23.10.1985
Neðri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv., sem flutt er á þskj. 72, um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. Þetta frv. gerir ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í kjaradóm sem á að skila áliti fyrir 1. des. á þessu ári og ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands sem starfa nú hjá Flugleiðum hf. Hæstiréttur kveður og á um hver hinna þriggja kjaradómsmanna skuli vera formaður dómsins. Kjaradómurinn setur sér starfsreglur, aflar sér nauðsynlegra gagna og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum, opinberum aðilum og fyrirsvarsmönnum Flugleiða hf. og Flugfreyjufélags Íslands. Kjaradómur skal við ákvörðun kaups og kjara flugfreyja hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðastgildandi kjarasamning aðila, almennar kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa síðan hann tók gildi, svo og breytingar á launum annarra starfsmanna Flugleiða hf. Ákvarðanir dómsins skulu vera bindandi fyrir aðila frá gildistöku þessara laga.

Verkfall það, sem þessi lög taka til, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimil. Á meðan lög þessi gilda er Flugleiðum óheimilt að segja félagsmönnum þeim sem lögin taka til upp starfi nema þeir uppfylli ekki lengur lágmarkskröfur sem gerðar eru til hæfni í starfi eða þeir hafi gerst sekir um brot í starfi.

Nú þykir vafi leika á um réttmæti uppsagnar skv. þessum lögum, þá sker félagsdómur úr ágreiningnum. Kostnaður við störf kjaradóms, þar á meðal laun dómenda eftir ákvörðun ráðherra, greiðist úr ríkissjóði. Með brot á þessum lögum skal fara að hætti opinberra mála ef ekki liggja þyngri refsingar við skv. öðrum lögum.

Í 8. gr. þessa frv. segir að þessi lög öðlist þegar gildi eftir að Alþingi hefur samþykkt þau og gildi til 31. des. n.k. Úrskurður kjaradóms skv. 1. gr. frv. gildir til sama tíma nema nýir samningar hafi áður verið gerðir á milli aðila. Eftir 15. des. er úrskurður kjaradóms uppsegjanlegur af hvorum aðila um sig með 15 daga fyrirvara miðað við mánaðamót. En eftir 1. des. 1985 gildir úrskurður kjaradóms meðan honum er ekki sagt upp eða nýr samningur gerður.

Undanfarið hafa um alllangan tíma staðið yfir samningaumleitanir á milli Flugleiða hf. og Flugfreyjufélags Íslands. Þær samningaumleitanir hafa ekki borið árangur. Það sem gerst hefur í þessu máli er að Flugfreyjufélag Íslands boðaði verkfall fyrir átta dögum með tilskildum löglegum fyrirvara. Þrátt fyrir það bar svo mikið á milli í viðræðum aðila að sáttasemjari bar ekki fram sáttatillögu í þessu máli og kom verkfallið til framkvæmda á miðnætti í gærkvöldi.

Nokkru eftir að Flugfreyjufélag Íslands lýsti yfir verkfalli óskaði ég viðræðna við báða aðila málsins. Ég ræddi við formann Flugfreyjufélagsins s.l. föstudag og bar fram þá tillögu til lausnar á þessum vanda að Flugfreyjufélag Íslands frestaði verkfallsaðgerðum en nefnd yrði skipuð sem í ættu sæti fulltrúar frá deiluaðilum, einn frá Flugfreyjufélagi Íslands og annar frá Flugleiðum h.f., en samgrn. skipaði oddamann í þá nefnd sem reyndi að finna grundvöll til samninga í þessari deilu.

Því var vel tekið af formanni Flugfreyjufélags Íslands að kanna þessa tillögu í sínum hópi. Var aftur leitað eftir viðræðum við fulltrúa Flugfreyjufélagsins í gærdag og komu bæði formaður Flugfreyjufélags Íslands og formaður samninganefndar félagsins til fundar í samgrn. Þar bar ég aftur fram þessa sömu ósk og skýrði hana nánar. Ég sagði jafnframt að ég teldi það mikils virði að geta leyst málið með þeim hætti, samningar yrðu lausir um næstu áramót eins og hjá velflestum. Ég vildi ekki á nokkurn hátt blanda mér í deiluefnið eða gerast dómari í því því að sjaldan veldur einn þegar tveir deila. Hins vegar ræddum við um það alvarlega ástand sem skapaðist í samgöngumálum í landinu við að stærsta flugfélag landsins stöðvaði starfsemi sína.

Ég tek það fram að hjá öðru stærsta félaginu, Arnarflugi hf., hefur ekki verið boðað verkfall og þar hafa samningaumleitanir staðið yfir. Það heldur því áfram enn um sinn sinni starfsemi. En um hitt má segja að með verkfalli hjá Flugleiðum er meginstarfsemi í samgöngum við aðrar þjóðir lögð niður. Í því áætlunarflugi, sem Flugleiðir halda uppi, hefur orðið stöðvun. Sömuleiðis er stöðvun á áætlunarflugi til flestra landsfjórðunga því að Flugleiðir eru, eins og allir vita, langstærsti aðilinn sem heldur uppi áætlunarflugi hér innanlands.

Nú er komið langt fram á haust og allra veðra von og má búast við að vegir geti lokast til flestra landshluta hvenær sem er. Um leið og vegir lokast eða verða samgöngutruflanir verður ekki farið á milli staða nema með flugvélum því að engir farþegaflutningar eru sjóleiðis á milli landshluta. Við erum eyþjóð og getum ekki ferðast eins og margar aðrar þjóðir á milli landa með margvíslegum hætti. Hér er því um alvarlegt ástand að ræða. Þegar tekið er tillit til þess hve margir eiga mikið undir því að geta komist á milli staða mundi skapast hér mjög alvarlegt ástand ef samgöngur legðust niður.

Þær eru tíðar, kjaradeilurnar, í okkar þjóðfélagi. Við erum minnug þess að á s.l. hausti var löng og áhrifamikil kjaradeila. Segja má að einmitt fyrirtæki eins og samgöngufyrirtækin lendi yfirleitt alltaf í kjaradeilum. Þær eru það tíðar að hætta er á því að þær hafi alvarleg áhrif á rekstur þessara fyrirtækja.

Nú vil ég ekki, hvorki á einn hátt eða annan, dæma um réttmæti krafna Flugfreyjufélags Íslands. En heildarlaunahækkun mun marka dýr spor í launabaráttu annarra starfshópa. En það er fleira sem deilt er um í þessu sem hefði verið nauðsynlegt að finna flöt á á þeim tíma sem ég gerði ráð fyrir að gæfist með þessari nefndarskipan. Flugfreyjufélagið hafnaði þessari tillögu laust fyrir kl. 5 í gærdag. Samningaviðræður héldu áfram án árangurs og aftur hefur sáttasemjari sagt mér að ekki sé möguleiki á að leggja fram sáttatillögu.

Ég sagði við fulltrúa Flugfreyjufélagsins að mér væri mjög á móti skapi að flytja frv. til lausnar á þessari deilu eða til að fresta verkfalli og gerði það ekki nema í ýtrustu neyð. Hins vegar voru þær umræður, sem áttu sér stað á milli okkar, mjög gagnlegar frá mínum bæjardyrum séð. Þar voru engar hótanir hafðar í frammi. Því er þó ekki að leyna að frá því að verkfallsboðun var gerð hafa fjölmiðlar margoft spurt hvort ætti ekki að grípa inn í þessa deilu með lagaboði. Ég hef verið bæði ófáanlegur til að ræða efnisatriði þessa máls og því síður að ræða um hótanir um að leggja fram frv. til lausnar þessari deilu fyrr en útséð væri um að samkomulag næðist ekki eða aðrar ákjósanlegri leiðir.

Nú er svo komið að verkfall er hafið með þeim afleiðingum sem það getur haft í för með sér. Því var samþykkt í ríkisstj. að flytja þetta frv. Ég gerði ráðstafanir til þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengju að vita um þetta mál og að það yrði flutt hér í dag. Ég óskaði eftir því að þm. reyndu að greiða fyrir framgangi þessa frv. þannig að sem minnstur skaði yrði fyrir almenning á landinu vegna stöðvunar þessara flugvéla allra þó að ég hafi ekki farið fram á það við neinn stjórnarandstæðing að hann greiddi frv. atkvæði. Því ræður auðvitað hver og einn þm. fyrir sig. En ég endurtek það að ég tel það mikils virði fyrir þjóðina í heild að haldið sé uppi samgöngum í landinu og menn séu ekki bundnir við það að geta ekki ferðast jafnvel þó að lífsnauðsyn sé, hvorki á milli landa né milli fjarlægari landshluta hér innanlands.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til hv. samgn.