12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin en ítreka eina spurningu. Það er eðlilegt að hann sé ekki með þær allar í kollinum nú þegar mikið hefur verið að gera í sjávarútvegsmálum í báðum deildum á sama tíma. En það er varðandi uppbæturnar á þann fisk sem annars vegar er fluttur í gámum beint af útgerð og hins vegar í gegnum fiskvinnslu. Það var eilítil umræða um þessi atriði í hv. sjútvn. en sökum tímaskorts lauk þeirri umræðu ekki með neinum sérstökum niðurstöðum.

Þetta frv. er búið að vera mjög skamman tíma hér til meðferðar. Ég hef ekki séð neina ástæðu til að standa í veginum fyrir því að það verði afgreitt þrátt fyrir að ég sé mótfallin frv. En mér finnst þó mikilvægt að vita nokkurn veginn hvernig að þessum málum er staðið því að mér skildist að það væri mjög misjafnt, eftir því hver væri útflutningsaðilinn, hvernig þessum greiðslum væri háttað. Mér finnst því mikilvægt að fá greinargóð svör við því atriði.

Annað atriði: Ef aðilar koma sér saman í samningum um fiskverð, af hverju tekst þeim alltaf að blanda ríkinu þar inn á milli? Þeir einfaldlega semja sín á milli og segja: Ef ríkið er tilbúið til að koma til móts við okkur með því að borga 4% hér og 3% þar og sérstaklega til að taka hluta af því fram hjá skiptum - það má m.a.s. stýra því í einhvern sjóðinn, neyðarsjóðinn - þá geta þeir sætt sig við niðurstöður um fiskverð. Þetta eru atriði sem við eigum að afnema. Þessir aðilar eru ábyrgir fyrir þeim samningum sem þeir gera sín á milli og þeim á ekki að takast að blanda ríkinu alltaf inn í dæmið.

Það hefur sýnt sig undanfarin ár að þetta hefur ekki leyst nokkurn vanda. Vandinn hleðst alltaf upp því að raunverulega veit enginn hvað það er sem stendur undir sér. Það er alltaf hlaupið í einhvern sjóð og hann grípur inn í dæmið. Þar af leiðandi vitum við ekki hvaða útgerðarhættir bera sig best á Íslandi. Ef það er ekki úthlutun kvóta þá er það bara samningur um fiskverð og millifærslur úr sjóðum.