12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég vildi aðeins koma inn á nokkur atriði sem hafa komið fram.

Ég vil þó byrja á að gera athugasemd við það sem hv. þm. Guðmundur Einarsson vék hér að og gerði nokkurt mál úr. Hann minntist á sparnað í rekstri, hvort orðið hefði sparnaður í rekstri vegna kvótakerfisins og hvort mönnum hefði tekist að sanna að svo hefði orðið. Það verður ætíð erfitt að sanna slíkt. S.l. vetur var einstaklega góður og þess vegna vilja menn kannske gjarnan segja þegar þeir leggja fram tölur í þessum efnum að það sé því að þakka hversu tíðarfarið var gott en ekki stjórn veiðanna. Ég held ég muni rétt að Þjóðhagsstofnun telji að sparnaður vegna botnfiskveiðanna sé á milli 9 og 10%, sem þýðir hvorki meira né minna en um 400 millj. kr. í botnfiskveiðunum. Þessu hefur ekki verið mótmælt af forsvarsmönnum útgerðarinnar. Þetta kom einmitt fram á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna og var ekki mótmælt af þeim heldur frekar tekið undir.

Einnig dró hv. þm. í efa að gæði aflans hefðu aukist svo sem af væri látið. Ég skýrði frá því á einum nefndarfundi hjá sjútvn. að ég fór í eina útgerð sem ég er nokkuð kunnugur háttum hjá og fékk að blaða þar í gögnum. Þar eru gerðir út þrír togarar og ég skoðaði þetta nokkur ár aftur í tímann. Staðreyndin er sú að forsvarsmaður þeirrar útgerðar staðfesti við mig að það færi ekkert á milli mála að ef menn vildu taka mark á þessari stjórnun veiða væri hægt að ná verulegum sparnaði bæði í veiðarfærum og olíu og einnig væri hægt að ná afgerandi betri gæðum aflans. Það sannar sig að nokkuð yfir 90% af afla þessara togara er komið í fyrsta flokk. Menn geta því séð að um gífurlegt fjármagn er að ræða. En aðrir hafa hins vegar ekki viljað þýðast þetta kerfi og þess vegna ekki náð þeim árangri í þessum efnum sem kerfið býður upp á.

Það er einnig ljóst og kom fram í þeim gögnum sem við óskuðum eftir frá sjútvrn. þegar nefndin fjallaði um þessi mál, þ.e. hvort um sparnað hefði verið að ræða, og eru það upplýsingar sem rétt er að komi hér fram og hv. þm. Guðmundur Einarsson vék að, að hvað rækjuna varðar þá jókst rækjuaflinn á árinu 1984 frá árinu áður um rúmlega 11 þús. tonn og á árinu 1985 er búist við enn meiri afla. Þessi aflaaukning felur í sér hvorki meira né minna en um 550-600 millj. í auknum útflutningstekjum. Allir sem vilja horfa á þetta mál af sanngirni vita það og viðurkenna að auðvitað er stór hluti af þessu til kominn vegna þess kerfis sem við búum við. Togurum og öðrum stærri skipum hefur í auknum mæli verið beitt á þessa stofna sem við höfum fram að þessu kallað vannýtta.

Ég vil einnig segja frá því sem við fengum í hendur í sambandi við veiðarfærin. Og með leyfi, herra forseti, langar mig til þess að lesa nokkuð um það mál:

„Eins og sjá má hefur innflutningur veiðarfæra dregist verulega saman seinustu árin. Þess skal getið að innflutningsverð í dollurum hefur verið nánast það sama s.l. þrjú ár. Veiðarfærasala á vegum LÍÚ hefur dregist það mikið saman undanfarin ár að ástæða þótti til þess á seinasta ársþingi LÍÚ að leggja hana niður. Sala á veiðarfærum framleiddum innanlands hefur minnkað nokkuð frá árunum 1980-1982. Framleiðsla á trollneti hjá Hampiðjunni hefur minnkað um 10-15% frá því árin 1982-1983. En sú framleiðsla er um helmingur allrar veiðarfæraframleiðslu verksmiðjunnar.“ Og hér segir síðar: „Það er samdóma álit þeirra manna er leitað var til hjá LÍÚ og Hampiðjunni að útgerðarmenn hafi lagt miklu meiri áherslu á að draga úr veiðarfærakostnaði en áður. Veiðarfæri hafa verið betur nýtt og meira splæst en áður fyrr.“ Það fer því ekki á milli mála að þarna hefur náðst verulegur árangur einnig.

Ég þarf ekki að nefna olíuna. Öllum er ljóst að þar hefur verið um gífurlegan sparnað að ræða. Menn hafa alls ekki verið að leysa skip frá bryggju í vitlausu veðri eins og áður var. Menn hafa látið skipin liggja af sér veður heldur en að vera að halda þeim úti í vonlausum veðrum. (Gripið fram í.) Skipin? Nei, þau eru ekki farin að framleiða olíu en það sem við þurfum af olíu er borgað með því sem skipin fiska. Ég tel hins vegar að það fari ekki á milli mála að það er hægt að hafa miklu, miklu meiri tekjur af útgerðinni heldur en er í dag og það er hryggilegt hvað okkur hefur gengið hægt í þeim efnum. Ég fullyrði að með bættri nýtingu og aukinni vinnslu svo og bættri meðferð á afla úti á sjó má fá ekki hundruð milljóna heldur um milljarð a.m.k. ef menn ganga sæmilega um þessa auðlind. Það er augljóst mál að svo má vera.

Okkur ber einnig skylda til þess, eins og hér hefur komið fram m.a. í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, að velta því fyrir okkur, eins og ég kom að í mínum upphafsorðum, hvað má úr hafinu draga. Það er auðvitað forsenda þessa alls. Menn hafa stundum sagt að ekki sé ástæða til að vera með einhverja takmörkun í sóknina, menn megi bara ná í þann afla sem þeir mögulega geta. Hafa menn hugleitt það að í ár munu trúlega verða veidd við Grænland um 12-14 þús. tonn af þorski, um 12-14 þús. tonn af þorski á Grænlandsmiðum? En á árunum 1952-1986 fengust á Grænlandsmiðum hvorki meira né minna en 230-450 þús. tonn að meðaltali. Á árinu 1962 fengust um 450 þús. tonn við Grænland þar sem menn eru að afla nú um 12-14 þús. tonn. Svo leyfa menn sér að halda því hiklaust fram að okkur Íslendingum sé óhætt að ganga næstum óheft í þessa auðlind. Hvar ætli við stæðum Íslendingar í dag ef við ættum von á því að taka um 12-14 þús. tonn á: þorski úr hafinu?

Menn hafa einnig talað um smáfiskadrápið. Ég vil skýra frá því að þar hefur ekki orðið lítil breyting á og ég fullyrði að það má þakka kvótanum að mörgu leyti hvað þar hefur gerst.

Á árunum 1983-1984 var skyndilokunum beitt um 50 sinnum á ári - en skyndilokununum er fyrst og fremst beitt til þess að vernda smáfiskinn - en í ár, 1985, er skyndilokunum aðeins beitt 19 sinnum. Hvað halda menn að þarna hafi verið að gerast?

Það er ljóst að þessi stjórnun veiða er ekki gallalaus en hún er sú skásta sem menn hafa enn fundið og þess vegna er ég henni fylgjandi og hef gerst talsmaður fyrir þessari stjórnun veiða.