12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hér er komin fram brtt. um að breyta heiti frv. og kalla það millifærslusjóð sjávarútvegsins. Hér er raunverulega um rétt nafn að ræða á þessu og að mörgu leyti er háðungin frekar sú að frv. skuli heita frv. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Eins og hæstv. sjútvrh. sagði áður í fyrri ræðu sinni er hlutverki þess sjóðs lokið, m.a. vegna þess að honum var stundum misbeitt, þannig að nafnið á frv. er rangt.

Ég get svo aftur á móti tekið undir að mér finnst nafngiftin í sjálfu sér, millifærslusjóður sjávarútvegsins, dálítið sérstök, en í eðli sínu samt miklu nær og miklu réttara nafn en það nafn sem er á frv. Ég mun því styðja þá brtt. sem fram er komin um nafnbreytingu.