12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur tekið frv., sem hér er til umræðu, til meðferðar og fékk á sinn fund Sigurgeir Jónsson aðstoðarbankastjóra Seðlabankans til skrafs og ráðagerða.

Nefndin varð ekki sammála. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt. Stefán Benediktsson skilar séráliti, en Karl Steinar Guðnason var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins.

Með frv. þessu er lagt til að innheimta verðjöfnunargjalds af raforkusölu verði framlengd út árið 1986. Jafnframt er lagt til að gjaldið, sem var lækkað úr 19% í 16% með lögum nr. 120/1984, verði áfram 16% og verði tekjum af gjaldinu skipt á sama hátt og verið hefur milli Rafmagnsveitna ríkisins, sem fá 80%, og Orkubús Vestfjarða, sem fær 20%. Það er gert ráð fyrir að þessi tilhögun gildi óbreytt í eitt ár til viðbótar og lögin falli sjálfkrafa úr gildi 31. des. 1986.

Ég ítreka, hæstv. forseti að meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt.