12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

145. mál, stjórn fiskveiða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram hjá talsmanni meiri hl. í nál. sem hér var lagt fram að nm. hefðu náð þeim sáttum sem sóst var eftir. Það ætla ég að sé hárrétt athugað hjá frsm.nm. hafi náð þeim sáttum sem sóst var eftir.

Það verður að segjast eins og er að þetta útskýrir að mörgu leyti það mál sem hér hefur verið á dagskrá. Menn hafa lagt á það höfuðkapp að verja kerfið með ákveðinni breidd til þess að þær sættir næðust sem sóst er eftir.

Ég vil samt fyrst geta þess að ég tel að nefndin hafi með sínum tillöguflutningi lagt til breytingar á frv. til batnaðar. Það held ég að fari ekki á milli mála. Það breytir aftur á móti engu um að heildarstefna frv. er svo víðs fjarri mínum hugarheimi, þegar ég hugleiði þann boðskap sem íslenska stjórnarskráin vill koma á framfæri, að mér er ómögulegt að styðja frv. Ég held nefnilega að margir menn í gegnum söguna hafi náð þeim sáttum sem þeir sóttust eftir. Ég er t.d. ekki í nokkrum vafa um að Gissur Þorvaldsson náði þeim sáttum sem hann sóttist eftir þegar hann hélt í Reykholt forðum og vó Snorra. Hann náði sínu markmiði. Hann náði þeim sáttum sem hann taldi sanngjarnar í þessu máli. Og ég er sannfærður um að alveg eins telja þeir sem styðja þetta mál að þeir hafi náð þeim sáttum sem þeir sækjast eftir við trillukarlana. Spurningin er aðeins hvort Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrh. veita varðskipunum nægilega mikið fé á fjárlögum til þess að þeir hafi peninga til að elta uppi trillur hringinn í kringum landið ef þeir beita því vopni sem þeir bitrast hafa.

Mér finnst að ríkisforsjáin stefni stöðugt að því að gera menn óábyrga í þessu landi. Veðurstofan á að segja fyrir um hvenær menn eigi fara á sjó. Hæstv. sjútvrh. er einnig farinn að segja fyrir um það hvenær menn megi fara á sjó og við höldum áfram að hlaða ofan á þetta fyrirhyggjukerfi.

Fiskifræðingar hafa ráðlagt okkur eitt og annað í gegnum tíðina. Þeir sögðu okkur einu sinni hversu mikið magn við mættum veiða af loðnu og það var farið í að byggja skip í samræmi við þessar hugmyndir þeirra. Hver bar svo ábyrgðina á því þegar ekki var hægt að framkvæma það sem fiskifræðingarnir höfðu lagt til? Báru þeir ábyrgðina? Öðru nær. Þeir báru enga ábyrgð á tiltækinu.

Mig undrar það dálítið þegar menn eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. láta hafa sig í það að styðja frv. sem hefði getað verið samið af lærisveinum Karls Marx, sennilega sem doktorsritgerð í því hvernig ætti að framkvæma sósíalisma. (HBI: Það var ekki búið að finna upp kvótahugtakið á þeim tíma.) Mig undrar það, þegar ég hugsa til þess að hv. þm. er bókmenntalega sinnaður og hefur vafalaust í gegnum tíðina lesið eitt og annað af bókmenntum, hvernig hann kemst hjá því að minnast þess sem góði dátinn Svejk sagði: Agi þarf að vera í hernum. Þannig réttlætti hann alla yfirtroðslu opinberra aðila: Agi þarf að vera í hernum. Hann hafði nú ekki framfæri sitt af því að útdeila kvóta, heldur lifði hann á því að handsama hunda og selja þá öðrum sem kynhreina og gætti þess eins í þessari sölumennsku sinni að nýi eigandinn væri ekki of nálægt þeim sem áður hafði átt hundinn. (HBl: Það fór nú alla vega. ) En góði dátinn Svejk tapaði ekki svo áttum að hann gerði sér ekki grein fyrir því að margt af því sem stjórnvöld voru að leggja til var ekki hægt að verja með neinni annarri setningu en þeirri: Agi þarf að vera í hernum.

Hvernig ætlar hv. 2. þm. Norðurl. e. að halda því fram, þó að maður fari á sjó á sunnudegi með eitt færi og ákveði, mest til að halda sér í líkamlegri þjálfun, að fleygja því út fyrir borðstokkinn, ef til vill álpast einhver fiskur til að bíta á - hvernig ætlar hann að halda því fram að það sé hægt að rökstyðja það að almannaheill í þessu landi krefjist þess að varðskip komi siglandi á staðinn, handsami fleytuna og fari með hana að landi? Hefur hann hugleitt hvað slíkur siglingatúr kostar fyrir varðskipið, hversu mikil sóun á almannafé það er að setja lög jafnvitlaus og þau sem geta leitt til slíkra ákvarðana? Ég veit að hv. 2. þm. Norðurl. e. gerir sér fulla grein fyrir þessari vitleysu. (HBI: Það er hægt að setja kíkinn fyrir blinda augað.) Hann gerir sér fulla grein fyrir þessari vitleysu og hann gerir sér grein fyrir því að eina leiðin til þess að komast hjá því að horfa á vitleysuna er að snúa sér undan og horfa á allt annað.

Ég hygg að mönnum sé ljóst, eins og ég sagði við 1. umr. þessa máls, að það verða engin rök flutt úr þessum ræðustól sem sannfæra menn um að standa beri öðruvísi að þessu en hér er lagt til vegna þess að það sem menn hafa verið að gera er að skipta á milli sín fjármunum. Þeir hafa verið að skipta á milli sín fjármunum, ákveðnum peningaupphæðum, og þeir hafa ákveðið að standa þannig að verki að ná þeim meiri hluta sem þyrfti til að standa saman að skiptingunni. Sá meiri hluti stendur á bak við LÍÚ, sá meiri hluti styður einnig hæstv. sjútvrh. og sá meiri hluti styður einnig þá sem standa að því að flytja brtt. við þetta frv. en leggja ekki til að það verði fellt. Það er þessi samstaða um fjárhagslega skiptingu sem liggur á bak við.

Ég verð að segja eins og er að ég hefði gaman af því að hlusta á hv. 2. þm. Norðurl. e. verja það mál fyrir ungum hugsjónamönnum í Heimdalli hvernig það megi gerast að sú fiskveiðistefna sem byggði á þolanlegu frelsi í þessu landi skuli nú eiga að tilheyra sögunni, en fiskveiðistefna sem byggir á mestu miðstýringu sem út hefur verið hugsuð skuli upp tekin. Ég verð að segja eins og er að ég teldi það vel þess virði hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að semja kennslubók um þetta efni því það hlýtur að verða erfitt hjá mönnum sem styðja einstaklingsframtak að skrifa undir skipulag sem þetta.

Ég fer ekki dult með að ég er sannfærður um að Alþb. á eftir að eiga sjútvrh. í þessu landi. Þá verður fróðlegt að sjá þegar forustumenn Sjálfstfl. víðs vegar af landinu koma suður, banka upp á hjá hæstv. sjútvrh. og biðja hann allra náðarsamlegast um leyfi til þess að skipin megi nú fara á sjó, til þess að þeir megi veiða. Það er ábyggilegt að hann setur það að skilyrði að þeir tali ekki mjög illa um hann. (HBl: Hver setur þau skilyrði?) Hæstv. sjútvrh. Hann verður þá miklu skapbetri maður en hæstv. sjútvrh. sem nú er ef hann setur það ekki sem skilyrði. Ég tel að hv. 2. þm. Norðurl. e. þurfi að hugsa sig mjög vel um áður en hann heldur áfram með þá kenningu sína að fiskveiðum verði best stjórnað eftir þeirri reglu að þar sé öllu stjórnað frá borði sjútvrh. Það er nefnilega svo að sú árátta að vilja framlengja ástand, sem e.t.v. getur hafa átt rétt á sér á neyðartímum, að vilja framlengja það til tíma þegar það á engan rétt á sér, er gamalkunnug hjá öllum stjórnvöldum, hvar sem er í heiminum. Íslendingar setja brbl. um skattheimtu og halda svo áfram að endurnýja hana um hver áramót. Einræðisherrar setja á herlög og finna sér svo allt sem tylliástæðu til að halda áfram að viðhalda viðkomandi lögum. Auðvitað er þetta þægilegast þegar sama og engin stjórnarandstaða er til staðar. Þá er ákaflega auðvelt að gera þetta. Ef stjórnarandstaðan telur að þetta séu sjálfsögð vinnubrögð hlýtur að vera eðlilegt að valdhafarnir séu ánægðir með stefnuna.

Nú vill svo til að þetta hlýtur að falla mjög að kenningum stærsta stjórnarandstöðuflokksins eins og hér hefur komið fram. Þetta er eins og sniðið eftir þeirra fræðibókum, enda fulltrúi þeirra í sjútvn. að sjálfsögðu einn af þeim sem skrifar undir þetta nál. Hitt er spurningin hvort það sé komið svo að miðstýringarsinnarnir séu búnir að ná yfirhöndinni í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi nema Bandalagi jafnaðarmanna. Það er það merkilega í þessari stöðu.

Ég veit að mönnum er mikið kappsmál að atkvæðagreiðsla gangi sem fyrst um þetta mál og að það haldi áfram því ég er ekki í neinum vafa um að það er meiri hluti fyrir því hér í deildinni að málið haldi áfram. Það má segja eins og sagt var í kvæði: Kirkja fyrirfinnst engin. Stjórnarandstaða fyrirfinnst engin í þessum þingsölum þegar þetta mál er á dagskrá. Það er ekki eins og hér sé verið að ræða um einhver gjaldþrotamál hjá Útvegsbankanum. Ég hygg að það eina svar sem venjulegir trillusjómenn og útgerðarmenn smærri báta geta haft uppi í þessu máli sé að láta reyna á það fyrir stjórnarskránni hvort þetta stenst og láta reyna á hvort Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrh. verða svo rífleg við Landhelgisgæsluna á næsta ári að láta hana hafa olíu á skipin til þess að hún geti haldið þeim uppi í sportsiglingu á eftir trillubátum hringinn kringum landið. En það verður ekki skemmtilegt til afspurnar fyrir þá menn og fyrir þau skip sem voru notuð til að verja landhelgi Íslands á sínum tíma.

Ég hef ekki hugsað mér að hafa lengri ræðu um þá stefnu sem er verið að móta, en ég vil sérstaklega óska einkaframtakinu í landinu til hamingju með að hafa sameinast á bak við sósíalismann í frv. sem hér er verið að flytja.