12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér við 3. umr. að flytja brtt. vegna fyrirsagnar þess frv. sem hér er verið að fjalla um. Ég tel að sú brtt. hafi við nokkuð að styðjast því að það hefur komið fram í máli þeirra manna sem hér hafa rætt af miklu viti um þetta frv. að nafnið gefur ekki lengur til kynna til hverra verka þetta frv. er ætlað. Lögin hafa breytt um hlutverk í raun og veru. Þau sinna ekki lengur því hlutverki sem þeim var upphaflega ætlað, heldur öðru hlutverki. Það hlýtur að vera krafa sem Alþingi gerir til sín að fyrirsagnir frumvarpa gefi raunverulega til kynna hvert hlutverk þeirra laga er sem þessum frumvörpum er ætlað að verða að. Því hef ég leyft mér að bera þessa brtt. fram, virðulegi forseti, sem að vísu verður að leita afbrigða fyrir til að koma megi til umræðu og atkvæðagreiðslu.