12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

145. mál, stjórn fiskveiða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. flutti hér mjög skemmtilega ræðu eins og hans var von og vísa. Hann gat þess að þessi deila stæði fyrst og fremst um það að þeir sem mest fengju vildu fá meira og að þeir sem væru ríkir vildu verða enn þá ríkari en hinir sem væru snauðir ættu að verða enn þá snauðari. Þetta upplýsti hverjir væru auðmenn þessa lands, það hljóti að vera trillukarlarnir. Þeir hafa verið með mestar kröfur um að fá meira. En hverjir eru þá hinir, þessir fátæku? Það hljóta að vera togaraeigendur og aðrir slíkir. það kom jafnframt fram að talað hefði verið við hagsmunaaðila en jafnframt hélt hann því fram, með réttu, að öll þjóðin lifði á sjávarútvegi. Og hverjir eru þá hagsmunaaðilarnir í þessu máli, ef ekki Íslendingar allir? Blasir það ekki við? Það var athyglisvert að þeir hagsmunaaðilar sem hann tók mest mark á er SH og SÍS. Það hefðu nú einhvern tímann þótt tíðindi ef þessi aðilar væru orðnir að átrúnaðargoðum hjá Alþb. En það biður enginn Alþýðubandalagsmaður um orðið til að hnekkja þessu. Þeir þegja þunnu hljóði. Þetta er greinilega stefnan, hin nýja stefna, að þaðan skuli sótt fylgið í næstu kosningum, til SÍS og SH, til fátæklinganna, svo maður fari nú rétt með það sem hv. 4. þm. Suðurl. vildi koma á framfæri. (Gripið fram í: Kýs SÍS til Alþingis?)

En það er merkilegur hlutur sem kom fram við nákvæmari lestur frv. Það hefur einn veiðihópur verið skilinn eftir og ekki tekinn með inn í kvótakerfið þó furðulegt megi heita. Það vita allir að æskumenn þessa lands á vissum aldri, mjög ungir, hafa stundað það að fara niður á bryggjur að veiða og það er engin skráning og ekkert kvótakerfi á þessu. Það er furðulegur hlutur. (Gripið fram í.) Það ætti nú að vera hægt að fá barnaverndarnefnd eða einhvern annan aðila á þessum stöðum til að líta eftir því að pollarnir veiddu nú ekki svo mikið að þjóðinni stafaði hætta af. (Gripið fram í.) En auðvitað má gera ráð fyrir því að það hafi komið fram brtt. við 3. umr. sem bæti úr þessu frá helstu aðdáendum kvótakerfisins þannig að fullkomnun sé náð.