12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Páll Pétursson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Ég vil hefja mál mitt með því að leggja megináherslu á að þetta Hafskipsmál verði að fullu upplýst og ekkert undan dregið. Alþingi og þjóðin öll á heimtingu á því, sérstaklega þar sem um er að ræða að einn af ríkisbönkunum hefur tapað stórfé á viðskiptum við þetta fyrirtæki og þær fjárhæðir verður þjóðin að borga. Alþingi og þjóðin öll á heimtingu á að vita hvort þarna hafi verið um að ræða ólöglega og/eða siðlausa meðferð á fjármunum þjóðarinnar.

Hvernig upplýsist svo þetta mál rækilegast? Það verður ekki rækilegast gert með því að samþykkja þá tillögu sem hér er til umræðu, þ.e. að kjósa rannsóknarnefnd þdm. samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar og ætla henni að upplýsa málið þannig að hið rétta komi í ljós. Ég er hvorki að vantreysta sjálfum mér né heldur öðrum þdm. en þegar ég skyggnist hér um bekki og hlusta á ræður manna þá sannfærist ég um að þetta er ekki öruggasta leiðin til þess að sannleikurinn komi í ljós. Ég sé í hendi mér og vísa til umræðna bæði í kvöld og í fyrradag að ýmsir þdm. mundu freistast til þess að láta pólitísk viðhorf sín lita afstöðu sína og gera málið að pólitískri hólmgöngu með tilheyrandi upplýsingastreymi og áróðursflæði.

Forustumenn skipafélagsins tengjast allir eða flestallir ákveðnum stjórnmálaflokki og sitja þar margir í trúnaðarstöðum eða hafa setið. Þessir menn hafa ekki á undanförnum árum farið dult með stjórnmálaskoðanir sínar. Forustumenn Hafskips hafa notað hvert tækifærið, hvort heldur verið hafa aðalfundir Hafskips, landsfundir flokks þeirra eða smærri klíkufundir, til gegndarlausra árása á samvinnuhreyfinguna og ríkisreksturinn. Rannsóknarnefnd Nd. mundi að sjálfsögðu kjörin hlutfallskosningu og tæpur helmingur nefndarmanna, þrír fulltrúar í sjö manna nefnd, yrði flokksbræður Hafskipsklíkunnar. Hætta væri á því að þeir teldu sig tilneydda að bregða skildi fyrir Hafskipsklíkuna ef þeim þætti nærri sínum flokki höggvið. Enda þekki ég hugsanlega kandídata annarra flokka, sem sæti kynnu að hljóta í rannsóknarnefndinni, sem ekki stæðust þá freistingu að reyna að koma á flokk þeirra höggi ef rannsókn á einhverju stigi kynni að gefa hið minnsta tilefni til þess. Ég nefni engin nöfn, en við stöndum í pólitískri baráttu og svo viðkvæmt efni sem hér um ræðir býður upp á það að innan nefndarinnar upphefjist pólitísk átök á kostnað réttlætis og sannleiksástands. Ef hins vegar væri vilji þingdeildarinnar að mynda aftökusveit eða takmarkið væri að láta blóð renna væri þetta rétta leiðin, að samþykkja þessa tillögu sem er til umræðu.

Það er aðalsmerki íslensks réttarfars að sakborningur skuli teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð. Þessa reglu vil ég hafa í heiðri. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að sú leið sem ríkisstj. leggur til gefi réttari og sannari niðurstöðu.

Þrotabúi Hafskips hafa nú þegar verið settir hæfir bústjórar, þrír valinkunnir lögmenn. Skiptaráðandi hefur tekið til starfa og mun hraða störfum svo sem frekast er kostur. Komist hann á snoðir um saknæmt athæfi mun hann auðvitað afhenda ríkissaksóknara þau málsgögn. Þessu til viðbótar mun Hæstiréttur samkvæmt kröfu okkar framsóknarmanna tilnefna þriggja manna nefnd til þess að kanna viðskipti Hafskips og Útvegsbankans og Hæstiréttur er öllum stofnunum líklegri til þess að skipa hæfa rannsóknarmenn. Þessi nefnd kannar enn frekar hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða á undanförnum árum svo og aðra viðskiptalega þætti málsins. Þessi nefnd fær heimild til að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, m.a. að upphefja bankaleynd, og fær aðgang að öllum gögnum Hafskips. Þessi rannsókn kemur til með að kosta mikið fé, en um það þýðir ekki að fást. Það verður að rekja allan ferilinn, fletta málinu upp, kanna hvort fé hafi verið dregið úr Hafskipi til dótturfyrirtækja, skúffufyrirtækja, eða með óeðlilegum hætti til einkaneyslu broddanna hjá Hafskipi. Sannleikurinn verður að koma í ljós. Séu mennirnir saklausir er það vel og á það færðar sönnur og þeir hreinsaðir. Séu þeir sekir um ólögmætt athæfi ellegar siðlaust verður það að koma í ljós og þá verða þeir sakhæfir. Þetta er vandaðasta rannsóknaraðferð sem unnt er að nota og kappkostað mun að ljúka henni á sem allra stystum tíma.

Eitt er ljóst. Útvegsbankanum hafa orðið á mistök. Það eina góða við mistökin er að stundum er hægt að læra af þeim. Af þessum mistökum verðum við að læra. Við verðum að veita braskaraklíkum stóraukið aðhald og stórefla þarf bankaeftirlitið, bæði að sjálfstæði og mannafla til þess að það geti gripið af fullum myndugleik inn þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Í kjölfari þessa slyss felst einnig ákveðin hætta á því að tortryggni keyri úr hófi. Við höfum heyrt hér í kvöld og í fyrradag kveðna upp allt að því dauðadóma yfir ákveðnum fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum. Því miður eiga mörg atvinnufyrirtæki í erfiðleikum. Peningamálastefna okkar á þar talsverða sök í sumum tilfellum. Lánsfé er of dýrt, fjármagnskostnaður of mikill. Menn hafa komist upp með fjárfestingar sem þeir hafa ekki ráðið við, og jafnvel vel og heiðarlega rekin fyrirtæki berjast sum í bökkum. Fjármagnskostnaðurinn verður að lækka og vextirnir eru of háir, en ég vara þm. og blaðamenn við því að það er hægt að vinna mikið tjón með órökstuddum upphrópunum um að þetta eða hitt fyrirtækið sé að hrapa eða fara á hausinn.

Því hefur verið haldið fram í umræðunum af Guðmundi Einarssyni að betra væri að viðskrh. skipaði bankaráðsmenn en að þeir væru kosnir af Alþingi. Bankaráðsmenn eru bornir þungum sökum. Ég er þeirrar skoðunar að núverandi skipan sé eðlilegri en að fara að fela einum ráðherra að ráða öllum bankaráðsmönnunum eins og Guðmundur Einarsson leggur til. Ég hef hið besta traust á núverandi viðskrh. og fyrrv. viðskrh. einnig, en ég tel líklegra að Alþingi velji starfhæft og réttsýnt bankaráð en ef lagt væri á einn mann að ákveða öll bankaráð ríkisbankanna. Ég tel jafnframt fráleitt að alþm. séu öðrum borgurum vanhæfari til setu í bankaráðum. Ég tel hins vegar ekkert sjálfgefið að alþm. sitji í öðrum bankaráðum en Seðlabankans en þar er nauðsynlegt að stjórnmálamenn sitji. Ég minni líka á það að einungis tveir af fimm bankaráðsmönnum Útvegsbankans eru alþm.

Einn mikilvægan þátt Hafskipsmálsins hefur ekki borið mikið á góma í umræðunum í kvöld. Það er hverja sök stöðvun viðskipta Hafskips við herinn á á falli félagsins. Þau viðskipti þarf að sjálfsögðu að kanna vandlega og hvers vegna íslensku skipafélögin töpuðu þessum flutningum og hvers vegna fyrirheit Bandaríkjastjórnar, er hún gaf utanrrh., hafa reynst haldlaus og hvað af óförum Hafskips má skrifa á þá töf sem á úrslitum þessa siglingamáls hefur orðið.

Jón Baldvin lagði til að ríkisbankarnir yrðu lagðir niður. Ég er alveg á öndverðum meiði. Ég tel að einkaframtakinu eða félagasamtökum sé ekki treystandi fyrir allri bankastarfsemi í landinu. Einn af ríkisbönkunum hefur orðið fyrir þungu áfalli, áfalli sem þjóðin þarf að bera. Það er slæmt, en það er þó skárra en ef þetta hefði gerst í einkabanka, því þá hefðu þeir sem treyst hefðu bankanum fyrir sparifé sínu tapað því. Sem betur fer þurfa innistæðueigendur í Útvegsbankanum ekki að óttast um innistæður sínar og geta óhræddir treyst honum fyrir sparifé sínu.

Að endingu þetta: Hafskipsmálið verður að upplýsa, alla þætti þess, lagalega og siðferðilega. Það er krafa okkar framsóknarmanna.

Útvarpsumræðum lokið, umræðum fram haldið.