ég tel að hans afskipti hafi verið mjög af því góða og hjálpað til við lausn þeirrar erfiðu deilu. Það er oft þagað yfir því sem vel er gert en ég vil að þetta komist hér á framfæri vegna þess að þannig sneri það við okkur sem stóðum að þessum kjarasamningum.

Þá er það og rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl., að nafnið á þessum lögum er alveg út í hött. Þetta er ekki í takt við tímann. Aflatryggingasjóður er liðin tíð, sjóðurinn er millifærslusjóður sem á ekkert skylt við þetta nafn.

Hér hefur verið spurt að ýmsu sem sjútvrh. svarar sjálfsagt á eftir, t.d. varðandi fiskvinnsluna, hvað hún hafi farið fram á og hvernig eigi að koma til móts við þá erfiðleika sem þar ríkja. Það er háðulegt fyrir okkur Íslendinga að meðan afli er í hámarki, verðlag í hámarki skuli útgerðin og fiskvinnslan vera á vonarvöl. Ég veit ekki hvort hægt verður að svara því nú en mjög væri fróðlegt að vita hvernig á að taka á þessum málum. Það er fróðlegt fyrir okkur sem búum á þeim stöðum þar sem hvert fyrirtækið á fætur öðru leggur upp laupana og fólkið, sem í þeim starfar, hefur þurft að leita til Atvinnuleysistryggingasjóðs til að hafa ofan í sig og á. Ég vænti þess að einhver svör komi við því.