12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. 4. þm. Vesturl. þætti vænna um nafn þessa sjóðs en svo að hann hlypi strax upp til að styðja vanhugsaða till. sem kemur inn í lokaumræðu um þetta frv. Það má deila um hvað verið sé að gera við þessa peninga. Við vitum að þetta er komið frá sjávarútveginum sjálfum. Þaðan eru peningarnir komnir. Það er ekki verið að fjalla um einhvern ríkisstyrk í þessum efnum. Þessi meðferð á peningunum er samkomulag aðilanna í útvegi og sjómanna. Og því má ekki nafnið halda sér? Ég bara spyr. Þetta er viss trygging fyrir menn. Þessi gagnmerka stofnun er búin að vinna um áraraðir á vegum Fiskifélagsins og jafnmikill vinur þess og hv. síðasti ræðumaður hefur verið á ég ákaflega bágt með að skilja að hann skuli hlaupa upp til að mæla með slíku. Ég mæli eindregið á móti því að nafninu verði breytt.