12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Það sem kemur hvað gleggst fram í þessu máli, sem hér er til umræðu í kvöld, af öllu því sem ég hef orðið vitni að annars er að Sjálfstfl. er í raun og veru lítið annað en harðsvíruð hagsmunaklíka. Þetta segi ég vegna þess að í ofanálag á allt annað sem þeir hafa nú í kvöld komið fram með sem rök, sjálfum sér til stuðnings í þessu vonda máli, sem þeir eru komnir á kaf í, þá er Sjálfstfl. nú tilbúinn að láta fara fram rannsókn á þessu máli, en bara á þann hátt að hún missir marks sem slík. Sá galli er á gjöf Njarðar að þeir vilja láta fara fram rannsókn á því hvort menn hafi haldið sig innan ramma laganna og aðeins því. Það er gott og blessað. En það skulu menn gera sér fullkomlega ljóst að rammi laganna er rúmur og þá sér í lagi þegar sá rammi miðast við mál sem er viðskiptalegs eðlis. Það er ekki nóg að athuga hvort menn hafa haldið sig innan ramma laganna, þó að það beri að sjálfsögðu að gera í leiðinni. Það verður að koma í dagsljósið hvar hagsmunaárekstrarnir hafa orðið, hvar það er sem raunverulega hefur orðið misbrestur. Það þarf svo sem enginn að efast neitt sérstaklega um að menn hafi gætt þess sem skyldi að halda sig, eins og vera ber, innan ramma laganna. Nú vilja þeir sömu menn auðvitað fá stimpil yfirvalda á málsaðila, sem stimplar þá alla saklausa. Sjálfstæðismenn virðast mér hreinlega ekki þora að láta fara fram rannsókn af því tagi sem nauðsynleg er. Slík rannsókn þarf þó auðvitað að beinast að því fyrst og síðast að hér er um að ræða pólitíska spurningu. Hún er pólitísk og hún er siðferðileg, en sjálfsagt minnst af öllu lagalegs eðlis. Þeir virðast ekki þora að láta fara fram rannsókn á þeim nótum að það verði farið ofan í saumana á pólitísku siðferði þeirra sem standa að málinu. En menn verða að átta sig á því hvert hlutverk þeirra er. Alþm. eru kjörnir til þess að setja lög og leikreglur og til þess að hafa eftirlit með því að þau lög séu haldin. Hlutverk þm. er m.a. að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu og í þessu máli verðum við að gegna því hlutverki. Mér er spurn: Ef það má ekki, til hvers erum við þá hér?

Það verður að vera á hreinu að stjórnmálamenn líti á sig á sama hátt og þeir líta á aðra þjóðfélagsþegna, fólk með hreinan skjöld sem hefur ekkert að fela, og þjóðin verður að fá tækifæri til að meta hvort svo er ekki í yfirheyrslum fyrir opnum tjöldum hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Það getur verið auðvelt að hvítþvo menn með því einu að athuga hvort ekki sé allt í lagi með lagalegu hliðina á þessu máli. En það er nú einu sinni svo að það varðar t.d. alls ekki alltaf við lög að ljúga. Það er meira að segja í sumum tilfellum alfarið löglegt að ljúga. En það er í flestum tilfellum talið vera með öllu siðlaust. Og það hefur oftlega valdið töluverðum skaða. Það er nú einu sinni svo að refsivert er að leyna staðreyndum málsins með því að ljúga. Eitt er hins vegar alveg á hreinu, að hv. alþm. og þá aðallega þm. Sjálfstfl. verða að hætta að koma fram hér í umræðunum hver á fætur öðrum og tala eins og hluthafar á hluthafafundi. Þeir verða að fara að hætta þessu blaðri og snúa sér að því að skýra frá því hvað það var sem raunverulega gerðist. Ekki þar fyrir að það er sjálfsagt velflestum ljóst þó svo að menn virðist hafa á því misjafnlega mikinn skilning. Þess vegna skil ég ekki feluleikinn.

Sjálfsagt hefur lítið annað átt sér stað en það, sem við vitum í raun og veru ósköp og skelfing vel, að hver tilviljunin og hvert óhappið hefur rekið annað og svo eru e.t.v. einhverjir sem ekki hafa staðið rétt að málum. Það kemur í ljós við rannsókn, hvað gerði það að verkum að svo fór sem fór. En það er búið og gert. Það sem átt hefur sér stað er búið og gert. En það sem er engin tilviljun er hvað olli því að Sjálfstfl. tefldi fram til hagsmunagæslu í formannssæti bankaráðs Útvegsbankans fyrir sitt leyti manni sem er og var hluthafi og var stjórnarformaður í aðalviðskiptafyrirtæki bankans. Það er það sem gerir Sjálfstfl. sem slíkan grunsamlegan í þessu máli siðferðilega séð og lýsir því hve harðsvíraður hagsmunagæsluflokkur hann er.

Það er nú ljóst að þegar hagsmunir Útvegsbankans, þjóðbankans, og hins vegar hagsmunir skipafélagsins, einkafyrirtækisins, rákust á hafa hagsmunir þjóðbankans verið víkjandi, en hagsmunir skipafélagsins aftur á móti ríkjandi. Svona fer það auðvitað þegar hagsmunagæslumaðurinn er einn og sami maðurinn fyrir báða aðilana og situr þar með báðum megin við borðið. Það er þá sem ekki er von á góðu. Það kemur einmitt glöggt fram í bók sem Gunnar Gunnarsson skrifaði og heitir „Albert“ að ekki hafi þessi títtnefndi margfaldi hagsmunagæsluaðili Sjálfstfl. samt alltaf haft það á tilfinningunni að hann gæti sinnt hlutverkum sínum svo vel sem hann taldi skyldu sína liggja til þeirra verka þegar hann lýsir því hvers vegna hann snerist gegn ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. En í bókinni er hann sjálfur, hæstv. núv. iðnrh., látinn komast svo að orði, með leyfi herra forseta:

„Það atriði sem skiptir mestu máli fyrir mig varðandi breytta afstöðu til ríkisstjórnarinnar er það, að ég varð formaður bankaráðs Útvegsbankans að beiðni ríkisstjórnarinnar og með samþykki Sjálfstfl. Og það er alveg sama hvaða ráð eða ábendingar ég hef gefið varðandi peningamál sem eru stór liður í efnahagsmálum þjóðarinnar: ríkisstj. hefur aldrei tekið tillit til þess. Peningamálin eru í ólestri og það liggur á að taka þar til hendinni. Það er hreinlega eins og ráðvilltir menn séu að fálma eftir ráðstöfunum sem þeir vita ekki hverjar eigi að vera. Mennirnir sem standa fyrir þessum ráðstöfunum eru komnir á leiðarenda; þeir eru strand og vita ekki hvað til bragðs á að taka.

Ég næ ekki að gegna því hlutverki sem mér var ætlað sem bankaráðsformaður við þjóðbanka. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt mér það traust sem henni bar, ekki tekið það tillit til mín sem hún átti að gera; þess vegna snerist ég gegn ríkisstjórninni.“

Hér hefur hæstv. iðnrh. látið þess getið að hann hafi ekki fengið það olnbogarými sem hann þurfti. Og mér er spurn: Þurfti til hvers? Hvað vildi hann? Hvað vildi ráðherrann? Þess vegna segi ég: Menn geta dundað sér við að rannsaka lagalegu hlið þessa umfangsmikla máls, sem nú hefur verið dregið upp af lager hneykslismálanna, en það er alveg öruggt að í það minnsta flestir málsaðilar koma hvítþvegnir út úr slíkri rannsókn og þá kemur ráðherrann að sjálfsögðu niður standandi, rétt eins og hann er vanur að gera, enda er hann ekkert aðalatriði þessa máls þó svo að hann hafi að sjálfsögðu komið mjög við sögu stöðu sinnar vegna. Hann er bara lítið peð í tafli stórmeistaranna.

Það sem skiptir hins vegar mestu máli er siðferðið í þessu öllu saman. Þegar umrætt tímabil stóð yfir, þ.e. þegar hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson átti sæti sem formaður bankaráðs Útvegsbankans og var jafnframt stjórnarformaður Hafskips, gerðist það að Útvegsbankinn stóreykur viðskipti sín við Hafskip. Það er Útvegsbankinn, ríkisbankinn, sem stóreykur viðskipti sín við Hafskip, fyrirtæki sem að hluta til er eign formanns bankaráðsins.

Auðvitað geta viðskipti Útvegsbankans og Hafskips farið saman og það mjög vel, en það gera þau ekki alltaf, eins og glögglega hefur komið í ljós nú að undanförnu. Hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson gat auðvitað ekki gætt hagsmuna Útvegsbankans gagnvart Hafskipi sem formaður bankaráðs og samtímis gætt hagsmuna Hafskips gagnvart Útvegsbankanum. Það fer ekki saman. Það sér hver heilvita maður. En það er hins vegar alveg löglegt. Það stangast ekki á við nein gildandi lög. En eins og oftlega hefur komið fram í þessu máli í kvöld er það siðlaust og heilbrigð skynsemi segir öllum sæmilega hugsandi mönnum að einn og sami maðurinn geti ekki samtímis verið hagsmunagæsluaðili fyrirtækisins og hagsmunagæsluaðili bankans, hvor gegn öðrum, án þess að til komi hagsmunaárekstrar. Þess vegna vaknar spurningin: Hafi bankaráðsformaðurinn, núverandi hæstv. iðnrh., ekki skipt sér af útlánum þessum, eins og hann hefur margítrekað haldið fram að hann hafi ekki gert, gerði hann þá ekki athugasemdir - eða hvað gerði bankaráðsformaðurinn yfirleitt í bankaráðinu? Er ekki bankaráðið hæstiréttur bankans? Á það ekki að hafa eftirlit með því að allt sé í stakasta lagi og gera tillögur til úrbóta hafi eitthvað farið úrskeiðis? Hvað höfðu hinir bankaráðsmennirnir við þetta að athuga? Hvað höfðu þeir að athuga við þessi stórauknu viðskipti við fyrirtæki bankaráðsformannsins? Það hefur aldrei komið fram, en það verður að koma í ljós.

Að mínu mati er ekki rétt að saka hæstv. iðnrh. um lögbrot af neinu tagi að svo stöddu né nokkurn annan í þessu máli, nema sannist að ástæða reynist til þess, og ég verð að segja að ég yrði mjög undrandi ef lögbrot reyndist vera útkoman úr þeirri rannsókn sem nú hefur verið beðið um. En ég verð að minna á þá siðblindu sem hæstv. iðnrh. ásamt öllum Sjálfstfl. er sekur um, þ.e. þeir sjálfstæðismenn sem samkvæmt bókinni sem ég vitnaði til fyrr í máli mínu studdu hann í þetta embætti, vitandi ósköp og skelfing vel að staða hans í þjóðfélaginu gat auðvitað aldrei samræmst stöðu hans sem formanns bankaráðsins. Í því felst siðblinda Sjálfstfl.

Hæstv. iðnrh. gat þess einnig í bókinni að það hafi verið alveg sama hvaða ábendingar hann hafi gefið ríkisstj. varðandi peningamál. Það hafi ekki verið tekið tillit til þess. Hvaða ráð var hann að gefa varðandi peningamál sem ekki var tekið tillit til? Hvaða hlutverki náði hann ekki að gegna sem bankaráðsformaður sem hann þó vildi gegna? Hvað var það sem hann ekki fékk að gera en vildi samt gera? Þetta verður að koma fram hér. Hvar brast traust ríkisstj., á hvaða sviði og af hvaða tilefni? Af hverju treysti ríkisstj. honum ekki? Hér inni eru margir hv. alþm. sem eru fullfærir um að gefa svör við þessum spurningum sem hreinlega er hrópað á. Það geta hv. alþm. gert sem þá voru á Alþingi og voru við stjórn. Það er m.a. vegna þessa fólks að nú er svo komið að Alþingi varðar þetta mál og verður að láta það til sín taka. Það er sá þáttur málsins sem okkur varðar beint vegna þess að venjulega skiptir það ekki meginmáli í þessu samhengi hvort menn stofna fyrirtæki og setja það síðan á hausinn, bara hve lengi sem gjaldþrot þess er ekki farið að skipta verulegu máli fyrir buddu almennings í landinu. Það sem skiptir meginmáli er hver ber skaðann og hvernig hann varð, og ekki skiptir heldur minna máli hver varð þess í raun og veru valdandi að hinn frægi litli maður í þjóðfélaginu á nú yfir höfði sér sérstakan skatt vegna þess skaða sem þessi tiltekni ríkisbanki hefur orðið fyrir og þá fyrst og fremst vegna slælegs eftirlits og svo vegna slævðrar dómgreindar þeirra sem að því leyti til bera sök á því hvernig komið er.

Góðir áheyrendur. Þetta mál er fyrst og fremst spurning um siðferði og pólitíska siðblindu. Þess vegna verður að yfirheyra allt þetta fólk, alla þá aðila sem hlut eiga að máli, alla bankaráðsmennina, alla bankastjórana. Ekki samt af ríkissaksóknara. Það þarf að gerast fyrir opnum tjöldum og framkvæma af rannsóknarnefnd Alþingis og sú rannsókn á ekki fyrst og fremst að beinast að hinum lögfræðilega grunni, eins og ég hef komið að áður, heldur að hinum siðferðilega og pólitíska grunni sem er nauðsynlegur og þarfur til að upplýsa málið. - Ég þakka áheyrnina.