12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla að víkja að spurningum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem ég gat því miður ekki svarað áðan því þannig hefur háttað til um nokkurt skeið að ég hef í reynd þurft að vera í báðum deildum.

Í fyrsta lagi varðandi 4. gr. frv. um línuveiðar þá hefur verið gert fastlega ráð fyrir því að línuveiðar verði að hálfu undanþegnar aflamarki í janúar og febrúar. Á það hefur verið lögð mjög þung áhersla hér á Alþingi og víðar að svo verði einnig í nóvember og desember. Það eru að sjálfsögðu um það skiptar skoðanir og fulltrúar útvegsmanna og sjómanna hafa heldur mælt því í mót. Ég geri ráð fyrir því í ljósi þess vilja, sem fram hefur komið hér á Alþingi og í sjútvn., að línuveiðar verði undanþegnar að hálfu í janúar og febrúar og nóvember og desember. En ég tel rétt að fram komi einnig í Ed. hvaða vilji sé þar fyrir hendi varðandi það mál. Vænti ég þess að þessi svör við því atriði séu fullnægjandi.

Varðandi þorskaflahámark og flutning á þorskaflahámarki í sóknarmarki innan sömu útgerðar þá tel ég ekki mögulegt að hafa slíka reglu eða mismuna útgerðum eftir því hvort nokkur skip eru rekin í sama félagi eða ekki. Það mun aðeins leiða til þess að menn reyni þá að komast fram hjá því með því að sameina fyrirtæki, þannig að það verður ein regla að gilda fyrir öll skip að mínu mati.

Það er nú svo að þeir aðilar sem e.t.v. eru hvað mest á móti framsölum og tala mikið um sölu á óveiddum fiski, þeir ræða gjarnan um möguleika á þessum hlut. Ég vildi aðeins upplýsa varðandi úthlutun kvóta 1985 að hann var 250 þús. lestir. Síðan fóru fram leiðréttingar upp á 5 þús. tonn; hálfur línuafli í janúar og febrúar 6 þús. tonn; 5% viðbót 13. maí 12 500 lestir; 10% heimild til tegundabreytinga eru um 15 þús. lestir; veiði smábáta umfram kvóta 14 500 og viðbót vegna sóknarmarks 14 þús. lestir eða samtals milli 316 og 317 þús. lestir. Þetta eru skýringar á þeim breytingum sem hafa orðið og ég vænti þess að það upplýsi nokkuð í sambandi við spurningu hv. þm. að því er þetta varðar.

Hann spurði einnig um möguleika á því að binda við landshluta. Ég tel að það sé ekki nein lausn á vandamálum, t.d. að því er varðar smábáta, enda eru þeirra reglur orðnar það sveigjanlegar og rúmar að ég tel að ekki eigi að koma til neinna vandræða og fremur sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að þær reglur séu orðnar rýmri en reglur þess flokks sem næstur er fyrir ofan og getur það e.t.v. valdið einhverjum árekstrum.

Hv. þm. spurði einnig um það sem hugsanlega væri dregið undan og nefndi upplýsingar í því sambandi. Ég vil ekkert um það segja. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla að svo sé og ég vil ekki fara með neinar getsakir hér í þeim efnum enda um alvarleg mál að ræða og alvarlegar ásakanir. Mér finnst að menn séu stundum nokkuð léttvægir í slíkum ásökunum hér á Alþingi Íslendinga.

Að því er varðar afkomu sjávarútvegsins og spurningar um það efni þá er afkoman langt í frá nægilega góð. Það hefur margt borið á góma í þeim efnum og yrði allt of langt mál að rekja það hér allt. Hins vegar er ljóst að afkoma sjávarútvegsins er erfið og hún þarf að batna. En ég tel að sú fiskveiðistjórnun, sem rekin hefur verið, hafi leitt til þess að afkoman er skárri, allmiklu skárri en hún annars hefði verið. En afkoman er langt frá því að vera nægilega góð.