13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

1. mál, fjárlög 1986

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Þegar fjvn. hefur nú lokið störfum fyrir 2. umr. um fjárlagafrv. vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum ánægjulegt samstarf og sérstaklega formanni nefndarinnar, 1. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni, fyrir góða og lipra stjórn á starfi nefndarinnar við erfiðar aðstæður. Einnig tek ég undir þakkir formannsins til starfsmanns nefndarinnar og hagsýslustjóra og starfsliðs hans.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. hinn 12. nóvember s.l. rakti ég nokkuð hina sérstæðu sögu þess fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Ég minnti á að á haustdögum hótaði Sjálfstfl. Framsfl. stjórnarslitum ef framsókn samþykkti ekki fjárlagafrv. eins og það var frá hendi hæstv. fyrrv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar.

Á fundi tveggja ráðherra Sjálfstfl. og þingflokks í Stykkishólmi var frv. sem Framsfl. hafði áður verið knúinn til að samþykkja ekki talið viðunandi grundvöllur til fjárlagagerðar fyrir árið 1986. Hæstv. þáverandi fjmrh. lagði fjárlagafrv. þó fram óbreytt engu að síður, en hann var skömmu síðar flæmdur úr sæti fjmrh. til þess að formaður Sjálfstfl., sem settist í það sæti, gæti mótað fjárlög fyrir næsta ár með þeim hætti að Sjálfstfl. gæti við unað.

Hinn nýi fjmrh. kynnti síðan fjvn. nokkrar breytingar á frv. hinn 12. nóvember, að morgni þess dags, þegar 1. umr. um fjárlagafrv. fór fram, og lýsti því þá yfir aðspurður að ekki væri að vænta fleiri breytinga á frv. af hálfu ríkisstj. Það sem hann hefði lagt fram til breytinga væri allt.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. hélt ég því fram að á því stigi málsins væri frv. ekki nothæfur grundvöllur til raunverulegrar umræðu um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. um fjárlagagerð fyrir næsta ár. Umræður um frv. hlytu á því stigi að verða mestan part markleysa.

Hæstv. fjmrh. tók þessa afstöðu mína óstinnt upp, en það hefur nú komið á daginn að ályktanir mínar við þá umræðu voru réttar.

Hæstv. fjmrh., sem hafði á fundi með fjvn. komið fram með æðisíðbúnar brtt. og staðhæfði þá að engar frekari brtt. mundu koma fram frá hæstv. ríkisstj., lét hinn 28. nóvember, um það til hálfum mánuði eftir þá yfirlýsingu, bera fjvn. þau boð, hann kom nú ekki sjálfur á fund nefndarinnar eins og áður, að ríkisstj. væri fallin frá þeim meginmarkmiðum sem falist hefðu í tillögum í fjárlagafrv. um tekjuhlið fjárlaganna. Um þessar breytingar fengu fulltrúar Framsfl. í nefndinni fyrst að vita á þessum fundi. Þeir komu af fjöllum, höfðu ekkert fengið að vita.

Það kom sem sé á daginn að svo til hvert einasta orð sem hæstv. fjmrh. hafði sagt við 1. umr. um tekjuhlið fjárlagafrv. hafði verið markleysa. Þar stóð ekki steinn yfir steini. Allt sem hæstv. ráðh. var að greina þjóðinni frá í útvarpsumræðum frá Alþingi um áætlanir ríkisstj. í fjárlagafrv. um breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári var markleysa. Hæstv. fjmrh. hefði þess vegna alveg eins getað lesið upp fyrir þjóðina úr ársreikningum Eimskipafélags Íslands.

Öll skrif málgagna stjórnarflokkanna og frásagnir þm. þeirra og ráðherra um 400 millj. kr. lækkun tekjuskatts á næsta ári og lagabreytingar varðandi veltuskatta voru orðin sagnfræði og annað ekki, sagnfræði um fyrirætlanir sem nú voru að engu gerðar.

Allt tal hæstv. núv. fjmrh. um tekjuhlið fjárlagafrv. við 1. umr. hafði verið út í bláinn, byggt á forsendum sem hálfum mánuði síðar var tilkynnt að heyrðu sögunni til.

Fjárlagaumræðan af hálfu hæstv. fjmrh. var því byggð á alröngum forsendum og því markleysa, eins og ég hafði þá þegar haldið fram.

Þegar ríkisstjórnin heykist nú á áformum sínum um lækkun tekjuskatts um 400 millj. kr. á næsta ári og fellur frá áætlunum um samsvarandi hækkun veltuskatta er það tilkynnt sem eins konar kjarabætur til launafólks um 11/2 vísitölustig framfærslukostnaðar.

Allt framlag hæstv. ríkisstj. til að leysa þann vanda sem fram undan er við gerð nýrra kjarasamninga, þegar verkalýðssamtökin gera enn eina tilraun til að draga úr þeirri gífurlegu kjaraskerðingu sem ríkisstj. hefur staðið að, er að falla frá því að hækka framfærsluvísitölu enn um 11/2 stig eins og fyrirætlanir voru um í fjárlagafrv.

Ríkisstj. hefði þannig samkvæmt þessari aðferð getað gengið enn lengra til móts við launafólk með því að hafa hótanirnar um nýja kjaraskerðingu enn ríflegri við upphaflega samningu fjárlagafrv. Þetta eru nýstárlegar aðferðir við að sýna velvilja í verki.

Eina jákvæða aðgerð hæstv. ríkisstj. í garð launafólks til þessa er þannig sú að hlífa þeim við sérstakri árás sem ríkisstj. hafði sjálf ákveðið að beita sér fyrir.

Þessi skrípaleikur hæstv. ríkisstj. er enn eitt dæmið um það ráðleysi sem setur vaxandi svip á aðgerðir hennar og ekki síst að því er varðar stefnumarkandi ákvarðanir og afgreiðslu á því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu.

Framsetning og form fjárlagafrv. hefur verið að þróast til betri vegar á undanförnum árum og er ástæða til að lýsa ánægju með þær breytingar sem gerðar hafa verið í því efni að þessu sinni varðandi gleggri tengsl milli reksturs ríkisins og annarra þátta þjóðarbúskaparins, sem m.a. felst í því að tengja saman framlagningu frv. til lánsfjárlaga og frv. til fjárlaga. Að vísu fjalla ekki sömu þingnefndir um bæði þessi frv. og í raun gefst fjvn. lítill tími til að kynna sér sem skyldi þær upplýsingar um lánsfjáráætlun sem nú birtast sem hluti af grg. með fjárlagafrv. Frv. til lánsfjárlaga er ekki til meðferðar hjá fjvn. heldur hjá fjárhags- og viðskiptanefndum þingdeildanna og vantar því nokkuð á að þessi mál verði afgreidd í því samhengi sem þyrfti.

Ég rakti við fjárlagaumræðu í fyrra hvernig til hefði tekist um fyrstu fjárlagaafgreiðslu hæstv. ríkisstj. þegar í ljós kom þegar í upphafi fjárlagaársins 1984 að í stað 390 millj. kr. áætlaðs fjárlagahalla vantaði um 2000 millj. kr. á verðlagi þess árs upp á að endar mundu ná saman í árslok. Upp í þetta gat var stoppað og ríflega það með erlendum lántökum og tekjum af viðskiptaveltu sem olli viðskiptahalla sem varð 4100 millj. kr. í stað 100 millj. kr. sem spáð hafði verið í þjóðhagsáætlun.

Öðru fjárlagaári hæstv. ríkisstj. er nú að ljúka með þeim hætti að í stað 743 millj. kr. rekstrarhalla ríkissjóðs á fjárlögum er nú talið í grg. með fjárlagafrv. að hallinn verði 1859 millj. kr. í ár og verður þó að öllum líkindum þriðjungi meiri. Lítið hefur hæstv. ríkisstj. lært af reynslunni frá 1984 því að þá var þó brugðið snemma við en nú hefur verið flotið sofandi að feigðarósi því að í inngangi að grg. með fjárlagafrv. fyrir árið 1986 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem sýnt er að erfitt er að bregðast við þeim halla þegar svo langt er liðið á árið er ljóst að hann verður að fjármagnast með lánum fyrir milligöngu Seðlabankans“[þ.e. með nýrri seðlaprentun].

Hallinn er í grg. með fjárlagafrv. talinn munu nema 1859 millj. kr. í árslok eða um 8 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu og líklega sexfalt gjaldþrotið hjá Hafskip.

Í septemberlok voru skuldir ríkissjóðs hjá Seðlabankanum, sem námu 1256 millj. kr. í ársbyrjun, orðnar 4012 millj. kr. Hallinn gæti því orðið talsvert meiri en spáð er í grg, fjárlagafrv. og bendir flest til þess, jafnvel 500-700 millj. meiri en áætlað er í grg. með frv. eða 1800 millj. kr. hærri en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga í fyrra.

Hæstv. ríkisstj. hefur á þessu ári á engan hátt brugðist við því að ljóst hefur verið að halli ríkissjóðs yrði 21/2 sinnum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Viðbrögðin eru þau ein nú við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar að taka ný lán í Seðlabankanum og gera ráð fyrir að greiða af þeim 860 millj. kr. á næsta ári. Vegna hallans er auk þess rætt um heimild til langtímalántöku í lánsfjárlagafrv. fyrir árið 1986 að fjárhæð 1500 millj. kr. því að það þarf m.a. að taka lán fyrir vöxtunum líka. En vaxtagjöld einungis vegna aukins halla 1985 nema 200 millj. kr. á næsta ári samkvæmt grg. fjárlagafrv. en gætu orðið nær 300 millj. kr. Lántakan vegna vaxtagreiðslu af hallanum veldur síðan nýjum vaxtaútgjöldum. Þannig er vítahringurinn sem verið er að stofna til. Útgjöld einungis vegna þess hluta vaxtagreiðslna á næsta ári sem hlýst af auknum halla umfram áætlanir í fjárlögum í ár nema hærri upphæð en framlag ríkissjóðs á því sama ári til allra grunnskólabygginga, sjúkrahúsbygginga og bygginga heilsugæslustöðva í landinu. Vaxtagjöld vegna hallans geta þó orðið verulega meiri ef hallinn reynist hærri en nú er spáð í grg. fjárlagafrv. eins og allt bendir til.

Ég rakti það við umræður um fjárlög í fyrra að árið 1984 hefðu tekjur ríkissjóðs af innflutningi, sem fjármagnaður var með erlendum lántökum vegna 4100 millj. kr. viðskiptahalla, þó dugað til þess að skila ríkissjóði tekjuafgangi, en það sem við blasti varðandi árið 1985 væri að þrátt fyrir áætlaðan 4800 millj. kr. viðskiptahalla á árinu 1985 umfram aflafé þjóðarinnar og veltuskatta í samræmi við það væri þó ætlunin að afgreiða fjárlög fyrir árið 1985 með verulegum rekstrarhalla.

Með tilliti til þessarar niðurstöðu og fyrirætlana hæstv. ríkisstj. að afgreiða fjárlög með þeim hætti lýsti ég því yfir f.h. minni hl. fjvn. að við teldum að fresta ætti afgreiðslu fjárlaga. Við værum reiðubúin til þess að leggja í það vinnu með meiri hl. nefndarinnar að endurskoða þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin stefndi að með þessari afgreiðslu fjárlaga. Leita ætti nýrra leiða, m.a. með nýrri tekjuöflun, til þess að afgreiða haldbetri fjárlög þar sem rekstrarafkoman væri betur tryggð og meiri gætni sýnd gagnvart skuldasöfnun.

Það er nú komið í ljós að þessi orð voru ekki mælt að ástæðulausu því að í grg. fjárlagafrv. er talið að halli á ríkissjóði verði a.m.k. 1100 millj. kr. meiri en áætlað var við afgreiðslu núgildandi fjárlaga og samkvæmt síðustu upplýsingum verður hallinn þó líklega 1800 millj. kr. meiri eða allt að 2500 millj. kr. í stað 743 millj. kr. í fjárlögum í ár.

Það hefði farið betur að öðruvísi hefði verið staðið að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár en gert var. Fyrst það var ekki gert og ekki hlustað á þá sem vöruðu við hefði farið betur, þegar sýnt var að allt var farið úr böndum, að brugðist hefði verið við með einhverjum þeim hætti að dregið hefði úr svo stórfelldri skuldasöfnun sem nú hefur átt sér stað, en hún kyndir bæði undir verðbólgu og viðskiptahalla.

En ríkisstj. bregst sem sagt við með þeim hætti einum að taka ný lán til reksturs A-hluta ríkissjóðs, lán sem verða erlend lán þar sem mikið vantar almennt á að innlendur lánamarkaður anni eftirspurn eftir lánsfé og öll viðbótarlántaka verður því í raun erlend lántaka. Og í stað þess að gera ráðstafanir til þess að spyrna við fótum og draga úr eyðslu var látið vaða á súðum í aukafjárveitingum langt fram á haust a.m.k.

Óráðsíunni og hallarekstrinum er mætt með aukinni skuldasöfnun og samkvæmt lánsfjáráætlun og þeim breytingum sem kynntar voru við 1. umr. um fjárlagafrv. nemur lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs á næsta ári 3164 millj. kr. samanborið við 1526 millj. kr. í núgildandi lánsfjáráætlun og fjárlögum, en það er 107% aukning lánsfjár á einu ári, og verði halli á ríkissjóði í ár meiri en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv. hækkar þessi lánsfjárþörf sem því nemur.

Af þessum 3164 millj. kr. sem lánsfjárþörf A-hluta nemur á næsta ári er miðað við að 1314 millj. kr. verði erlend lán, en hliðstæð tala á þessu ári er 926 millj. kr., þ.e. erlend lántaka vegna A-hluta ríkissjóðs hækkar um 42% .

Þessi stöðuga skuldasöfnun leiðir til þess að vaxtagjöld hækka úr 1472 millj. kr. í núgildandi fjárlögum í 2006 millj. kr. á næsta ári eða um 534 millj. kr. og eru þá vextir á endurlánareikningi ríkissjóðs ekki meðtaldir heldur miðað við samsvarandi uppsetningu og áður. Þessar tölur hækka þó enn ef halli á ríkissjóði í ár reynist meiri en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv.

Fjárlagafrv. er á desemberverðlagi, en sé miðað við áætlað meðalverðlag 1986 má gera ráð fyrir að vaxtaútgjöld hækki á næsta ári um 470 millj. kr. að raungildi eða hærri upphæð en almennt er talið að Útvegsbankinn tapi vegna Hafskipsmálsins.

Í grg. með fjárlagafrv. er því haldið fram að með fjárlagafrv. náist fram það sem sé eitt meginmarkmið stjórnvalda „að nýjar erlendar lántökur opinberra aðila verði ekki meiri en nemur afborgunum eldri gengisbundinna lána“, eins og þar segir orðrétt. Þessi staðhæfing um eitt meginmarkmiðið sem á að felast í fjárlagafrv. er afsönnuð í þeim upplýsingum sem fylgja í grg. um frv. til lánsfjárlaga fyrir næsta ár þar sem fram kemur að nýjar erlendar lántökur opinberra aðila verða á næsta ári hærri en nemur afborgunum. Þetta er einnig staðfest skriflega í upplýsingum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem lagðar voru fyrir fjvn. í bréfi dags. 2. desember s.l. Þar segir að lántökur opinberra aðila erlendis nemi samkvæmt lánsfjáráætlun 1986 3729 millj. kr. en afborganir 2935 millj. kr.

Annað aðalmarkmiðið sem tilgreint er í fjárlagafrv. er að sem næst jöfnuður náist í rekstri ríkisins á næsta ári. Hætt er við að hér sé fullyrt um efni fram. Sé tekið tillit til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á uppsetningu fjárlaga standa mál svo nú við 2. umr., ef reiknað er með þeim brtt. sem fluttar eru eða tilkynntar hafa verið af hálfu ríkisstj., að áætlaður rekstrarhalli er nú um 476,5 millj. kr. samkvæmt þeirri uppsetningu fjárlaga sem gilt hefur til þessa.

En þá er á það að líta að í þeim brtt. sem kynntar hafa verið og þessi tala byggist á eru rekstrarliðir lækkaðir um 170 millj. kr. með almennum yfirlýsingum um sparnað sem hæstv. ríkisstj. hefur áður heitið við fjárlagagerð án þess að hann komi fram í raun. Í fjárlagafrv. er einnig gert ráð fyrir lækkun útgjalda almannatrygginga um 150 millj. kr. án þess að nokkur svör fáist við spurningum um hvernig á að framkvæma þá útgjaldalækkun.

Einnig eru framlög til Lánasjóðs námsmanna 200-250 millj. kr. lægri en óbreyttar lánareglur gefa tilefni til. Þegar spurt er hvaða breytingar sé fyrirhugað að gera á lánareglum fást engin svör.

En það sem mestu skiptir í sambandi við það markmið að ná jöfnuði í rekstri ríkisins á næsta ári og veldur því að allt bendir til þess að sá jöfnuður náist alls ekki án sérstakra aðgerða er sú niðurstaða, sem staðfest var af forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar á fundi með fjvn. s.l. mánudag, að forsendur fjárlagafrv. standast ekki við endurskoðun nú í desember.

Gera má ráð fyrir að miðað við desemberverðlag í ár, eins og gert er í fjárlagafrv. varðandi útgjöld og tekjur á næsta ári, þurfi að hækka útgjaldahlið fjárlagafrv. um 5%-6%, en ekkert bendir til þess að hækkun á tekjuhlið að óbreyttum tekjustofnun geti orðið svo mikil. Af þessum grundvallarástæðum er fyrirsjáanlegur halli á ríkisrekstrinum á næsta ári og sýnt að annað meginmarkmið frv. næst ekki fram nema með nýjum ráðstöfunum.

Í tillögum hæstv. fjmrh., sem hann greindi frá við 1. umr., er gert ráð fyrir því að lækka launaútgjöld um 130 millj. kr. með því að endurráða ekki í störf sem losna.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú haft ríflega 21/2 ár til þess að beita þessari aðferð. Einkum hefði verið ástæða til að huga að framkvæmd þessarar tillögu á yfirstandandi ári þegar við blasir stórfelldur hallarekstur á ríkissjóði langt umfram áætlun í fjárlögum. En staðreyndin er að ekki hafa þau stöðugildi sem fyrir eru í ríkisrekstrinum verið látin duga né látið nægja það sem samþykkt var af nýjum stöðum við afgreiðslu núgildandi fjárlaga, heldur hefur ráðningarnefnd frá 1. janúar til 20. nóvember s.l. samþykkt 114,4 ný stöðugildi sem ekki voru heimiluð sem fastar stöður á þessu ári. Þess er rétt að geta að 53,4 þeirra eru tilkomnar vegna starfsemi í stofnunum fyrir fattaða, en eftir stendur 61 nýtt stöðugildi samþykkt eftir að fjárlög voru afgreidd og ætla þarf fjárveitingar fyrir framvegis.

Og nú er verið að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir enn nýjum 114,2 stöðugildum. En ef dregnar eru frá stöður sem greitt hefur verið fyrir áður en verið gegnt án heimildar eru aðrar nýjar stöður í fjárlagafrv. 95. Fyrir þessum 95 stöðum og 61 sem ég nefndi af afgreiðslu ráðningarnefndar, alls 156 nýjum stöðum, þarf fjárveitingar á næsta ári umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum þessa árs og eru þá engar breytingar á tölu stöðugilda kennara meðtaldar.

Það er því rétt að taka fyrirætlunum um sérstakan sparnað í þessu efni með nokkurri varúð. Sama er að segja um sparnaðaráform sem byggjast á því að draga úr yfirvinnu á sama tíma og einn aðalvandi forstöðumanna ríkisstofnana er að halda starfsfólki vegna þess hve bág launakjörin eru. Mér er ekki grunlaust um að þvert ofan í það sem lýst er yfir og brtt. gerðar um til þess að lækka útgjöld á pappírnum með minnkun yfirvinnu hafi launagreiðslur í ýmsum stofnunum vegna unninnar eða óunninnar yfirvinnu aukist upp á síðkastið. Er það vorkunnarmál miðað við launakjör ríkisstarfsmanna en þeim mun óraunhæfara að flytja brtt. sem ganga í þveröfuga átt einungis sem þátt í þeim tilraunum að ná saman endum á pappírnum við fjárlagaafgreiðsluna.

Stjórnarflokkarnir hafa keppst við að reyna að festa þá skoðun í hug manna að í stjórnartíð þeirra hafi síaukið aðhald verið viðhaft í ríkisrekstri og dregið úr heildarútgjöldum með ári hverju. Til þess að ná þeim árangri hafi m.a. þurft að skerða framlög til nauðsynlegustu framkvæmda svo stórlega sem raun ber vitni.

Ég sýndi fram á það við afgreiðslu fjárlaga í fyrra að heildarútgjöld á fjárlögum í ár hækka verulega að raungildi frá árinu 1984. Og enn gerist sama sagan við þá fjárlagaafgreiðslu sem nú fer fram.

Frá meðalverðlagi ársins 1984 þar til í desember í ár, en fjárlagafrv. er lagt fram á verðgrundvelli desembermánaðar, hefur byggingarvísitala hækkað um 45,1% en framfærsluvísitala um 45,6%. Miðað við meðaltalshækkun þessara vísitalna beggja námu ríkisútgjöld á árinu 1984 á desemberverðlagi 1985 á greiðslugrunni 29 576 millj. kr. en áætluð útgjöld 1986 á sömu framsetningu eru áætluð á sama verðlagi í fjárlagafrv. og með þeim breytingum sem kynntar hafa verið 32 076 millj. kr. Það þýðir raunhækkun útgjalda frá árinu 1984 um 2500 millj. kr. á desemberverðlagi í ár, og bendir auk þess allt til þess að við leiðréttingu á forsendum fjárlagafrv. verði þessi tala talsvert hærri.

Þessi raunhækkun á útgjöldum fjárlagafrv. í samanburði við útgjöldin 1984 nemur sjöfaldri þeirri upphæð sem á næsta ári á að verja samanlagt til dagvistarheimila, grunnskólabygginga, bygginga sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og hafnarframkvæmda sveitarfélaga og flugvallagerðar.

Samtímis því að heildarútgjöld ríkissjóðs hafa hækkað verulega að raungildi hafa framlög til verklegra framkvæmda, jafnt hreinna ríkisframkvæmda og þeirra sem ríkið er aðili að með sveitarfélögum, verið markvisst skorin niður í tíð núverandi ríkisstjórnar og lengst gengið í þeim efnum við afgreiðslu þess fjárlagafrv. sem hér er til umræðu.

Eins og ég áðan greindi er það rangt sem haldið hefur verið fram að niðurskurður framkvæmdaframlaga sé þáttur í heildarniðurskurði ríkisútgjalda. Þau hafa aukist og aukast enn að raungildi á næsta ári þegar samtímis er gengið lengra en nokkru sinni fyrr í niðurskurði framlaga til nauðsynlegustu samfélagslegra framkvæmda.

Þessari þróun verður best lýst með beinni tilvitnun í grg. fjárlagafrv. þar sem segir svo um fjárveitingar til einnar stofnunar ríkisins orðrétt, með leyfi hv. forseta: „Allir útgjaldaliðir nema framkvæmdafé hækka meir en verðlagshækkanir gefa tilefni til.“ Nákvæmlega þetta er einkenni fjárlagaafgreiðslna í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar.

Á sama tíma hafa stjórnarflokkarnir afsalað ríkinu tekjum með sérstökum ívilnunum til fyrirtækja og fjármagnseigenda. Áhrif þessara aðgerða ríkisstjórnarflokkanna urðu lýðum ljós þegar fram kom að útborgun kaupenda á eignarhlut ríkisins í Flugleiðum hvarf í skattfríðindi, hvarf í tekjuskattslækkun til þeirra sömu aðila vegna kaupa á eignum ríkisins.

Niðurskurður þeirra framkvæmda sem skiptu mestu um uppbyggingu nauðsynlegustu þjónustu við alla íbúa hinna einstöku sveitarfélaga hvarvetna á landinu er afsakaður með því að draga verði úr fjárfestingu í landinu til þess að hamla gegn erlendri skuldasöfnun þjóðarinnar. En á sama tíma og þessar framkvæmdir eru skornar niður um allt land er ekkert lát á framkvæmdum í þjónustugreinum í einkarekstrinum hér á mesta þéttbýlissvæðinu. Og þegar ráðamenn í ríkisstjórninni taka að hafa áhyggjur af því að ekki sé nógu tryggur framgangur uppbyggingar 28 þús. m2 verslunarmiðstöðvar í nýja miðbænum í Reykjavík - það er nýtt verslunarhúsnæði sem jafngildir að flatarmáli 280 100 m2 íbúðum og að rúmmáli 500 slíkum íbúðum eru, án þess að það þurfi að samþykkja á Alþingi, lagðar 40 millj. kr: í púkkið úr ríkissjóði sem hlutur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Það er jafnhá upphæð og á næsta ári á að verja úr ríkissjóði til framkvæmda við allar dagvistarstofnanir í landinu.

Þessi afstaða stjórnvalda annars vegar til samfélagslegra framkvæmda og hins vegar til einkabrasksins sýnir hvaða hagsmunum stjórnarflokkarnir þjóna. Ef hagsmuna almennings væri gætt og í raun væri ætlunin að sporna við óráðsíu með lánsfé væru skattar á gróðafyrirtæki og fjármagnseigendur auknir í stað þess að veita þeim skattaívilnanir.

Við slíka ráðstöfun ynnist tvennt í einu: Það drægi úr óþarfa framkvæmdum þessara aðila og slík viðbótarskattheimta mundi um leið geta aukið endurgreiðslur ríkissjóðs á erlendum lánum. Það mundi stuðla að því að rjúfa þann vítahring skuldasöfnunar ríkissjóðs og aukinna vaxtagjalda sem er hafður sem afsökun fyrir þeirri stefnu ríkisstjórnarflokkanna að þurrka nánast út framlög til nauðsynlegustu framkvæmda í þágu almennings. En á sama tíma og framkvæmdafé til sveitarfélaga víðs vegar um landið er nánast að engu gert á næstu fjárlögum, m.a. með tilvísun til erfiðrar skuldastöðu ríkissjóðs, hika stjórnarflokkarnir ekki við að þrefalda erlenda lántöku úr 100 millj. kr. í ár í 300 millj. kr. á næsta ári til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Við þá fjárlagaafgreiðslu sem nú fer fram er svo komið að framlög til framkvæmdaliða eru orðin í slíku lágmarki að það er í raun ekki vinnandi vegur fyrir fjvn. að skipta þeim á einstakar framkvæmdir, enda eru vangreiddar fjárhæðir ríkissjóðs í flestum tilvikum orðnar jafnháar allri fjárveitingu til viðkomandi framkvæmdaþáttar á næsta ári.

Ég hef minnst á að fjárfestingar einkarekstursins á höfuðborgarsvæðinu blómstra sem aldrei fyrr. Stjórnvöld hlaupa til með tugmilljónir króna til þess að tryggja framgang framkvæmdar sem eykur verslunarpláss í Reykjavík um jafngildi alls verslunarrýmis sem fyrir er við Laugaveginn í Reykjavík.

En hver hefur stefna stjórnarflokkanna undir forustu Framsfl. verið gagnvart framkvæmdum sem skipta sveitarfélögin mestu og ríkið er aðili að? Hver hefur þróunin verið í því efni?

Ef borið er saman framkvæmdagildi fjárveitinga til nokkurra veigamestu þátta þessara framkvæmda sveitarfélaga annars vegar í fjárlögum 1983 og hins vegar áætluð framlög í fjárlagafrv. 1986 að teknu tilliti til niðurskurðar sem boðaður hefur verið á framlögum til sjúkrahúsa frá því sem áætlað er í fjárlagafrv. og miðað við verðlag á miðju ári 1986 í báðum tilvikum kemur eftirfarandi í ljós:

Til grunnskólabygginga var árið 1983 varið á fjárlögum 195,4 millj. kr., en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 120 millj. kr. eða skerðing um 38,6%. Fjárveiting þyrfti að hækka um 62,8% til þess að verða jafngild og 1983.

Til dagvistarstofnana var varið á fjárlögum 1983 54,3 millj. kr. en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 40 millj. kr. eða skerðing um 26,3%. Fjárveiting þyrfti að hækka um 35,7% til þess að verða jafngild og 1983.

Til mennta- og fjölbrautaskóla var árið 1983 varið á fjárlögum jafngildi 92,9 millj. kr. en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 47,1 millj. kr. eða skerðing um 49,3%. Fjárveiting þyrfti að hækka um 97,2% til þess að verða jafngild og 1983.

Til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva var árið 1983 varið á fjárlögum jafngildi 302 millj. kr. en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 með þeim breytingum sem gerðar hafa verið 118,1 millj. kr. eða skerðing um 60,9%. Fjárveiting þyrfti að hækka um 155,7% til þess að verða jafngild og 1983.

Til hafnarframkvæmda var varið árið 1983 jafngildi 247,5 millj. kr. en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 108,3 millj. kr. eða skerðing um 56,2%. Fjárveiting þyrfti að hækka um 128,5% til þess að verða jafngild og 1983.

Til flugvallaframkvæmda var árið 1983 varið jafngildi 93,1 millj. kr. en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 61 millj. kr. eða skerðing um 34,5%. Fjárveiting þyrfti að hækka um 52,6% til þess að verða jafngild og 1983.

Samanlagt námu fjárveitingar til þessara framkvæmdaþátta árið 1983 á verðlagi á miðju ári 1986 985,2 millj. kr. en í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 og þeim brtt. sem boðaðar hafa verið 494,5 millj. kr. Það er skerðing um 490,7 millj. kr. eða 49,8%. Fjárveitingar þyrftu að hækka um 99,2% til þess að verða jafngildar og árið 1983.

Það er ekki að undra að vafist hafi nokkuð fyrir meiri hl. fjvn. að skipta þessum leifum af fjárveitingum á einstök verk. Venjan hefur verið sú í nefndinni, þegar um hefur verið að ræða að skipta einhverjum raunverulegum fjárfestingum sem geta kallast því nafni, að undirnefndir fulltrúa allra flokka í nefndinni hafa fjallað um þá skiptingu í einstökum málaflokkum.

Af hálfu meiri hl. kom fram að þessu sinni að með tilliti til þess hvernig málum væri háttað með upphæðir til einstakra fjárfestingarþátta þar sem svo til ekkert væri til skiptanna yrði meiri hl. nefndarinnar að hafa það nánast í eigin höndum að gera tillögur um skiptingar. Þær tillögur voru síðan lagðar nær fullbúnar fyrir nefndina alla án þess að minni hl. hefði nærri komið.

Við í minni hl. deilum ekki á formann eða þá meirihlutamenn aðra fyrir að haga málum með þessum hætti eins og allt er í pottinn búið. Svo til algjör niðurskurður fjárveitinga til framkvæmda sveitarfélaga knýr meiri hl. nefndarinnar til þess að velja þá starfsaðferð sem er þeim að sjálfsögu ekki ljúf en þeir telja óhjákvæmilega. En af sjálfu leiðir að tillögur um skiptingu á einstök verk eru að þessu sinni fluttar af meiri hl. fjvn. en ekki af nefndinni allri eins og jafnan er gert ef allt er með eðlilegum hætti.

Ég er sannfærður um að það er jafneindreginn vilji nefndarmanna, bæði í meiri hluta og minni hluta, að þessi niðurstaða verði undantekning í störfum nefndarinnar, sú undantekning sem sannar þá reglu, sem gilt hefur og mun vonandi gilda eftirleiðis, að nefndin standi öll saman að tillögum um skiptingu framlaga á einstakar framkvæmdir.

Ofan á þær aðgerðir stjórnarflokkanna að skera fjárveitingar til framkvæmda sveitarfélaga niður í nánast ekki neitt bætist stórfelldur niðurskurður á lögbundnum hluta Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af aðflutningsgjöldum og söluskatti. En á árunum 1984, 1985 og skv. fjárlagafrv. fyrir árið 1986 nemur sá niðurskurður í heild á verðlagi í desember 1985 407 millj. kr. en hér er um að ræða eina verðtryggða tekjustofn sveitarfélaganna.

Sá þáttur stjórnarstefnunnar sem felst í stórfelldum niðurskurði framlaga til framkvæmda í sveitarfélögum og ríflega 400 millj. kr. niðurskurður á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þremur árum veldur því að sveitarfélögum reynist æ erfiðara að veita íbúunum nauðsynlega þjónustu. Jafnframt vex misræmið í því hvers þeir njóta í lífskjörum og þjónustu, annars vegar þeir sem búa í fjárhagslega veikum sveitarfélögum og hins vegar þeir sem búa í hinum öflugri.

Og þannig fer um fleiri fjárveitingar sem hafa haft þann tilgang að jafna lífskjör þjóðfélagsþegnanna þegar sú stjórnarstefna ræður sem nú er fylgt.

Í sjónvarpsumræðum fyrir skemmstu ræddu hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. við hóp ungs fólks um efnið: Hvað bíður okkar? Í þeim umræðum var m.a. rætt um jafnrétti til náms, en á gildi þess lagði unga fólkið mikla áherslu en þótti ekki nógu vel að því staðið að tryggja framgang þess. Hæstv. forsrh. viðurkenndi að ekki væri nóg að gert en sagði: „Aðalatriðið er að þoka þessu í rétta átt á hverju ári.“

En hefur stefnan verið sú við fjárlagagerðina? Á fjárlögum er liður sem heitir Jöfnun á námskostnaði. Í grg. með fjárlagafrv. segir um þennan lið með leyfi hæstv. forseta: „Framlög til jöfnunar á námskostnaði eru óbreytt að krónutölu frá gildandi fjárlögum eða 20 millj. kr. Hér er fyrst og fremst um húsnæðis- og fæðisstyrki að ræða.“ Styrkurinn nær að vísu einnig til ferðakostnaðar, að ég hygg. Skyldi þetta þokast í rétta átt á næsta ári með óbreyttu framlagi í 30% verðbólgu?

Ef það er borið fram til afsökunar að fé skorti til að hækka þennan lið a.m.k. í samræmi við verðlagsbreytingar er rétt að huga að öðrum lið til samanburðar, Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hann hækkar um 86,8% og í grg. með frv. segir í allri hógværð, með leyfi hæstv. forseta: „Hækkun framlagsins er nokkuð umfram verðlagsforsendur“. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að breyting á verðlagsforsendum frá verðlagi fjárlaga í ár til desemberverðlags eins og miðað er við í fjárlagafrv. nemur 12-13% en liðurinn hækkar um 86,8%.

Ef þróun fjárveitinga til þessara tveggja liða er borin saman í stjórnartíð hæstv. forsrh., sem vill þoka jafnrétti til náms í rétta átt á hverju ári, og fjárveitingar árið 1983 eru settar 100 hefur verðgildi framlaga til þessara tveggja liða breyst með þessum hætti:

1984: Varnarmálaskrifstofan 168, Jöfnun námskostnaðar 114; 1985: Varnarmálaskrifstofan 188, Jöfnun námskostnaðar 86; Fjárlagafrv. 1986: Varnarmálaskrifstofan 269, Jöfnun námskostnaðar 66.

Yfirskrift þessa þáttar sem hæstv. ráðherrar áttu með unga fólkinu var: Hvað bíður okkar? Það virðist nokkuð ljóst hvað bíður liðarins Jöfnun námskostnaðar ef skilningur hæstv. forsrh. á því hvað það er að þoka jafnréttinu í rétta átt á hverju ári fær að njóta sín með sama hætti framvegis og í stjórnartíð hans til þessa. Á sama tíma og framlag til þess að sinna hernaðarmálefnum í utanríkisráðuneytinu er aukið um þrjár nýjar stöður og um 4,4 millj. kr. að raungildi á næsta ári hækkar framlag til jöfnunar námskostnaðar um núll komma ekki neitt og rýrnar sem verðhækkunum nemur.

En þó að margt sé athyglisvert og fróðlegt þegar skoðuð er meðferð einstakra málefna við afgreiðslu fjárlaga nú og við fyrri fjárlagaafgreiðslur hæstv. ríkisstj. er aðalatriðið að sjálfsögðu hvernig staðið er að fjárlagaafgreiðslunni í heild og hvaða áhrif sú stefna sem þar er mörkuð hefur á efnahagslíf þjóðarinnar.

Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir ári var ljóst við 3. umr. að ætlun stjórnarflokkanna var að afgreiða fjárlög með 743 millj. kr. halla og byggja þar að auki á forsendum sem voru svo hæpnar að hætta var á að hallinn gæti í raun orðið mun meiri. Ég dró þó í efa að sú tekjuspá sem á var byggt stæðist.

Eins og ég hef áður minnst á dugði hinn mikli innflutningur á árinu 1984 til þess að talsverður rekstrarafgangur var á ríkissjóði á því ári. En við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1985 blasti það á hinn bóginn við að þrátt fyrir þann mikla innflutning sem tekjuspáin byggðist á væri afgreiðsla fjárlaga með þeim hætti að sá mikli innflutningur á árinu 1985 dygði ekki til þess að skila tekjuafgangi á ríkissjóði, ekki einu sinni jöfnuði, heldur yrði verulegur halli.

Við sem skipuðum minni hl. fjvn. vöruðum við því að fjárlög yrðu afgreidd með þessum hætti þar sem halli á ríkissjóði var áætlaður 743 millj. kr. og var þó byggt á mjög hæpnum forsendum um tekjur. Við lögðum þá til að afgreiðslu fjárlaga yrði frestað og lýstum okkur reiðubúin til þess að taka þátt í því að endurskoða fjárlagaafgreiðsluna og leita sameiginlegra leiða með meiri hl. fjvn. til þess að finna farsælli lausn á afgreiðslu fjárlaga en að var stefnt.

Eins og ég rakti áður er það komið á daginn sem við vöruðum við. Ljóst er að hallinn á ríkissjóði í ár verður ekki 743 millj. kr., eins og gert var ráð fyrir, heldur 2000-2500 millj. kr. og í Morgunblaðinu í gær er því slegið föstu í 5 dálka fyrirsögn, að nú stefni í 2700 millj. kr. halla á ríkissjóði á þessu ári. Í grein Morgunblaðsins segir auk þess, með leyfi hæstv. forseta: „Og að óbreyttu má ætla að halli ríkissjóðs á næsta ári verði svipaður ef ekki hærri.“

Það fór því miður svo við afgreiðslu fjárlaga í desember á síðasta ári að aðvörunum minni hl. fjvn. var ekki sinnt. Og ekki nóg með það. Enda þótt þróunin hafi verið svo óheillavænleg á þessu ári sem raun ber vitni og svo langtum svartari en gert var ráð fyrir í hinum óraunhæfu fjárlögum hreyfði hæstv. ríkisstj. hvorki hönd né fót til þess að bregðast við vandanum með einhverjum hætti. Allt var látið reka á reiðanum. Árinu er því að ljúka með 2500 eða jafnvel 2700 millj. kr. rekstrarhalla ríkissjóðs með þeim afleiðingum sem það hefur á skuldasöfnun, viðskiptahalla og verðbólguþróun. Í greinargerð fjárlagafrv. er á hinn bóginn talið í endurskoðaðri áætlun um afkomu ríkissjóðs að hallinn í ár verði 1859 millj. kr. og á því byggjast áætlanir í frv. um næsta ár.

Áætlun um útgjöld og tekjur ríkissjóðs á næsta ári er í fjárlagafrv. færð á desemberverðlagið í ár. Forsendur fyrir þeim upphæðum eru byggðar á rangri áætlun um afkomuna í ár. Á fundi fjvn. með forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar s.l. mánudag kom fram að til þess að færa útgjöld fjárlagafrv. fyrir næsta ár á desemberverðlagið í ár þyrfti að leiðrétta tölurnar með því að hækka útgjöldin um 5-6% en tekjur um lægri tölu. Forsendur fjárlagafrv. fyrir afkomu ríkissjóðs á næsta ári eru því rangar.

Ef litið er fram hjá því hversu mikill halli kemur fram við uppfærslu á tekju- og gjaldaupphæðum í fjárlagafrv. yfir á verðlag ársins 1986 á réttari forsendum en byggt er á í fjárlagafrv. og hugað að stöðu ríkissjóðs nú við 2. umræðu er hún þessi:

Ríkisstjórnin hefir boðað ýmsar brtt. við fjárlagafrv. Sumar þeirra flytur meiri hl. fjvn. nú við 2. umr., aðrar ekki fyrr en við 3. umr. Auk þess flytur meiri hl. fjvn. aðrar brtt. svo og nefndin í heild.

Miðað við sömu framsetningu fjárlaga og nú gildir og að teknu tilliti til þeirra brtt. sem ég hef nefnt er áætlaður halli á ríkissjóði á næsta ári nú við 2. umr. 476,5 millj. kr. Við þessa tölu á eftir að bætast aukning útgjalda umfram tekjur við leiðréttingu á forsendum fjárlagafrv. Það er því ljóst að í óefni stefnir um afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Ef ekki er að gert blasir það við að sagan frá í ár endurtaki sig.

Minni hl. fjvn. telur að ekki geti komið til greina að afgreiða fjárlög með þeim hætti sem að virðist stefnt, síst af öllu þegar haft er í huga að slík afgreiðsla kæmi í kjölfar 2000-2500 eða jafnvel 2700 millj. kr. rekstrarhalla ríkissjóðs í ár.

Ljóst er hver óheillaáhrif slíkar ákvarðanir Alþingis hefðu á skuldasöfnun erlendis og fjármagnskostnað ríkissjóðs, á viðskiptahalla og á verðlagsþróunina í landinu.

Minni hl. fjvn. minnir á aðvaranir sem hann flutti við afgreiðslu fjárlaga í fyrra og þróunina í ríkisfjármálum síðan og telur óhjákvæmilegt að fjárlagafrv. verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.

Ljóst er að úr því sem komið er gefst ekki tími til slíkrar endurskoðunar fyrir áramót. Við teljum því að fresta eigi afgreiðslu fjárlaga til þess að slík endurskoðun geti farið fram og erum reiðubúin til að stuðla að samþykkt nauðsynlegra greiðsluheimilda þar til fjárlög fyrir árið 1986 hafa verið samþykkt.

Við flytjum því engar sjálfstæðar breytingartillögur við einstaka þætti frv. við þessa umræðu né heldur munu aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gera það en leggjum fram svohljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár:

„Fyrir liggur að halli á fjárlögum í ár, sem áætlaður var 743 millj. kr. við afgreiðslu þeirra, mun verða 2000-2500 millj. kr. og þar með einnig verulega hærri en gert er ráð fyrir í þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1986.

Þar sem forsendur fyrir áætlunum í fjárlagafrv. um tekjur og gjöld á næsta ári eru ekki í samræmi við raunveruleikann er ljóst að án sérstakra aðgerða verður verulegur halli á ríkissjóði einnig á næsta ári.

Ef stöðva á slíka skuldasöfnun ríkisins og síaukinn fjármagnskostnað er óhjákvæmilegt að taka fjárlagafrv. til rækilegri endurskoðunar en unnt er að gera fyrir n.k. áramót.

Því samþykkir Alþingi að fresta afgreiðslu frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 að sinni og fela fjvn. að taka frv. til gagngerrar endurskoðunar með því markmiði að afgreidd verði hallalaus fjárlög fyrir árið 1986 og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“