12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti, góðir Íslendingar. Hafskipsmálið er stærsta gjaldþrotamál í sögu lýðveldisins. Annar stærsti þjóðbankinn, eign okkar allra, mun tapa hundruðum milljóna og sérhver fjölskylda í landinu verður rukkuð um sérstakan Hafskipsskatt þótt Þorsteinn Pálsson segi nú að hann ætli að fela hann undir öðru nafni.

Hafskipsmálið varpar kastljósi á lúxuslíf peningastéttarinnar í þessu landi sem notar lánin úr þjóðbankanum til að dvelja í olíufurstasvítum á dýrustu hótelum heims þar sem nóttin ein kostar meira en tvenn mánaðarlaun fiskverkunarfólks. Hafskipsmálið sýnir hagkerfi hins frjálsa fjármagns, kjarnann í hinni nýju stefnu Sjálfstfl. í naktri mynd, matadorkeðjur hliðarfyrirtækja, skúffufyrirtækja og platfyrirtækja þar sem peningarnir úr banka fólksins eru færðir af einum reit á annan, úr Hafskipum í Reykvíska endurtryggingu, úr Reykvískri endurtryggingu í Staðarstað hf. og þannig áfram koll af kolli, en þegar upp er staðið og Hafskipsskatturinn kemur til okkar hinna standa Ragnar og Björgólfur og allir hinir forstjórarnir í matadorkeðju Sjálfstfl. uppi ríkari, miklu ríkari en þegar þeir hófu þennan leik. Það verður ekki gengið að þessum eignum þeirra. Þeir tapa ekki. En það erum við hin sem munum borga. Hafskipsmálið er sagan um blómann úr forustusveit Sjálfstfl. í Reykjavík og víðar um land, ráðherra, þingmenn, bankastjóra, formenn flokksfélaga, framkvæmdastjóra flokksins og forustumenn kjördæmasambanda sem allir tóku höndum saman innan vébanda Hafskips. Aldrei hafa í íslenskri sögu verið jafnmargar silkihúfur Sjálfstfl. saman komnar í einu fyrirtæki.

Hafskipsmálið er, góðir Íslendingar, vissulega allt þetta. En það er í raun miklu meira. Það er prófsteinn á það hvort á Íslandi sé lýðræðislegt réttarríki, hvort við getum talið okkur til siðaðra þjóða þar sem öll spil eru lögð á borðið, þar sem ábyrgð og trúnaður eru æðri pólitískum ítökum, hvort við getum sagt með sanni að hér ríki réttlæti og rannsókn mála sé í samræmi við ströngustu kröfur lýðræðis og siðgæðispróf réttarríkja - eða hvort Sjálfstfl. tekst að koma í veg fyrir opna rannsókn á öllum þáttum málsins, rannsókn þar sem almenningur getur sannfærst um það sjálfur að öll spil hafi verið lögð á borðið, hvort Framsfl. lætur það eftir Sjálfstfl. að það verði meginaðferð að þrír menn, jafnvel þótt þeir séu skipaðir af Hæstarétti, verði settir bak við luktar dyr og þjóðinni sagt að þessir þremenningar einir eigi að kíkja ofan í Hafskipspottana.

Steingrímur Hermannsson sagði hér í fyrradag og segir sjálfsagt aftur í kvöld að það sé hættulegt að rannsaka slíkt mál fyrir opnum tjöldum. Hættulegt! Ég spyr: Hættulegt fyrir hvern? Er það hættulegt fyrir fólkið í landinu? Er það hættulegt fyrir almenning sem á að borga Hafskipsskattinn eða er það bara hættulegt fyrir forustuna í Sjálfstfl., fyrir forstjórana sem stóðu að matadorfyrirtækjunum, og kannske hættulegt fyrir ríkisstj.?

Það var minnst á Flugleiðamálið áðan. Þegar ég flutti Flugleiðamálið hér inn á Alþingi sögðu allir Flugleiðaforstjórarnir og Friðrik Sophusson einnig: Það er allt í lagi með þetta fyrirtæki, það er allt í góðu gengi. Þetta er bara rógur, eins og Þorsteinn Pálsson sagði í kvöld. En hvað gerðist? Einu ári síðar komu þessir sömu menn til Alþingis til að biðja um styrk, biðja um peninga, biðja um framlag til að fyrirtækið gæti gengið. Þá var það allt í einu orðið rétt sem ég hafði spáð og sagt.

Alþb. hefur ákveðið að beita sterkasta vopni sem er til í málum af þessu tagi og eru annars eðlis en það mál sem ég flutti hér á sínum tíma, ákvæðum í 39. gr. stjórnarskrárinnar. Við höfum lagt til, eins og hér hefur komið fram, að kjörin verði rannsóknarnefnd Alþingis og sú rannsóknarnefnd á að hafa víðtækara umboð og víðtækara verkefni en felst í þeirri till. Alþfl. sem Jóhanna Sigurðardóttir mælti fyrir í upphafi þessarar umræðu. Í till. Alþb. er ekki aðeins kveðið á um að rannsaka þurfi viðskipti Hafskips og Útvegsbanka Íslands heldur einnig að rannsaka fyrirtækjanetið allt hérlendis og erlendis, tengslin við forustuna í Sjálfstfl. og einnig skuldastöðu annarra stórfyrirtækja við bankakerfið í heild. Og á till. Alþb., eins og einnig hefur nú þegar komið fram, er sá mikli munur í samanburði við till. Alþfl. að þessi rannsókn á að vera fyrir opnum tjöldum. Það er lykilatriði sem skortir algjörlega í þá till. sem hér er til umræðu. Og það er rangt, sem sagt var áðan af talsmanni Sjálfstfl., að störf þessarar rannsóknarnefndar samkvæmt okkar till, eigi að taka langan tíma. Í till. sjálfri er skýrt tekið fram að henni eigi að ljúka á fjórum mánuðum

Það er fróðlegt að þeir þm. Sjálfstfl. sem andmæla kjöri slíkrar rannsóknarnefndar horfa fram hjá því að í Bandaríkjunum, því lýðræðiskerfi sem þeir hampa helst, eru slíkar rannsóknarnefndir þjóðþingsins mikilvægasta tækið til að fá botn í mál af þessu tagi. Hvers vegna má ekki beita sömu lýðræðistækjum hér? Hvað óttast forusta Sjálfstfl.? Hvers vegna hlýðir Framsfl.? Hvers vegna má ekki elsta og virtasta stofnun Íslendinga, Alþingi sjálft, höfuðvígi lýðræðisins í landinu, stofnunin sem er ábyrg gagnvart almenningi, leita hins sanna í þessu máli? Þjóðin mun ekki sætta sig við þá aðferð ríkisstj. að loka þrjá menn bak við dyr og láta þá eina um að skoða þetta mál. Með þeirri aðferð finnst engin trygging fyrir því að allt hafi verið kannað og öll skjöl lögð á borðið.

En þjóðin vill fá hreint borð í þessu máli. Það er eðli þessa máls, og rétt að það komi fram vegna ræðu Þorsteins Pálssonar hér áðan, að skilin milli hins löglega og hins ólöglega eru margslungin í þessu máli. Það á við um þessa sögu, marga stærstu kafla hennar, eins og Vilmundur heitinn Gylfason sagði hér forðum, að margt er löglegt en siðlaust. Það var formlega löglegt að Hafskip notaði síðustu lánin úr þjóðbankanum til að borga Reykvískri endurtryggingu, prívatfyrirtæki þeirra Ragnars og Björgólfs, allar skuldir á sama tíma og skuldalistinn gagnvart öðrum var 1300 millj. kr. Það var líka löglegt - en siðlaust - að láta Georgia Export Import mjólka þúsundir dollara úr hverri komu Hafskips til Bandaríkjanna. Þau eru mörg hliðarfyrirtækin í þessum „matador“ Sjálfstfl. og þau voru auðvitað öll að forminu til lögleg. Eiga þessir þremenningar ríkisstj., skipaðir af Hæstarétti, að rannsaka þau bak við lokaðar dyr? Ekki samkvæmt þeirri till. sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi í dag.

Ég tók í fyrradag eitt dæmi til að varpa ljósi á þennan „matador“, dæmið um Reykvíska endurtryggingu og Staðarstað, flóðlýstan við Tjörnina. En þetta dæmi er ekki það eina. Þau eru mörg og þær voru margar nafngiftirnar sem þessir forstjórar Sjálfstfl. völdu þessum matadorfyrirtækjum. En best fannst mér þeim þó takast upp í nafngiftinni á því fyrirtæki sem ekki hefur enn verið nefnt í þessari umræðu fyrr en ég nefni það hér, sérstakt líftryggingarfyrirtæki sem þessir höfðingjar stofnuðu. Þá töldu þeir nauðsynlegt, í nafngiftinni sjálfri, að minna þm., ráðherra, félagaformenn og framkvæmdastjóra Sjálfstfl. á þá pólitísku líftryggingu, þau pólitísku líftryggingarbönd sem væru milli Hafskips og flokksins. Og hvað var nafnið? Líftryggingarfélagið Vörður hf., Vörður hf., heitið á stærsta og elsta flokksfélagi Sjálfstfl. Þjóðviljinn mun á morgun greina nánar frá þessu sérstæða fyrirtæki. Og hver veit nema nánari athugun á málinu leiði í ljós að einnig séu til á skrá golfklúbburinn Heimdallur og faktúrufélagið Hvöt og aðrar slíkar nafngiftir úr flokkskerfi Sjálfstfl.

Það eru vissulega margir þættirnir í þessu máli. Í Þjóðviljanum í dag er rakið framhald af orðaskiptum mínum við Matthías Á. Mathiesen hér á Alþingi sem var viðskrh. á mikilvægasta skeiði þessa máls. Í Þjóðviljanum kemur fram að Matthías Á. Mathiesen og Tómas Árnason seðlabankastjóri eru ekki bara tvísaga og þrísaga heldur margsaga í þessu máli. Og sagan heldur áfram því í Þjóðviljanum á morgun verða birt viðtöl við Jóhannes Nordal og Jónas Rafnar og nýjungarnar í útgáfunum halda þar áfram.

Það er eðlilegt að þjóðin spyrji þegar hún horfir upp á þessar margsögusagnir: Hver segir eiginlega satt, herrarnir úr Seðlabankanum, og hver þeirra þá, eða Matthías, fyrrum ráðherra? Hver brást, Seðlabankinn eða viðskrh. á því lykiltímabili, júní og júlí, þegar vandinn varð risavaxinn? Fær þjóðin nokkurn tíma að vita það sanna í þessum skiptum Seðlabankans og viðskrn.? Ekki eiga þremenningar ríkisstj. að rannsaka það.

Sjálfstfl. stendur hér á Alþingi, eins og fram hefur komið í kvöld, gegn þeim aðferðum sem duga best til að leiða hið rétta í ljós. Þeir eru jafnvel komnir vel á veg með að ætla sér að fórna Albert Guðmundssyni til þess að bjarga flokknum. Það er von að hæstv. iðnrh. biðji fólkið í landinu um vægð þegar hann finnur að óvinir hans í flokknum vilja að hann einn beri sökina. Það er reyndar eins konar stílbragð hjá Albert í slíkum ræðuflutningi að skamma mig þegar hann í reynd á við félaga sína í flokknum.

Við skulum nefna tvö dæmi. Annað kom fram í kvöld þegar Þorsteinn Pálsson, milli þess sem hann þóttist verja Albert Guðmundsson, tók það skýrt fram að hann teldi að það hefði ekki verið Sjálfstfl. sem skipaði hann formann bankaráðsins. Það eru nú öll heilindin í stuðningnum. Og hvað sagði Matthías Bjarnason viðskrh. á Alþingi í fyrradag? Hann tók það skýrt fram að það hefði að hans dómi bara verið hluti Sjálfstfl. - hluti Sjálfstfl. - sem hefði kosið Albert Guðmundsson í bankaráð. Það hefði eiginlega verið Alþb. og Framsfl. sem kusu Albert í bankaráðið og gott ef ekki Ólafur Ragnar sjálfur sem prívat og persónulega hefði gert hann að formanni bankaráðsins. Þetta eru nú sögurnar og málflutningurinn. En hver er sannleikurinn? Það vill svo skemmtilega til að sannleikurinn kemur fram í þingtíðundunum sjálfum, dálki 1746, 19. desember 1980. Þar kemur fram að þegar kosið var í þetta fræga bankaráð Útvegsbankans komu fram þrír listar. Einn var listi Alþb. og Framsfl., annar var listi Alþfl. og þriðji listinn - hver var þriðji listinn? Jú, það var listi Sjálfstfl. í heild, Sjálfstfl. alls, þar sem hann sameinaðist í þessu kjöri og þeir voru hlið við hlið Albert Guðmundsson og Guðmundur Karlsson, enda hefur Albert tekið það skýrt fram að þingflokkurinn allur hafi samþykkt þessa ráðstöfun. Svo kemur Matthías Bjarnason hér og segir: Það var bara hluti Sjálfstfl.

Það var hins vegar rétt hjá Matthíasi Bjarnasyni að Albert Guðmundsson var tregur til að fara í ráðið. En hvers vegna var hann tregur? Vegna þess að bæði ég og aðrir gerðum honum grein fyrir því að það færi ekki saman að vera stjórnarformaður hjá stærsta viðskiptafyrirtæki bankans og formaður bankaráðsins. En þegar Sjálfstfl. allur hafði skilað honum inn í ráðið hélt hann hvoru tveggja.

Annars er það mesti misskilningur, þó að Sjálfstfl. sé að reyna að koma því inn, að þetta mál snúist um Albert Guðmundsson. Albert Guðmundsson er stór í sniðum, hefur verið það alla sína tíð og er enn, og hann er vissulega ekkert peð í þessu máli. En hann er hins vegar ekki nema hrókur innan um þann mikla fjölda taflmanna sem Sjálfstfl. á á þessu borði, fjölda þm. og forustumanna fyrr og síðar. Við skulum bara nefna nokkur nöfn sem koma við þessa Hafskipssögu úr Sjálfstfl.: Friðrik Sophusson, Matthías á. Mathiesen, Jónas Rafnar, Lárus Jónsson, Ragnar Kjartansson, Björgólfur Guðmundsson, Jón Zoëga, Hörður Einarsson, Sveinn R. Eyjólfsson, Davíð Scheving Thorsteinsson. Það er hægt að hafa þennan lista miklu lengri. Sjálfstfl. mun ekki líðast og ekki takast að setja kastljósið bara á Albert Guðmundsson og halda hinum öllum í skugganum því að þjóðin spyr um sannleikann í þessu máli og hún vill öll gögnin á borðið.

Fólkið spyr: Hvað á að gera nú og hvað á að gera í framtíðinni til að koma í veg fyrir endurtekningu á svo ljótri sögu? Aðrir ræðumenn Alþb. í þessari umræðu munu skýra frá tillögum flokksins í þessum efnum, tillögum ekki bara um skipun rannsóknarnefndar hér á Alþingi heldur frv. um að gera bankaeftirlitið að sjálfstæðri stofnun, breyta ákvæðum bankalaga um bankaleynd, setja skýrar reglur um afskipti stjórnmálamanna af fyrirtækjum og fjármálastofnunum og styrkja lög og reglur sem renna stoðum undir opinbera ábyrgð og skyldur, undir kröfur um siðgæði og lýðræðislegan rétt almennings til upplýsinga, um fráhvarf frá villtum kenningum um að keðja matadorfyrirtækja eigi að vera ráðandi lögmál í íslensku efnahagslífi.

En umfram allt, góðir Íslendingar, þurfum við að sameinast um að endurreisa þann trúnað og það traust sem brostið hafa á undanförnum vikum, að tryggja að á Íslandi sé raunverulegt réttarríki og opinbert siðgæði sem samrýmist þeim kjarna lýðræðisins sem við viljum aðhyllast. Við þurfum að taka höndum saman um að geta sýnt og sannað öllum þjóðum sem við höfum skipti við að Íslendingar geti með sæmd talið sig til hinna siðuðu þjóða, hinna siðuðu lýðræðisþjóða þar sem réttarríkið stendur traustum fótum. Við megum ekki falla í þá gröf að fórna réttlætinu fyrir pólitíska flokkshagsmuni.