12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég lagði þetta eingöngu til vegna þess, eins og ég lagði áherslu á í máli mínu, að þetta nafn á betur við hlutverk sjóðsins en það nafn sem hann ber núna. Ég hef ekki orð minni manns en hæstv. sjútvrh. fyrir því að þessi sjóður gegni ekki því hlutverki sem hann gegndi áður og hlutverki hans hafi verið breytt m.a. vegna þess að menn lögðu þetta virðulega nafn, sem hann enn þá hefur, við hégóma og svindluðu. Það var á orðum hæstv. sjútvrh. að skilja.

Ég ber aftur á móti algerlega af mér að í orðinu „millifærslusjóður“ felist einhver háðung. Menn eru að millifæra. Ef það er háðung er hún ekki fundin upp af mér heldur af þeim sem stunda hana.

Ég minntist hvergi á það í mínu máli, og ég hef tekið þátt í umræðu um þetta mál frá 1. umr., að hér væri einhver ástæða til að vera að hæðast að hlutunum, heldur gagnrýndi ég þá. Hérna er ég að reyna að koma til skila skoðun minni á því í hvaða hlutverki þessi lög eru og þessi sjóður, en það er hlutverk sem allir menn sem hér hafa talað eru búnir að samþykkja að hann hafi vegna þess að hann hafi lokið því hlutverki sem honum var upphaflega ætlað.