12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og okkur er kunnugt hér í hinu háa Alþingi er formaður þingflokks Framsfl. Páll Pétursson ólíkindatól og ekki orðvar maður. Fyrir skömmu var haft eftir honum í nýja Tímanum, með leyfi hæstv. forseta: „Það þarf ekki nema að líta á forustumenn Hafskips til að sjá að þeir tilheyri flestir sama stjórnmálaflokknum. Það er sannarlega ekki við Framsfl. að sakast vegna þess hvernig þetta mál hefur þróast því að við höfum hvorki leitt Hafskip né Útvegsbankann.“ Og hann hjó í þennan sama knérunn áðan og ungir og ekki ógæfulegir ritstjórar nýja Tímans tóku í sama streng í forustugrein í morgun.

Nú eru þetta ómerk ómagaorð eins og ég sýndi fram á í ræðu minni áðan, en ég get ekki stillt mig um að spyrja á móti, úr því að hv. þm. er staddur í salnum og hefur málfrelsi samkvæmt þingsköpum til þess að svara þessari spurningu. Hvar er gjaldþrotamál endurtryggingafélags Samvinnutrygginga á vegi statt? Um hversu háar fjárhæðir er þar að tefla? Og hvaða tengsl eru milli samvinnuhreyfingarinnar og Framsfl.?

Í jólablaði nýja Tímans taldi ég ekki færri en 19 auglýsingar frá hinum ýmsu kaupfélögum og voru sumar heil síða. Kaupfélögin eru almenningseign og má vera að rétt sé að huga að því nánar hvaða fjármálatengsl séu þarna á milli, ekki síst vegna þess að sum þessara kaupfélaga eru illa á vegi stödd fjárhagslega, svo ekki sé dýpra tekið í árinni, og hafa síður en svo neitt aflögu til að rétta málgagni Framsfl. á silfurfati, nema ef vera kynni að það sem verið er að skipta þarna sé hagnaðurinn af kaffibaununum.