23.10.1985
Neðri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um kjaradóm í verkfallsdeilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. Það sérstæða við þetta er að tekið er til umræðu hér frv. sem þm. hafa alls engin tök haft á að kynna sér. Svo mikið liggur á að koma lögum yfir flugfreyjur, eina af hefðbundnu kvennastarfsgreinunum í landinu.

Ég hlýt að vara við því, herra forseti, ef afgreiða á þetta frv. með þeim hraða hér á Alþingi að þm. hafi ekki tök á að kynna sér alla málsmeðferð í þessu máli heldur verði að styðjast við þá mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum um kjör flugfreyja og þeirra mál.

Þegar þm. taka afstöðu til þessa máls er ljóst að þeir verða að hafa réttar forsendur að byggja á. Ég tel mig þekkja þó nokkuð til kjara flugfreyja. Engu að síður tel ég mig þurfa góðan tíma til að kynna mér ýmislegt sem fram hefur komið undanfarið varðandi þeirra mál og hlýt því að draga þá ályktun að þm. þurfi slíkt hið sama.

Það verður ekki hjá því komist þegar það er yfirvofandi að með lögum eigi að setja kjaradeilu flugfreyja í gerðardóm að ræða hér mjög ítarlega stöðuna í þeirri kjaradeilu. Ekki síst er nauðsynlegt að ræða ítarlega þetta mál í ljósi þeirrar myndar sem fjölmiðlar hafa dregið upp af kjaradeilunni. Það hlýtur að vera nauðsynlegt, herra forseti, þegar málið hefur með þessum hætti komið til kasta Alþingis að þingmenn glöggvi sig ítarlega á stöðunni áður en þeir taka afstöðu til málsins.

Fréttaflutningurinn í þessari kjaradeilu er með endemum. Það er forkastanlegt að gefa þá mynd af launakjörum flugfreyja að hér sé um að ræða hálaunastétt sem vaði uppi með himinháar kröfur. Sannleikurinn er sá að þegar litið er á vinnutíma flugfreyja, þau kjör og þær aðstæður sem þær búa við, er fjarri því að hér sé um stétt að ræða sem gerir ósanngjarnar kröfur. Þegar allar staðreyndir málsins eru skoðaðar er um að ræða hefðbundna kvennastarfsgrein sem býr við lök kjör og vanmat á störfum sínum.

Nú vill svo til að ég þekki nokkuð til launabaráttu flugfreyja þar sem ég átti á árunum 1963-1970 um skeið sæti í stjórn Flugfreyjufélags Íslands og var um tíma formaður þess. Ég þekki því af eigin raun þá óbilgirni sem Flugleiðir hafa sýnt í kjarabaráttu flugfreyja. Á þeim árum töldu Flugleiðamenn sig geta skammtað flugfreyjum lúsarlaun, látið þær búa við nánast vinnuþrældóm og óhóflegan vinnutíma, allt í skjóli þess að hér væri um eftirsóknarvert starf að ræða. Ekkert hefur breyst í því efni. Á þeim tíma var vinnutími flugfreyja mjög langur og máttu þær í mörg ár búa við 22 tíma vakttíma á sólarhring meðan flugáhafnir að öðru leyti bjuggu við 17 tíma vakttíma. Launakjör þeirra að öðru leyti voru einnig þá sambærileg við það sem lægst gerðist í þjóðfélaginu. Hér var um hefðbundna kvennastarfsgrein að ræða sem Flugleiðamenn töldu sig geta pískað út að eigin vild. Eftir langa og harða baráttu í mörg ár á þeim tíma náðist loks að fá það leiðrétt að vakttími flugfreyja var færður til samræmis við það sem gerðist hjá flugáhöfnum almennt. Sú barátta var ekki átakalaus og flugfreyjur unnu þá undir þeirri svipu - eins og þær gera reyndar enn þann dag í dag - að það væri bara hægt að reka þær ef þær hlýddu ekki því að nóg væri framboðið til flugfreyjustarfa.

Það væri freistandi, herra forseti, að rekja hér lið fyrir lið kjarabaráttu flugfreyja frá upphafi, þær vinnuaðstæður sem þær hafa gegnum árin þurft að búa við, það mikla vinnuálag, sem ég tel erfitt að ímynda mér að jafnist almennt á við vinnuálag hjá stéttum í landi, þá miklu pressu sem þær búa við í sínum vinnutíma og uppskera síðan léleg launakjör. Ég skal þó ekki á þessu stigi málsins fara út í þau mál, aðeins rekja tvö nýleg dæmi.

Það er ekki langt síðan flugfreyjur bjuggu við það að Flugleiðir ætluðu að spara í rekstri með því að hafa færri flugfreyjur um borð í DC-8 en gerist í nokkru áætlunarflugi annars staðar. Í stað sex flugfreyja í DC-A, 249 sæta vél þar sem nauðsynlegt var að hafa sex flugfreyjur, ætluðu þeir sér að spara með því að taka af eina flugfreyju og hafa aðeins fimm. Vitaskuld mótmæltu flugfreyjur þessu og undir verkfallshótun frá þeim var skipuð nefnd til að útkljá deiluna. Flugleiðamenn töldu það ekkert mál að á löngum sem stuttum flugleiðum gætu fimm flugfreyjur annast 249 farþega.

Þeir nefndarmenn, sem skipaðir voru til að útkljá deiluna, töldu sig víst þurfa að sannfærast um það að flugfreyjur byggju við mikið vinnuálag því að í tvær vikur samfleytt ferðuðust nefndarmenn á öllum áætlunarleiðum flugfélagsins til að kynna sér starfsaðstöðu flugfreyja. Nýjustu aðferðinni, sem farið er að nota hjá atvinnurekendum til að kanna hvort hægt sé að kreista meiri vinnu út úr hefðbundnum kvennastarfsgreinum, var vitaskuld beitt. Við þekkjum aðferðirnar sem farið er að nota á Sóknarkonurnar á spítölunum, þ.e. að hlaupa á eftir þeim með skeiðklukku, athuga hvað þær eru lengi að skúra, búa um rúmin hjá sjúklingunum o.s.frv. Sama aðferðin var notuð við flugfreyjurnar. Nefndarmenn hlupu á eftir þeim um alla vél með skeiðklukkuna, mældu hvað þær voru lengi að hlaupa með matarbakkann, hve langan tíma tæki að renna í gegnum flugvélina með áfengisvagninn, að gefa flugmönnunum, sem í makindum sátu, kaffið sitt o.s.frv. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvort nefndarmenn hefðu mælt í kílómetrum hlaup flugfreyja um vélina á leiðinni Reykjavík-New York t.d. eða Reykjavík-Kaupmannahöfn. Þeir eru örugglega ófáir kílómetrarnir sem liggja að baki eftir eina flugferð. En eftir skeiðklukkuaðferðina var samþykkt að bæta við einni flugfreyju eins og gengur og gerist hjá öðrum áætlunarflugfélögum.

Eina aðferð í viðbót má nefna sem Flugleiðir beittu til að spara. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið á árinu 1980 sem flugfreyjum var boðið upp á hlutastarf. Ef fyrstu flugfreyjur, eða yfirflugfreyjur um borð, tóku því boði að taka hlutastarf voru þær lækkaðar í launum þó að þær eftir sem áður gætu gegnt starfi fyrstu flugfreyju. Launakjör, sem þær höfðu áunnið sér með starfsaldri og starfi fyrstu flugfreyju, voru af þeim tekin, en öruggt er að karlmenn hefðu ekki látið bjóða sér slíkt. 4-5 ár tók það flugfreyjur að fá leiðréttingu á þessu.

Víkjum að kjaradeilunni nú. Ég sagði hér í upphafi míns máls að það væri brýn nauðsyn fyrir þm. að fá rétta mynd af launakjörum flugfreyja áður en þeir taka afstöðu til þess frumvarps sem nú liggur fyrir því fréttaflutningurinn er með eindæmum.

Hver eru hin raunverulegu launakjör sem flugfreyjur búa við? Byrjum á vinnutíma flugfreyja, en eins og ég áður gat um hafa Flugleiðamenn látið það frá sér fara að meðalvinnutími flugfreyja á mánuði séu 84 stundir.

Hér er auðvitað miðað við mjög villandi forsendur hjá Flugleiðum því vakttími samkvæmt samningum við flugfreyjur getur verið allt að 175 stundir á mánuði. Mestan hluta ársins vinna bæði fyrstu og aðrar flugfreyjur að fullu þennan hámarksvakttíma og flugfreyjur eru kringum 150-160 yfir vetrarmánuðina. Helmingurinn af flugfreyjunum, sem eru 300 talsins yfir sumarið, eru sumarflugfreyjur. Ef tekið er meðaltal af vinnutíma flugfreyja sem vinna yfir sumarmánuðina má vel vera að hægt sé að finna út lægri vakttíma en þann að flugfreyjur vinni fullar 175 stundir. Ef það er rétt að þetta eru 84 vinnutímar á mánuði, ef tekið er meðaltal af vinnutíma allra flugfreyja, 300 talsins, yfir sumarið, þá sýnir það kannske best að rekstri fyrirtækisins er ábótavant ef meðalvakttími er yfir sumarmánuðina 84 tímar og Flugleiðir nýta sér ekki að fullu þann umsamda hámarksvakttíma sem er í samningum.

Ég tel að það sé mjög óeðlilegt að miða meðaltöl við flugfreyjur sem starfa kannske 2-3 mánuði yfir sumarið. Það hlýtur að þurfa, ef raunhæfur samanburður á að fást, að taka vinnutíma þeirra flugfreyja sem hafa þetta að föstu starfi allt árið. Og það er eftir öðru í þeirri villandi mynd sem gefin hefur verið upp af kjörum flugfreyja að Sigurður Helgason, nýkjörinn forstjóri Flugleiða, skuli einnig láta frá sér fara mjög villandi upplýsingar í þessu máli.

Samkvæmt því sem mér er tjáð var haft eftir Sigurði Helgasyni í ríkisfjölmiðlum að meðallaun flugfreyja væru 29 þús. kr. Þar tekur Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, meðaltalið af launum flugfreyja sem starfa allt árið því að þá hentar það honum betur. Vitanlega yrði sú upphæð miklu lægri ef tekið væri meðaltal af öllum flugfreyjum yfir sumarmánuðina þar sem stærsti hópurinn er á lægstu laununum. En þegar Flugleiðum hentar, t.d. að því er vakttímann varðar, er tekið meðaltalið af vinnutíma allra flugfreyja, þ.e. flugfreyja sem eru fastráðnar og þeirra sem eru lausráðnar yfir sumarið. Sem sagt: æðsta yfirmanni Flugleiða hentar að gera þann samanburð að taka meðaltal af launum fastráðinna flugfreyja sem hafa lengstan starfsaldur, þ.e. þeirra sem starfa yfir vetrarmánuðina og allt árið, en þegar gera á lítið úr vinnutíma flugfreyja er tekið meðaltal af vinnutíma bæði lausráðinna flugfreyja yfir sumarmánuðina og þeirra sem eru fastráðnar.

Ég ítreka enn og aftur að ef gera á einhvern samanburð á kjörum flugfreyja og meta kjör þeirra hlýtur að vera eðlilegt að taka mið af kjörum, aðstæðum og vinnutíma þeirra sem hafa þetta að föstu starfi.

Varðandi laun flugfreyja, þá er staðreynd málsins sú að lægstu laun hjá flugfreyjum eru 20 626 kr. og eftir sex mánaða starf rúmt 21 000 kr. Á þessum launum er til að mynda yfir sumarmánuðina nálægt helmingur starfandi flugfreyja. Ég spyr: Gefa þessi laun tilefni til þess að gefa þá ímynd af stétt flugfreyja að hér sé um hálaunahóp að ræða?

Eftir 14 ára starf komast síðan fyrstu flugfreyjur í hæst 33 417 kr. á mánuði. Við skulum líka athuga að lengra nær starfsaldurinn ekki þó að þó nokkur hópur flugfreyja hafi 20-25 ára starfsaldur að baki.

Í tengslum við þessi laun flugfreyja er auðvitað nauðsynlegt að skoða vinnutímann, ekki síst þar sem aðaldeilumálið snýst um það vaktaálag sem flugfreyjur gera kröfur um að fá. Þegar Flugleiðir sendu menn út af örkinni til að elta flugfreyjur í flugvélunum með skeiðklukkur til að athuga hvort nauðsynlegt væri að bæta við sjöttu flugfreyjunni á DC-8 vélarnar eða hvort yfirleitt væri hægt að kreista út úr flugfreyjum meiri vinnu með skeiðklukkuna að vopni var gerð könnun á vinnutíma flugfreyja. Fyrir einu eða tveimur árum, eins og ég nefndi hér áðan, þegar flugfreyjur kröfðust þess að fá sjöttu flugfreyjuna á DC-8 vélarnar líkt og var hjá öðrum áætlunarflugfélögum erlendis var kjararannsóknarnefnd látin athuga vinnutíma flugfreyja. Ég sé ástæðu, herra forseti, til að lesa bréf sem dagsett er 20. mars 1984 frá kjararannsóknarnefnd, en þar segir, með leyfi forseta, bréfið er stílað á Flugleiðir hf. og Flugfreyjufélag Íslands og það fjallar um vinnutíma flugfreyja:

„Á fundi sem fulltrúar Flugleiða hf. og flugfreyja sátu ásamt starfsmönnum kjararannsóknarnefndar í febrúar 1984 var gengið frá skilgreiningu þessa verkefnis og ýmsum atriðum varðandi tilhögun úrvinnslu. Markmið könnunarinnar er að finna hvernig vinnutími flugfreyja skiptist milli dagvinnu, eftirvinnu, næturvinnu og helgarvinnu. Ákveðið var að miða við að til dagvinnu teldist tíminn frá kl. 8 til 16 virka daga, til eftirvinnu teldist tíminn frá kl. 16 til 18 mánudaga til fimmtudaga, til næturvinnu teldist tíminn frá 18 til 8 mánudaga til fimmtudaga að aðfaranótt föstudags meðaltalinni og til helgarvinnu teldist tíminn frá kl. 16 á föstudegi til 8 á mánudegi. Ákveðið var að athuga hvort umrædd skipting vinnutíma væri mismunandi eftir því hvort flugfreyjurnar ynnu mikið eða lítið. Voru í þessu skyni útbúnar niðurstöður fyrir þrjá hópa, þ.e. allar flugfreyjur sem unnu fleiri en 100 tíma á mánuði og þær sem unnu fleiri en 90 tíma á mánuði. Einnig var ákveðið að miða niðurstöður við reynslu alls ársins 1983. Gögnin sem unnið var úr eru í vörslu Flugleiða hf. og var unnið úr þeim af starfsmönnum þeirra í samræmi við þessar skilgreiningar.“

Og síðan koma niðurstöðurnar. Niðurstaðan af þessari athugun kjararannsóknarnefndar er að meðalvinnutími flugfreyja á mánuði árið 1983 er þannig að þær unnu rúmlega 60% sinnar vinnu utan venjulegs vinnutíma, á helgum, á kvöldin, á jólum, á páskum eða hverjum öðrum þeim dögum sem eru lögboðnir frídagar hjá flestum launþegum í landi. 38% af vinnunni eru unnin í dagvinnu. Þetta þýðir m.ö.o. að 66 klst. af 175 tíma vinnu flugfreyja eru unnar í dagvinnu, en 112 til 115 í næturvinnu, á helgum, stundum á jólum, stundum um áramót þegar hinn venjulegi launamaður vill hafa frí.

Við skulum gera samanburð á þessum vinnutíma flugfreyja annars vegar og launakjörum og t.a.m. fulltrúa í skrifstofuvinnu. Verkefni yfirflugfreyju um borð er mjög mikilvægt. Þær bera ábyrgð á að vinnan um borð gangi eðlilega fyrir sig þar sem eru allt að 250 farþegar sem þarf að veita fullkomna þjónustu á flugleiðunum. Þær hafa mannaforráð og þær hafa verkstjórn á hendi yfir fimm öðrum flugfreyjum um borð þannig að miðað við þeirra hlutverk sem verkstjórar og að bera ábyrgð á að þjónustan gangi eðlilega fyrir sig um borð mætti efalítið finna starfsstétt aðra en fulltrúa, sem betri hefði kjörin, sem eðlilegra væri að bera sig saman við. En látum það gott heita.

Berum þetta saman við fulltrúa á skrifstofu skv. upplýsingum úr riti kjararannsóknarnefndar. Þeir hafa að meðaltali 276,55 kr. í hreint tímakaup á 2. ársfjórðungi 1985. Ef þeir ynnu 60 tíma í dagvinnu á mánuði hefðu þeir fyrir það 16 593 kr. En hvað hefur flugfreyja sem unnið hefur 25 ár hjá Flugleiðum fyrir sína dagvinnu? Hún hefur, miðað við þá dagvinnu sem fram kemur skv. upplýsingum kjararannsóknarnefndar, 11 497 kr. Fulltrúinn á skrifstofunni, sem kannske hefur lítil sem engin mannaforráð, er með rúmum 5000 kr. meira í dagvinnu. Gerum ráð fyrir að fulltrúinn vinni eins og flugfreyjan 60% af sínum tíma utan dagvinnutíma f næturvinnu eða um 112-115 tíma. Fyrir það hefði hann 32 144 kr. En ef vinnutími flugfreyja er tekinn, sem unninn er utan dagvinnutíma, eða þessir 112-115 tímar, þá hafa þær fyrir það um 22 þús. kr. eða 10 þús. kr. minna en fulltrúinn. Það er deginum ljósara að fulltrúinn mundi ekki vinna á jólum, páskum, helgidögum og á kvöldin á sínum dagvinnutaxta, heldur gerði hann um það kröfu að fá annaðhvort helgidagavinnu eða semja um vaktaálag, enda kemur í ljós að væri sami hluti vinnutímans unninn utan dagvinnutíma eins og hjá flugfreyjum hefði hann í heildarlaun 48 þús. kr. á mánuði á móti því að flugfreyjur komast hæst í 32 þús. og verður þá að taka með í reikninginn að hjá fulltrúanum væri um töluvert hærri upphæð að ræða þar sem hér er tekið mið af launum hans 2. ársfjórðung 1985 til samanburðar við laun flugfreyju eins og þau eru í dag.

Við getum líka tekið annan samanburð, þ.e. byrjunarlaun flugfreyja eftir sex mánaða starf sem eru 21 400. Ef 60 tímar af heildarvinnutímanum eru unnir í dagvinnu, eins og kemur fram skv. niðurstöðu kjararannsóknarnefndar, hefur hún fyrir sína dagvinnu 7020 kr. Ef 60% af heildarvinnutímanum eru unnin í nætur- og helgidagavinnu, eða um 112-115 tímar, hefði hún fyrir það um 14 þús. kr. Ef samanburður er gerður við laun í landi, í veitinga- og hótelstarfsemi t.d., kemur eftirfarandi í ljós, miðað við sömu skiptingu á vinnutíma þar og hjá flugfreyjum:

Í dagvinnu hefði starfsmaður í veitinga- og hótelrekstri 9415 kr. fyrir störf í veitingahúsi miðað við sama tímafjölda í dagvinnu og flugfreyjur hafa. Í eftirvinnu, næturvinnu, hefði hann skv. upplýsingum kjararannsóknarnefndar 19 264 kr. fyrir vinnu utan dagvinnutíma, þ.e. fyrir sama tímafjölda og flugfreyjur vinna utan hins hefðbundna dagvinnutíma. Niðurstaðan er sem sagt að starfsmenn í veitinga- og hótelrekstri hefðu um 28 þús. kr. miðað við vinnutíma flugfreyja meðan flugfreyjur hafa ekki nema um 21 þús. fyrir sama vinnutíma.

Svo er gefið í skyn í fjölmiðlum að hér sé um að ræða hálaunahóp. Frídagar flugfreyja eru átta frídagar í mánuði. Þær geta ekki gengið að því að frídagarnir séu um helgar, heldur verða þær að taka sitt frí á virkum dögum jafnt sem um helgar og ekki er um fleiri frídaga að ræða en almennt gerist og gengur í landi. Flugfreyjur geta verið í burtu frá heimilum sínum allt að 380 tíma á mánuði eða í 15 daga. Hver er niðurstaðan? Helminginn af mánuðinum eða 15 daga geta flugfreyjur þurft að vera burtu frá börnum sínum og fjölskyldu. Þær vita aldrei um sinn vinnutíma, hvenær þær eiga að mæta í vinnu, hvenær þær fá frí. Það yrði í mesta lagi viku eða hálfs mánaðar fyrirvari í hvert skipti sem þær fá til þess að skipuleggja fram í tímann. Þær bera smánarlaun úr býtum fyrir 60 klukkustunda dagvinnu og 112-115 klukkustunda næturvinnu, helgidagavinnu, vinnu á jólum, páskum og öðrum lögskipuðum frídögum hér í landi. Fyrir þetta hafa þær á bilinu frá 21 þús. kr. upp í 33 þús. Og síðan er talað um hálaunamanneskjur.

Að því er látið liggja í fjölmiðlum að tilboð Flugleiða þýði 64 þús. í tekjur. Herra forseti. ég tel nauðsynlegt að fá að vitna í fréttir síðustu daga úr blöðum þar sem þetta kemur fram og það er sú mynd sem fólkið í landinu fær af kjörum flugfreyja, það þekkir ekki betur. Það er hægt að grípa niður í DV 22. okt. Þar stendur: „Grípa stjórnvöld inn í deiluna? - Flugrekstur á Íslandi eins og rússnesk rúlletta, segir fulltrúi Flugleiða.“

Nú hefði maður haldið að DV, þar sem verið er að gera grein fyrir því að til svo alvarlegra aðgerða eigi að grípa að stjórnvöld ætli að fara að flytja málið inn á vettvang Alþingis, hefði séð ástæðu til að hafa viðtal við flugfreyjurnar, fá hjá þeim upp afstöðu þeirra til málsins, en við skulum heyra fréttina. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það stefnir allt í stopp. Það væri gaman að geta borgað þau laun sem flugfreyjur biðja um, en það er Flugleiðum ofviða að sögn Sæmundar Guðvinssonar blaðafulltrúa Flugleiða.“ Hér er talað við fulltrúa Flugleiða. Og áfram segir, með leyfi forseta: „Ekkert þokast í samkomulagsátt á löngun og ströngum fundi með sáttasemjara sem stóð til kl. tvö eftir miðnætti. Þetta gæti orðið langt verkfall sem hefði mjög slæmar afleiðingar fyrir Flugleiðir og ekki nema ár liðið frá síðasta stoppi sem varð í BSRB-verkfallinu í fyrra. „Fólk missir traust á Flugleiðum“, sagði Sæmundur. Aðrir starfsmenn Flugleiða munu halda áfram störfum að venju.

DV hafði samband við Matthías Bjarnason samgrh. um hugsanlega íhlutun stjórnvalda vegna þessa máls. Sagði hann að rætt hefði verið við báða aðila og óskað eftir frestun á verkfallsaðgerðum, en þeirri ósk hefði ekki verið sinnt, málið væri enn í höndum sáttasemjara og því ekkert hægt að segja á þessu stigi hvernig stjórnvöld bregðast við í málinu.“

Hér er málið sem sagt komið á það alvarlegt stig að menn eru farnir að ræða um að flytja það inn á vettvang Alþingis. Við hverja er rætt? Fulltrúa Flugleiða, fengið hans álit á málinu, og hæstv. samgrh. Af hverju er ekki talin ástæða til að leita eftir afstöðu flugfreyja þegar málið er komið á þetta stig?

Og daginn eftir í DV: „Verkfall flugfreyja skollið á- gæti orðið snögg afgreiðsla á Alþingi.“

Nú skyldi maður ætla að þegar fer að nálgast alvöruna hefði verið talin ástæða til að fá fram afstöðu flugfreyja í málinu. Með leyfi forseta vil ég vitna í fréttir DV af þessu máli miðvikudaginn 23. okt.:

„Verkfall flugfreyja hófst á miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá samgrn. yrði lagafrv. vegna stöðvunar flugsamgangna að fara venjulegar leiðir, en hægt væri að framkvæma slíkt á mjög skömmum tíma. Flugsamgöngum verður að halda uppi, annars er velferð þjóðarbúsins í húfi að sögn Matthíasar Bjarnasonar.

Ekkert miðar í samkomulagsátt á sáttafundi flugfreyja og Flugleiða sem stóð til kl. eitt eftir miðnætti. Farþegar bíða nú eftir fari, bæði í Bandaríkjunum og út um alla Evrópu. Reynt hefur verið að koma farþegum í Bandaríkjunum á önnur flug til Lúxemborgar. Öllum tilboðum Flugleiða hefur verið hafnað og Flugleiðir hafa hafnað öllum hugmyndum flugfreyja. Samkvæmt upplýsingum frá Flugleiðum mundu meðallaun flugfreyja verða um 64 þús. á mánuði ef gengið yrði að kröfum þeirra.“

Ég fordæmi slíka villandi túlkun í fréttaflutningi. Með leyfi forseta held ég áfram:

„Sú tala orkar nú tvímælis samkvæmt upplýsingum flugfreyja þar sem dagpeningar eru þar reiknaðir með, en dagpeningar eru venjulega ekki skilgreindir sem laun.

Arnarflug mun fljúga samkvæmt áætlun og þegar er farið að undirbúa fjölgun ferða og verður eitt aukaflug flogið annað kvöld til Amsterdam. Fyrsti möguleiki á verkfalli flugfreyja hjá Arnarflugi er eftir viku ef þær boða verkfall nú. „Enn þá hafa þær ekki komið fram með slíka boðun“, sagði fulltrúi Arnarflugs. Þær eru með 19% launahækkunartilboðið í athugun enn þá. „Við munum mynda litla loftbrú milli Akureyrar og Reykjavíkur. Við höfum ákveðið að fjölga ferðum verulega“, sagði einn fulltrúi Flugfélags Norðurlands við DV. Einnig munu önnur minni flugfélög fjölga ferðum sínum. Flugleiðir hafa ákveðið að fljúga sínum Fokkerum með frakt og póst, en enga farþega, jafnvel þótt leyfilegt sé að fljúga með allt að 19 farþega án flugfreyju.“

Það eina sem DV sér ástæðu til að hafa eftir flugfreyjum er að þessi upphæð, sem slegið er hér fram, orki tímælis án þess að gefa flugfreyjum frekari kost á að skýra mál sitt.

Og í Morgunblaðinu í dag segir, með leyfi forseta:

„Í tilboði því sem Flugleiðir gerðu flugfreyjum og þær í fyrrinótt höfnuðu kemur fram að þeim voru boðnar hækkanir sem svara 19,2% launahækkun frá meðallaunum. Samkvæmt því tilboði fengi fyrsta flugfreyja 28 þús. 958 kr. fyrsta starfsárið en það fjórtánda 39 833 kr. Meðaltal launa til flugfreyja yrði samkvæmt tilboðinu 32 946 kr., ökutækjastyrkur 7642 og dagpeningar 23 225 á mánuði þannig að laun og samningsbundnar greiðslur á mánuði væru að meðaltali 63 813 kr.“

Niðurstaða sem fram kemur í fjölmiðlum og þær upplýsingar sem fólkið í landinu hefur samkvæmt. þessu er að meðaltal launa sem Flugleiðir af náð sinni bjóða flugfreyjum sé 64 þús. kr. Þetta vilji flugfreyjur ekki. Ég vil spyrja: Hvenær hefur það heyrst að dagpeningar, sem eru fyrir útgjöldum á ferðalögum vegna starfa, séu reiknaðir sem laun viðkomandi? Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, þegar hann ferðast milli New York og Íslands eða Íslands og Evrópu, efalítið mörgum sinnum á ári vegna starfa sinna, skyldi hann reikna alla dagpeninga sem hann fær sem laun til sín sem hann stingur beint í vasann eins og hann gefur í skyn að flugfreyjur geri? Það er einmitt gefið í skyn með flugfreyjur að dagpeningar séu laun sem renni beint í þeirra vasa en séu ekki fyrir útlögðum kostnaði eins og þeir í raun eru. Dagpeningar sem þær stingi beint í vasann séu 24 þús. kr. á mánuði, kemur fram í fjölmiðlum, haft eftir Flugleiðum. Auðvitað er þetta fjarstæða. Og það er eftir öðru í þessari deilu að það skuli vera í hefðbundinni kvennastarfsgrein að í fyrsta skipti sem ég man eftir séu þau vinnubrögð notuð í kjaradeilu að segja að dagpeningar sem viðkomandi fær vegna starfsins séu beinar launagreiðslur til hans. Hvenær hefur heyrst um hálaunastéttirnar sem standa í kjaradeilum að dagpeningar séu beinar launagreiðslur sem renni í vasa viðkomandi`? Ég spyr hv. þm.: Ef þið eruð beðnir um upplýsingar um ykkar launakjör, leggið þið við allar dagpeningagreiðslur sem þið fáið greiddar frá Alþingi á ferðum ykkar á vegum þingsins erlendis og gefið það upp sem ykkar laun sem þið hafið ykkur til framfærslu? Er það yfirleitt nokkur, sem þarf að ferðast í þágu starfsins hjá hinu opinbera og fær dagpeninga fyrir útgjöldum á sínum ferðalögum, sem fær það síðan framan í sig að það séu beinar launagreiðslur til hans?

Og hverjir eru svo þessir dagpeningar flugfreyja sem um er talað? Jú, á ferðum sínum til New York fá þær 80 dollara á sólarhring eða um 3300 kr. Dagpeningagreiðslur sem opinberir starfsmenn fá, til að mynda alþingismenn, samsvara vegna ferðar t. d. til New York um 7000 ísl. kr. eða helmingi hærra en flugfreyjur hafa.

Að vísu ber að geta þess að fyrir flugfreyjur sem hafa 3300 kr. í dagpeninga, eða rúmlega helmingi minna en dagpeningagreiðslur eru almennt, er greitt hótel. En það vita þingmenn eins vel og ég að fyrir ýmsa þá sem ferðast á vegum hins opinbera er greiddur hótelkostnaður, jafnvel þótt þeir fái sér til framfærslu á sínum ferðum erlendis sem samsvarar um 7000 ísl. kr. Ferðist þær til Danmerkur fá þær í dagpeninga sem samsvarar 2408 kr. meðan aðrir fá 5345 kr., en aftur skal það tekið fram að hótelkostnaður fyrir þær er greiddur þannig að segja má að þetta jafnist að nokkru upp ef samanburður er gerður við þá hópa sem greiða sinn hótelkostnað. Síðan er látið að því liggja að hér sé um mikla umbun og fríðindi til flugfreyja að ræða. Það er auðvitað fjarri sanni.

Áður en ég kem að þeim kröfum sérstaklega sem flugfreyjur hafa lagt fram vil ég með nokkrum orðum ræða launakjör flugmanna, en flugfreyjur hafa í sumum atriðum gert kröfu um að fá sömu hækkun og þeir fengu í febrúarmánuði þegar þeir sömdu við Flugleiðir. Þá náðu flugmenn 43,7% hækkun til áramóta. M.a. var einnig samið um einhverja hækkun á dagpeningagreiðslum og greiðslum fyrir afnot af síma. Það virðist hafa gengið hljóðalaust fyrir sig fyrr á þessu ári eða í febrúarmánuði að flugmenn fengju þessa hækkun, 43,7%. Þessi hækkun var þannig að frá 1. nóv. 1984 komu 16%, frá janúar 1985 9%, frá mars 1985 3%, frá maí 1985 3%, frá september 1985 4% og n.k. nóvember 3%.

Á sama tímabili hafa flugfreyjur ekki fengið annað en það sem um hefur verið samið á almenna vinnumarkaðinum og síðasta hækkunin sem þær fengu var 5% í júní s.l. Það sem á vantar að þær fái hið sama og er á almenna vinnumarkaðinum er 2,4% launahækkun sem varð í ágúst, 4,5% 1. okt. og Albertslaunin fyrr í þessum mánuði, 3%. Flugmenn virðast ekkert hafa þurft að hafa fyrir því að fá 43,7% hækkun fyrr á þessu ári. Hver eru kjör þeirra? Jú, á 1. til 5. ári fá þeir 64-73 þús. á mánuði og hér miða ég við maílaun þeirra. 6. til 10. árið 75-84 þús. Eftir ellefu ára starf, eða frá ellefu upp í 16 ára starfsaldur 86-97 þús. Frá 17 ára upp í 20 ára starfsaldur frá 100-106 þús. Frá 21 árs upp í 25 ára starfsaldur 109-120 þús. Þetta eru launakjör flugmanna í maí 1985. Þetta eru kjör flugmanna sem fengu á silfurdiski 43,7% hækkun í febrúarmánuði s.l.

Skyldu Flugleiðir við það tækifæri, þegar þær afhentu flugmönnum 43,7% hækkun launa, líka hafa talið ástæðu til, þegar þeir meta laun flugmanna, að reikna inn í það dagpeninga og þess háttar? Hefðu þeir gert það með sömu útreikningskúnstinni og þeir viðhafa við flugfreyjur hefðu þeir fengið út að flugmenn hefðu á mánuði 222 þús. kr.

Nei, Flugleiðamenn hafa sjálfsagt ekki talið ástæðu til þess við hálaunastéttina innan síns fyrirtækis að reikna með bílafríðindum og dagpeningagreiðslum þegar þeir leggja mat á kjör þeirra. Við láglaunastétt í hefðbundinni kvennastarfsgrein, sem flugfreyjustéttin er, telja þeir sér hins vegar sæmandi að viðhafa slíkar reikningskúnstir. Það er óþolandi að slíkt sé borið fram í fjölmiðlum að tilboð Flugleiða þýði að meðaltali 65 þús. kr. laun til flugfreyja. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að fordæma þau vinnubrögð af hálfu Flugleiðamanna að bera slíkt á borð því að eitt er víst, að topparnir hjá Flugleiðum væru aldrei tilbúnir að reikna slíkt inn í sín laun og samþykkja að það væru þau laun sem þeir hefðu. Nei, auðvitað mundu þeir aldrei gera það. En það virðist sæma Flugleiðamönnum að beita slíkum rökum á flugfreyjur.

Þegar Flugleiðamenn eru um það spurðir hvers vegna flugfreyjur hafi ekki vaktaálag þar sem þær vinna 60% af sínum tíma utan dagvinnutíma, þá er borið á borð að vaktaálagið sé inni í launum flugfreyjunnar. Gott og vel. Við skulum gefa okkur að vaktaálagið sé nú inni í launum flugfreyjunnar.

En ef 33% vaktaálag er dregið frá eru byrjunarlaun flugfreyja skv. því ekki 20 600 kr. heldur 15 508 kr. Samkvæmt þessu hljóðar tilboð Loftleiða núna upp á það að bjóða flugfreyjum 18 000 kr. í dagvinnu.

Við skulum líka líta á það að hér eru flugfreyjur ekki að setja fram splunkunýjar kröfur. Eins og annað sem flugfreyjur þurfa að berjast fyrir, sem oft eru sjálfsagðar mannréttindakröfur eins og baráttan á sínum tíma um mannlegan vinnutíma, þá er hér um að ræða 12-14 ára gamla kröfu. Þær stéttir, sem í landi vinna og vinna á vöktum, hafa vaktaálag. Fyrir þessu hafa flugfreyjur verið að reyna að berjast í mörg ár og tala fyrir daufum eyrum því að það er skoðun Flugleiðamanna að flugfreyjur séu ekkert of góðar til að búa við dagvinnutaxta þó að þeirra skyldur séu jafnt á lögboðnum frídögum sem virkum dögum.

Hjá því verður heldur ekki komist að víkja örfáum orðum enn frekar að vinnuaðstöðu flugfreyja. Ég hef áður sagt að þær geti lítið skipulagt fram í tímann vegna þessa að sú vinnuskrá, sem þær vinna eftir, kemur út á hálfsmánaðar fresti og gildir hálfan mánuð í senn. Þær búa einnig við mjög óreglulegan vinnutíma, þær búa við mikið vinnuálag og mikla pressu meðan á vinnutíma stendur. Vinnuaðstaða þeirra er léleg. Þær hafa ekki stól til að setjast niður á ef þær hefðu mínútu aflögu á flugleiðunum. Hafi þær þá mínútu verða þær að draga út þunga matarkassa til að setjast á. Undir öllu þessu vinnuálagi og pressu er þeim uppálagt að sýna farþegum gott viðmót, vera brosandi, hlaupa margra kílómetra leið á hverri flugleið, stjana við flugmenn með 222 þús. kr. laun skv. forskrift Flugleiða ef notuð eru sömu rök um þeirra kjör og Flugleiðamenn nota um kjör flugfreyja.

Herra forseti. Ég tel brýnt að fá fram ákveðnar upplýsingar, sem ég hef beðið um, áður en mál þetta verður afgreitt úr nefnd og kemst til 2. umræðu. Ég hef óskað eftir upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun um mat hennar á kröfum flugfreyja og mat Þjóðhagsstofnunar á þeim útgjaldaauka sem Flugleiðir hafa borið á borð að fylgi þessum samningum. Ég tel nauðsynlegt að þm. fái rétta mynd af stöðu þessara mála. Því hef ég einnig óskað eftir að af hálfu Flugleiða fengi ég upplýsingar um hver útgjöld Flugleiða væru á ársgrundvelli, bæði fyrir árið 1984 og 1985, í beinum launagreiðslum til flugfreyja. Þar á ég við föst mánaðarlaun. Ég tel nauðsynlegt að fá samanburð á útgjöldum Flugleiða, til að mynda vegna flugmanna, og hve hátt hlutfall beinar launagreiðslur til flugfreyja eru af heildarlaunakostnaði Flugleiða. Ég tel einnig nauðsynlegt, herra forseti, að fá fram hver voru útgjöld Flugleiða vegna flugmannasamninganna í febrúar sem Flugleiðamenn töldu enga ástæðu til að vísa til kjaradóms. Þá gekk hljóðalaust fyrir sig að semja um 43,7% hækkun til flugmanna. Ég tel ástæðu til að fá upplýst hér hver var kostnaðarauki Flugleiða við þá samninga. Þær upplýsingar, sem ég hef hér getið, hef ég gert ráðstafanir til að fá. Þessar upplýsingar óska ég eftir að liggi fyrir áður en málið verður tekið til 2. umr.

Ég tel rétt að það komi líka fram hér að flugfreyjur lögðu fram kröfur sínar í júlímánuði s.l. Þá er haldinn einn fundur með flugfreyjum þar sem þær kynna kröfur sínar. Síðan er málið látið liggja niðri fram til 2. sept. Þá er haldinn stuttur fundur, síðan annar fundur síðar í málinu og þá er málinu vísað til sáttasemjara. Ég spyr: Hefði ekki verið nær að nota þennan tíma frá því í júlí til september af hálfu Flugleiðamanna til að reyna að komast að samkomulagi? Spurningin er: Af hverju gerðu þeir það ekki? Á því er auðvitað skýring.

Það er óþolandi fyrir flugfreyjur að starfa undir því með eðlilegum hætti í sinni kjarabaráttu að Flugleiðamenn geti alltaf verið öruggir um það og gengið að því vísu að stjórnvöld séu tilbúin til að setja lög á starfsmenn þeirra. Með því er gangur samningaviðræðna mjög óeðlilegur sem best sýnir sig í því að Flugleiðamenn hafa lítið hreyft sig til að koma til móts við kröfur flugfreyja.

Staðan er í raun sú að þótt borið sé á borð í fjölmiðlum að flugfreyjum séu boðnar hækkanir sem samsvara 19,2% launahækkun frá maílaunum er einungis verið að bjóða þeim 0,4% fram yfir það sem gert hefur verið á almenna vinnumarkaðinum. Ef litið er á kröfur flugfreyja er ekki óeðlilegt - og ég trúi því ekki að hv. þm. finnist það eftir það sem ég hef hér lýst, það mikla vinnuálag sem flugfreyjur búa við og er ávallt að aukast - að þær færu fram á 10% hækkun á launum fyrstu flugfreyju, að önnur flugfreyja fengi þá laun fyrstu flugfreyju eins og þau voru áður og þriðja flugfreyja laun annarrar flugfreyju. Að auki fóru þær fram á að fá það sama og gerðist hjá öðrum á vinnumarkaðinum. Vegna þeirrar vinnu, sem leggja átti á þær með sölu á varningi um borð, fóru þær fram á aukahækkun. Hver er svo síðasta krafa þeirra? Hún er að fá vaktaálag til samræmis við aðrar starfandi stéttir hér á landi. Nauðsynlegt er, herra forseti, að fá fram hlutlaust mat á þessum kröfum til þess að fólk byggi ekki afstöðu sína á því sem Flugleiðamönnum þóknast að matreiða fyrir það.

Herra forseti. Ég hef sett hér fram ákveðna ósk um að þær upplýsingar, sem ég hef hér getið, liggi fyrir við 2. umr. þessa máls. Ég óska einnig eftir því að þetta mál fái eðlilega umfjöllun í þeirri nefnd sem fær þetta til meðferðar. Ég tel einnig nauðsynlegt, herra forseti, í ljósi þess að hér erum við að fjalla um launakjör í hefðbundinni kvennastarfsgrein, að upplýsa þm. um ýmsar staðreyndir um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum, staðreyndir um þau launakjör sem hefðbundnar kvennastarfsgreinar búa við. Um það hef ég ýmsar upplýsingar sem fróðlegt væri að rifja upp hér í nokkrum orðum. Ég hef þar ýmislegt fróðlegt fram að færa sem sýnir fram á launamismunun kynjanna á vinnumarkaðinum og þar er ýmislegt sem fram kemur um hefðbundnar kvennastarfsgreinar eins og þá sem nú á að fara að setja lög á. Ég vil geyma mér það, herra forseti, þar til síðar á þessum fundi eða við 2. umr. málsins að fara í gegnum þær upplýsingar þar sem er að finna mikinn fróðleik fyrir þingmenn.

Eins koma fram mjög skýrar og merkilegar upplýsingar í fréttabréfi kjararannsóknarnefndar um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og launamismunun. Það eru splunkunýjar upplýsingar sem ég tel að fjölmiðlar hafi ekki gert nægileg skil. Ég tel það skyldu þingmanna að kynna sér slíkar staðreyndir. Ég mun því fara aðeins í gegnum bréf kjararannsóknarnefndar við 2. umr. málsins.

Á vegum jafnréttisráðs er komin út skýrsla um könnun á stöðu íslenskra kvenna. Þar er einnig að finna mikinn fróðleik sem ég tel að eigi erindi inn í þessa umræðu. Síðast en ekki síst er komin út vegna lokaárs kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna bók sem útgefin var á þessu ári og fjallar um stöðu kvenna, hvað hefur áunnist, m.a. í kjarabaráttu, hjá konum við lok kvennaáratugarins. Ég hef haft tök á að kynna mér lítillega efni þessarar bókar og ég sá strax að ýmislegt, sem fram kemur í henni, á erindi hingað inn í þingsali. Ekki síst verður nauðsynlegt að fjalla um þetta við 2. umr. málsins til að draga upp enn skýrari mynd af því hvaða kjör hefðbundnar kvennastarfsgreinar búa við hér á landi. En til að tefja ekki tímann frekar þar sem dregur að matarhléi geymi ég mér að koma þeim upplýsingum úr þeim ritum, sem ég hef getið, á framfæri þar til síðar við þessa umræðu eða við 2. umr. málsins.