12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég er 2. flm. þeirrar þáltill. sem hér er flutt og hef hlustað á það að undanförnu að hún sé kennd við Alþfl. Það er að vísu satt og rétt að 1. flm. er hv. 2. landsk. þm., en ég sé þó ekki betur en að allmikil fjölgun hefði orðið í Alþfl. ef hægt væri að kenna till. við hann einan.

Fyrst vil ég byrja á að leiðrétta það atriði í málflutningi hv. 4. þm. Reykv. að 39. gr. stjórnarskrárinnar sé arfur frá konungdómi yfir Íslandi. Með leyfi forseta vil ég lesa hér upp úr Stjórnskipun Íslands, 2. útgáfu, sem dr. Gunnar G. Schram annaðist. Þar segir svo á bls. 21:

„Sérstakar stjórnarskrár eiga fyrst og fremst rætur að rekja til stjórnarskrár Bandaríkjanna frá 1787 og til mannréttindayfirlýsingar þeirrar og stjórnarskrár er Frakkar settu sér eftir stjórnarbyltinguna 1789. Að dæmi þessara þjóða tóku önnur ríki, sem stjórnfrelsi fengu, að setja sér stjórnarskrár. Hafa stjórnarskrár ríkja orðið algengar á 19. og 20. öld. Stjórnarskrám þessum er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að lögbinda æðstu stjórn ríkisins, tryggja stjórnfrelsi, stuðla að réttaröryggi og skapa vörn gegn hugsanlegu ofríki af hálfu handhafa ríkisvaldsins. Eru þær því nú víðast hvar taldar sjálfsagðar í menningarríkjum, enda þótt þær séu ekki fremur en önnur mannanna verk einhlítar til þessara hluta.“

Hæstv. fjmrh. hélt því fram í ræðu sinni að það gæti ekki verið eðlilegt að Alþingi rannsakaði sjálft sig. Hann vildi með þessu undirstrika það að bankastjórar væru á ábyrgð Alþingis en ekkí á ábyrgð ráðherra. Það má vissulega færa rök að því. En ráðherrar eru hluti af framkvæmdavaldinu og eru þeir þó á ábyrgð Alþingis. Þetta er því út í hött.

Ég vil vekja á því athygli að málflutningur Alþb. undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar í þessu máli hefur verið á þann veg að búið væri að sanna það af fjöldanum að hæstv. iðnrh. væri sekur. Nú þyrfti að setja upp rannsóknarnefnd til að sanna þetta.

Ég verð að segja eins og er að þetta minnir mann dálítið á þetta gamla, aftökur á staðnum án dóms og laga. Og hverjar eru sakargiftirnar? Jú, hæstv. iðnrh. var á tímabili stjórnarformaður Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans. Þetta var ekkert leyndarmál á sínum tíma. Þetta var öllum ljóst: Hvers vegna risu ekki fulltrúar Alþb. þá upp, lýstu yfir hneykslinu, sögðu sig úr ríkisstj. og stöðvuðu þetta? Hvers vegna? Vegna þess að þeir báru fulla ábyrgð á þessu jafnt og allir aðrir og það veit enginn til þess að hér sé um saknæmt athæfi að ræða. (Gripið fram í.) Er hann að halda því fram að styrkleiki hæstv. iðnrh. sé svo mikill að bankastjórarnir, bankaeftirlitið, Seðlabankinn og bankaráðið hafi allt saman orðið að lúta í lægra haldi? Hvaða tilgangi þjónar sá málflutningur sem hér er viðhafður? Það er fyrst og fremst verið að reyna að koma því á framfæri að hér sé um pólitískan glæp að ræða. Tilgangurinn er fyrst og fremst að sverta einn mann.

Það fær heldur ekki staðist samkvæmt sögulegri skoðun, ef maður metur styrkleika Sjálfstfl., að hægt sé að segja sem svo að hann hafi í gegnum sinn kraft komið þessum málum í gegnum Útvegsbankann, þeim lánveitingum sem farið hafa til Hafskips. Það eru þrír bankastjórar í þessum banka og ég tel víst að þar gildi sú regla sem annars staðar að til þess að lán af þeirri stærðargráðu sem hér hefur verið á dagskrá séu samþykkt þurfi samþykki minnst tveggja. Þetta mál er þess vegna miklu flóknara en svo að hægt sé að setja upp pólitískar ofsóknir eins og reynt hefur verið.

Ég vil undirstrika að sá málflutningur, sem Bandalag jafnaðarmanna hefur viðhaft, að fjarlægja beri allar freistingar, enga hagsmunaárekstra, sá málflutningur getur aldrei rist mjög djúpt. Ég tel að hægt sé að setja þetta upp sem einhverja hugsjónastefnu en ég hygg að menn verði fljótir að reka sig á hindranirnar. Fyrsta spurningin ætti þá að vera í dag: Er þá sjálfgefið að hæstv. landbrh. verði annað tveggja að hætta búskap eða hætta sem ráðherra? Það hlýtur að vera það fyrsta sem kemur upp ef menn fara að skoða þessa stöðu. Er það fullvíst að hæstv. sjútvrh. eigi ekki í einu einasta sjávarútvegsfyrirtæki í þessu landi? Hvað vilja menn halda lengi áfram ef engir hagsmunaárekstrar mega eiga sér stað?

Ég hygg að hægt sé að stíla þetta á þennan hátt sem hv. þm. Guðmundur Einarsson hefur gert. En ég vil minna hann á að þetta eru ævagömul átök, hvort hagsmunaárekstrarnir eigi að marka stefnuna. Kristur var nefnilega borinn þeim sökum forðum að það fengi ekki staðist að hann væri réttlátur. Hvers vegna? Vegna þess að hann umgekkst þá sem höfðu brotið af sér og hans fræga svar hefur verið kristnum mönnum nægileg viðvörun allt fram á þennan dag: Eigi sakar það manninn sem inn fer heldur það sem út fer. - Þess vegna liggja engin rök fyrir því hér að um þá hagsmunaárekstra hafi verið að ræða að hægt sé að réttlæta þá aðför sem hefur verið gerð.

Það breytir aftur á móti engu um það að þegar einn af þjóðbönkunum tapar 350 millj. kr. eða meiru hlýtur þjóðin að verða að fá að vita hvers vegna. Hvað var það sem gerðist? Hún vill að það sé rannsakað. Og hún vill að það sé gert á þann hátt að hún sem heild treysti niðurstöðunni. Vissulega getur það gerst að hún treysti niðurstöðu sem er fengin með þeim hætti að skipaðir verði menn frá Hæstarétti. Vissulega gæti það gerst að hún treysti slíkum niðurstöðum. Hér bendir þó allt til þess að svo muni ekki vera. Ástæðan fyrir því er sú að stjórnarandstaðan almennt hefur litið svo á að um ófullnægjandi aðgerðir sé að ræða. Og hvers vegna á þá ekki meiri hluti sem ræður að vera það víðsýnn að hann sé reiðubúinn að taka undir þær kröfur að þingmannanefnd rannsaki þessa hluti? Það er í anda þingræðisins - það er í anda elsta þingræðisins meðal vestrænna ríkja.

Ég harma að þau mistök skuli hafa átt sér stað að í stað þess að taka undir jafnmálefnalega tillögu og hér er flutt án allra árása á einn eða neinn skuli sá ríkisstjórnarmeirihluti sem er í landinu ekki bera gæfu til þess að taka höndum saman við þá sem það flytja og stuðla að þessari niðurstöðu í þessu máli.