13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

1. mál, fjárlög 1986

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þakkir þeirra sem áður hafa talað til starfsmanna fjvn. og hagsýslu sem unnið hafa með nefndinni. Ég vil einnig þakka samnm. mínum í fjvn. fyrir gott samstarf og þá fyrst og fremst formanni nefndarinnar sem stjórnarandstaðan hefur átt gott samstarf við og samstarf sem ég vil þakka.

Formaður fjvn. sagði áðan að þegar nefndin hóf störf hefði nánast verið áhugahópur um fjármál ríkisins. En það eru fleiri áhugahópar um fjármál ríkisins en bara fjvn. Einn slíkur áhugahópur um fjármál ríkisins hélt fund í Stykkishólmi í lok septembermánaðar s.l. Sá áhugahópur er þingflokkur Sjálfstfl. Ég ætla ekki að rifja upp hvað gerðist á þeim fundi. Menn geta lesið það í málgagni þessa áhugahóps um fjármál ríkisins í Morgunblaðinu, en niðurstaðan varð sú að samstarfsflokknum var tilkynnt að þessi áhugahópur um fjármál ríkisins, þingflokkur Sjálfstfl., gæti ekki staðið að ríkisstjórnarsamstarfi sem byggðist á óbreyttu fjárlagafrv.

Í fyrsta lagi var ekki gert ráð fyrir í fjárlagafrv. þeim kerfisbreytingum sem þessi áhugahópur um fjármál ríkisins hafði boðað þegar hann bað um atkvæði kjósenda í síðustu kosningum, og í öðru lagi gerði áhugahópurinn þá athugasemd við frv. að það væri mjög ótraust eins og raunar ríkisfjármálin voru orðin. Niðurstaðan var sú að sá ráðherra sem valist hafði til þess að fara með ríkisfjármálin þegar ríkisstj. var sett á stofn var dreginn út úr sínu embætti og annar settur í staðinn. Út af fyrir sig er það mjög lærdómsríkt eins og mig minnir að formaður Alþfl. hafi bent á í umræðum um ríkisfjármálin fyrir nokkru síðan hver hefur orðið saga þess ágæta alþm. í stöðu fjmrh. Honum hefur nefnilega og þar með hans flokki tekist að eyðileggja þjóðsöguna um það að íslenskir athafnamenn gætu það sem íslenskir stjórnmálamenn gætu ekki. Menn hafa gjarnan haldið því fram að það eina sem þyrfti að gera til þess að ná betri og meiri árangri í stjórn fjármála hins opinbera væri að setja í valdastólana menn sem væru kunnir að framkvæmdum í athafnalífinu, athafnamenn sem kynnu að stýra fyrirtækjum því þeir mundu kunna að stýra þjóðarskútunni. Eftir tveggja ára setu slíks athafnamanns í stóli fjmrh. tók Sjálfstfl. þá ákvörðun, flokkur hans, að draga hann út úr ráðuneytinu vegna þess áð hann næði ekki árangri. Út af fyrir sig er þetta mjög lærdómsrík reynsla og er fyllilega ástæða til þess að benda mönnum á hana, Því verður þó væntanlega ekki haldið fram mikið oftar að það eina sem þurfi að gera til þess að hreinsa til í rekstri ríkisins sé að hleypa athafnamönnum í ráðherrastólinn.

Þessi áhugahópur um fjármál ríkisins tók því það ráð að setja nýjan ráðherra í þennan stól, ráðherra sem áhugahópurinn treysti til þess að gerbreyta um stefnu í ríkisfjármálunum frá því sem fylgt hafði verið í tíð hæstv. ráðherra Alberts Guðmundssonar. Og nú vil ég spyrja þá menn sem tóku þátt í umræddum fundi í Stykkishólmi. Telja þeir að það frv. sem nú er til 2. umr. sé sterkara frv., sé traustara frv. og betra, en það sem þeir fjölluðu um á hinum margfræga Stykkishólmsfundi? Er fjárhagur ríkisins núna traustari við afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni en hann var í septemberlok? Í septemberlok lá fyrir að hallarekstur á ríkissjóði sem hafði, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson tók fram áðan, verið áætlaður 743 millj. kr. í upphafi árs stefndi í yfir 1800 millj. kr. Síðan hefur þessi tala hækkað uns nú er svo komið að Morgunblaðið, málgagn hæstv. fjmrh., lýsir því yfir í sérstakri aukaútgáfu um viðskipta- og atvinnumál að í ár stefni í halla upp á 2700 millj. kr.

Hvað hefur hinn nýi fjmrh. gert til þess að bregðast við því ástandi sem lá fyrir á Stykkishólmsfundinum í lok september og hefur magnast með hverjum deginum síðan? Hann hefur gert nákvæmlega ekki neitt nákvæmlega ekki neitt. Hann hefur engin úrræði lagt fram svo að vitað sé, hvorki á vettvangi fjvn., Alþingis né ríkisstj. um hvernig eigi að bregðast við því að halli í rekstri ríkisins skuli vera um það bil fjórfalt meiri á árinu 1985 en gert var ráð fyrir í upphafi árs. Mig mundi langa til að sjá Morgunblaðið ef Sjálfstfl. hefði verið í stjórnarandstöðu við þessar aðstæður. Mundu þeir sem það blað skrifa telja það bera vott um ábyrgð og góða stjórnsemi að hafast ekkert að við þær aðstæður sem ég var að lýsa? Eina úrræði hæstv. ráðherra og ríkisstj. er þetta sama gamla úrræði, að breyta halla ríkissjóðs í lántöku hjá Seðlabankanum sem er kostuð með erlendu lánsfé. Og eins og hv. þm. Geir Gunnarsson tók fram áðan er ekki einu sinni borið við að reyna að áætla það nú við 2. umræðu fjárlaganna hversu mikið þurfi að bæta ofan á baggann hjá ríkissjóði á næsta ári til þess að standa undir greiðslu vaxta og afborgana af þeim lánum sem þarf að taka vegna þess að fjárlagahallinn hefur orðið svona margfalt meiri en gert var ráð fyrir í september þegar þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að það þarf að fara langt aftur til þess að leita að jafnhörmulegri útkomu ríkissjóðs eins og á árinu 1985. Hvað þarf að fara langt aftur? Jú, það þarf að fara aftur til þeirra ára þegar Sjálfstfl. fór síðast með stjórn ríkisfjármálanna. Það þarf að fara aftur til áranna 1974-1978 þegar sjálfstæðisráðherra sat einnig, eins og nú, í stól fjmrh. Það þarf að fara alla leið þangað aftur til þess að finna dæmi um jafnslæma útkomu í rekstri ríkissjóðs eins og nú og það er vissulega athyglisvert og umhugsunarvert og vert ábendingar til Morgunblaðsins, blaðs allra landsmanna, að verstur skuli hagur ríkisins vera og verst skuli menn standa í stykkinu þegar það er Sjálfstfl. sem fer með yfirstjórn þeirra mála.

Herra forseti. Ég sagði það hér áðan að ekki væri ríkisfjárhagurinn traustari nú, þegar við tökum þetta frv. til 2. umr., eftir að hefur verið skipt um ráðherra í stól fjmrh., heldur en var í september þegar ákvörðunin var tekin af áhugahópnum um fjármál ríkisins í þingflokki Sjálfstfl. að gera slíkt. Ekki er fjárlagafrv. það, sem þm. Sjálfstfl. er nú ætlað að afgreiða, sterkara og ekki verður séð, a.m.k. enn sem komið er, að neinar ráðstafanir séu gerðar til þess að gera það fjárlagafrv., sem nú á að afgreiða, traustara en það fjárlagafrv. sem afgreitt var fyrir einu ári síðan. Sú afgreiðsla, sem hér á að fara fram í dag eða á morgun við atkvæðagreiðslu, er um það að halli á ríkissjóði verði um það bil 500 millj. kr. a.m.k. á næsta ári, halli áætlaður með sama hætti og áætlun um fjárlagafrv. sjálft er reist á. Ef hins vegar er reynt að spá eitthvað í framtíðina eins og Morgunblaðið, blað hæstv. fjmrh., reynir að gera blasir við að sá halli sem menn eru raunverulega að tala um núna er a.m.k. jafnmikill og sá sem menn vita nú að verður á árinu 1985, 2500-2700 millj. kr. Og ég spyr, herra forseti, þá sjálfstæðismenn sem hér eru inni: Finnst ykkur virkilega að þið hafið náð þeim árangri, sem þið eruð að sækjast eftir, þegar þið tókuð þá ákvörðun í september að segja skilið við þá ríkisstj., sem ætlaði að standa að því fjárlagafrv. sem þá var lagt fram, og kröfðust breytinga á því? Teljið þið sjálfstæðismenn að með ákvörðun ykkar á þeim fundi hafið þið haft árangur sem erfiði?

En það er ekki aðeins að ekki verði séð að þetta frv. sé sterkara heldur þvert á móti veikara heldur en það frv. sem rætt var um í september. Það er ekki aðeins það, heldur einnig að þau ummerki, sem voru þó finnanleg í fjárlagafrv. sem rætt var í september um kerfisbreytingar, frá þeim er búið að hlaupa. Alveg laust við hversu traust fjárlagafrv. var sem lagt var fram í september. Í frv. voru gerðar tillögur um þrjú meginatriði sem horfðu til jákvæðra breytinga. Þessi atriði voru í fyrsta lagi sú einföldun og endurskoðun á tollakerfinu sem lagt var til í frv. að gera ætti, í öðru lagi sú breyting að taka 15 stærstu sjúkrahúsin út af daggjaldakerfinu og setja þau beint inn í fjárlög og í þriðja lagi sú till. að afgreiða lánsfjáráætlun samhliða fjárlögum. Þetta eru þrjú stór atriði um kerfisbreytingar sem tillaga var gerð um í því fjárlagafrv. sem lagt var fram hér á Alþingi í byrjun októbermánaðar.

Og hvað hefur gerst síðan? Hafa þessar kerfisbreytingar verið auknar í þá átt sem þeir sjálfstæðismenn tala gjarnan um á hátíðum og tyllidögum? Nei.

Af þessum þremur kerfisbreytingum stendur nú aðeins ein eftir. Hæstv. ríkisstj. hefur horfið frá þeim upphaflegu till. sínum að taka 15 af stærstu sjúkrahúsunum út af daggjaldakerfinu og beint inn á fjárlög. Frá þeirri till. sinni hefur hún hlaupið.

Hún hefur líka sjálf, að eigin frumkvæði, horfið frá þeim áformum sínum að gera bráðnauðsynlegan og brýnan uppskurð á tollakerfinu til einföldunar. Einnig frá þessari kerfisbreytingu hefur ríkisstj. nú hlaupið. Eftir stendur aðeins eitt, sem virkilega er þó spurning um hvort eftir stendur eða ekki, og það eru áformin um að afgreiða lánsfjárlög með fjárlagafrv. Það er því ekki bara að það frv., sem menn eru að fjalla um núna, sé veikara greiðslulega heldur en það frv. sem Sjálfstfl. vildi ekki samþykkja í september. Það er ekki bara það. Við það bætist að frá tveimur tillögum af þremur, sem þó voru gerðar í því frv. um jákvæðar og verulegar breytingar í sambandi við stjórn ríkisfjármálanna, hefur hæstv. ríkisstj. þegar hlaupið þannig að einnig í þeim skilningi er hér um veikara frv. að ræða heldur en það frv. sem hæstv. ráðherra Albert Guðmundsson var settur af fyrir að flytja.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég skil það ekki að formaður Sjálfstfl. skuli láta hafa sig út í það að taka með þessum hætti við stjórn ríkisfjármálanna án þess að geta framfylgt yfirlýstri stefnu sinni og flokks síns betur en þetta fjárlagafrv. ber vitni um.

Herra forseti. Það er ástæðulaust fyrir mig að fjalla mikið meira um frv. sem fyrir liggur. Álit stjórnarandstöðunnar kemur best fram í því að þetta er í fyrsta skipti svo langt aftur sem ég man, og það er nú orðið nokkuð langt því að ég byrjaði að fylgjast með störfum hér á Alþingi sem blaðamaður í kringum 1967-1968, en þetta er í fyrsta skipti svo að ég viti til að stjórnarandstaða tekur þá ákvörðun að flytja ekki brtt. við 2. umr. fjárlaga vegna þess að hún telur að sú afgreiðsla eigi ekki að fara fram eins og til hennar er stofnað. Ég þekki ekkert dæmi annað um að fjárlög séu afgreidd á Alþingi við slíkar aðstæður og með slíkum hætti.

Þá heyrir það einnig til undantekninga að stjórnarandstaða skuli bjóðast til þess að taka með ríkisstj. til við að endurvinna fjárlagafrv. m.a. til þess að skoða breytta tekjuöflun, vegna þess að nýrra tekna þarf við ef ekki á að gerbreyta gerð fjárlaganna, sem ég kem nú samt að síðar, og býðst til þess að afgreiða allar nauðsynlegar greiðsluheimildir fyrir ríkisstj. til þess að hægt sé að vinna þetta frv. Þetta er ekki dæmalaust, eins og hitt sem ég nefndi, en þetta er dæmafátt.

Auðvitað er mér það ljóst, eins og hæstv. fjmrh. og raunar öllum hér inni, að þau fjárlög, sem hér stendur til að afgreiða með þeim hætti sem tillaga er um gerð, munu ekki standa nema kannske rétt fram yfir áramótin. Hæstv. ríkisstj. verður neydd til þess að endurskoða fjárlagagerðina mjög fljótlega eftir áramót og breyta ýmsum stórum og veigamiklum atriðum þar í. Þetta vitum við. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir þessu. Þess vegna finnst mér það bæði skammsýni, og raunverulega rangsýni einnig, af hæstv. ríkisstj. að taka ekki því boði stjórnarandstöðunnar að fá afgreiddar hér nauðsynlegar greiðsluheimildir svo að hægt sé að starfrækja ríkissjóð og ríkisstofnanir eðlilega eftir áramót, og því tilboði stjórnarandstöðunnar jafnframt að hún skuli taka þátt því með hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðum að skoða fjárlagafrv. aftur frá grunni og standa að tillögum með þeim um öflun nýrra tekna til þess að hægt sé að afgreiða fjárlagafrv. sem væri traustara og betra en það frv. sem hér er til umræðu og traustara og betra en það frv. sem Sjálfstfl. hljóp frá í septembermánuði.

Auðvitað getur það ekki gengið þegar svo er komið málum að það má segja að hið opinbera sé raunar í tómagangi. Þetta er að verða eins og vél sem snýst engum til gagns öðrum en sjálfri sér. Ríkisstofnanirnar og þá fyrst og fremst ríkissjóður skila núorðið nánast ekki neinu til þjóðarinnar í formi verklegra framkvæmda. Þær tekjur, sem ríkið hefur, ganga fyrst og fremst í það að halda ríkisbákninu gangandi eins og sjá má þegar menn eru að tala í fullri alvöru um að verja 17 millj. kr. til framkvæmda við allar hafnir í landinu. Auðvitað getur það ekki svo staðið að eina verkefni ríkisins sé að standa undir rekstri sjálfs sín.

Það sem þarf að gera, herra forseti, í sambandi við þá endurskoðun fjárlagafrv., sem þarf fram að fara, er í fyrsta lagi að menn verða að taka tekjuhlið fjárlaganna og stokka þar verulega upp. Þar verða menn m.a. að hreinsa út fjölmarga þá smáskatta, sem í tekjuhliðinni eru, sem sumir hverjir duga varla fyrir innheimtukostnaði. Í öðru lagi verður Alþingi að standa við þá ákvörðun sem það hefur tekið um afnám tekjuskattsins í áföngum en frá þeirri ákvörðun er nú verið að hverfa samkvæmt till. ríkisstj.

Í þriðja lagi eigum við ekki, eins og ríkisstj. gerir till. um, að hverfa frá þeirri uppstokkun og einföldun tollakerfisins, sem fyrirhuguð var af hæstv. fyrrv. fjmrh. Albert Guðmundssyni, heldur láta hana fara fram. Það er a.m.k. vilji míns flokks og standa þá heldur að annarri tekjuöflun með öðrum hætti ef um tekjutap verður að ræða hjá ríkissjóði út af því eins og óhjákvæmilegt er. Og í fjórða lagi höfum við í Alþfl. gert um það tillögu, gert um það ábyrga tillögu, að við aukum tekjur af söluskattsinnheimtunni með því að breyta þeim skatti þannig, bæði innheimtuaðferðum og álagningu hans, að a.m.k. verði hægt að tryggja að hægt verði að hafa eftirlit með söluskattsheimtunni sem ekki er hægt að gera eins og skatturinn er lagður á og innheimtur nú með þeim fjölmörgu undanþágum sem þar eru veittar.

Það er eðlilegt, herra forseti, að söluskattur sé þannig á lagður að það sé hægt að hafa eftirlit með innheimtu hans. Með þeim mörgu holum og götum, sem búið er að skjóta á það kerfi, þegar ákveðinn hluti og stór hluti af söluvörum venjulegra sölubúða er undanþeginn söluskatti, þá getur enginn mannlegur máttur fylgst með því að söluskattur í almennum verslunarrekstri renni þangað sem hann á að renna. Það verður að breyta þessu, það verður að bæta þetta og það verður ekki gert nema með því að fækka undanþágum frá söluskatti og um það höfum við gert tillögur. Að sjálfsögðu verður að koma til móts við barnafjölskyldur og lágtekjufólk vegna áhrifa af slíkri aðgerð m.a. með hækkunum á lífeyrisbótum og e.t.v. með því að taka upp beinar niðurgreiðslur til neytenda eins og við Alþýðuflokksmenn höfum gert tillögu um.

Hvað varðar gjaldahliðina verða menn einnig að gera sér það ljóst í eitt skipti fyrir öll að það gengur ekki lengur að ætla að reyna að leysa ríkisfjármáladæmið á pappírnum með því að áætla í fjárlagafrv. launagreiðslur langt undir því sem ríkisreikningur gefur okkur upplýsingar um að greitt sé hjá ríkinu og stofnunum þess. Og það er líka jafnmikið út í hött að áætla í fjárlagafrv. kostnað við annan rekstur ríkisins og stofnana þess langt undir því sem ríkisreikningur sýnir að er raunhæft. En hvort tveggja hefur verið gert undanfarin ár og er gert enn.

Það er t.d. alveg fráleitt að þær áætlanir í fjárlagafrv. um launaútgjöld stofnana eins og á sviði heilsugæslu og eins og hjá lögreglustjóranum í Reykjavík standist. Þetta eru áætlanir sem eru ekki í neinu samræmi við þann raunveruleika sem ríkisreikningur sýnir og það þýðir auðvitað ekki að afgreiða endalaust ríkisfjármál með þeim hætti að áætla vísvitandi rangt stóra útgjaldaliði eins og launakostnað á sviði heilbrigðiskerfisins og lögreglustjórans í Reykjavík og viðhaldsliði og aðra slíka.

Í öðru lagi verða menn að athuga þann möguleika sem er á sameiningu ýmissa stofnana á vegum ríkisins. T.d. þegar Kennaraskóla Íslands var breytt í háskóla, þá var eðlilegt að sá háskóli væri rekinn með sjálfum Háskóla Íslands þannig að þjóðin hafi hér einn háskóla en ekki tvo. Og það væri eðlilegt að breyta uppsetningu fjárlaga og fyrirkomulagi á rekstri Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í þessa veru.

Í þriðja lagi vil ég taka undir það með formanni fjvn. að menn verða að skoða í fullri alvöru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Um 13 þús. einstaklingar hafa nú framfæri sitt þar og það getur a.m.k. oft verið áhorfsmál fyrir þá, sem þeirrar fyrirgreiðslu njóta, hvort það borgar sig fyrir þá fjárhagslega að hefja störf úti í atvinnulífinu eða halda áfram á vettvangi Lánasjóðsins. Slíkt er ekki eðlilegt og ekki æskilegt auk þess sem það er ekki siðlegt að gera ráð fyrir því að fólk fái lán sem það greiðir ekki aftur. Og það er heldur ekki eðlilegt að gera ráð fyrir því að það sé einhver einn eða tveir hópar í samfélaginu sem ekki taki á sig sömu lífskjaraskerðingu eins og allur almenningur hefur mátt þola.

Í fjórða lagi eigum við nú að nota tækifærið til þess að sameina ýmislegt í ríkisbúskapnum sem aðstæður hingað til hafa komið í veg fyrir að hægt væri að gera. Hér á ég t.d. við að það er ástæða til þess að íhuga það í alvöru að fella niður niðurgreiðslurnar sem eru nú upp á 784 millj. kr. ef ég man rétt. Áhrifin af niðurfellingu þeirra munu aðeins samsvara einu prósentustigi í vísitölu og það hefur verið meirihlutavilji hér á Alþingi að menn eigi ekki að hafa, a.m.k. til neinnar frambúðar eða til langs tíma, greiðslur eins og niðurgreiðslurnar sem koma í veg fyrir eðlilega verðmyndun í landinu og eðlilegt verðhlutfall milli neysluvara. Við eigum að horfa á það í fullri alvöru að nota núna tækifærið, þegar aðstæður eru um margt öðruvísi en þær hafa oft áður verið, til þess að hverfa alveg frá þessum óeðlilegu starfsháttum sem niðurgreiðslur til langframa eru.

Og í fimmta lagi er líka full ástæða til þess að gera nú, eða ráðgera a.m.k., þá breytingu sem ýmsir hafa verið að tala um varðandi rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem eru meira eða minna kostaðar af opinberu fé. Stofnanir eins og Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands eru raunverulega hin gömlu atvinnumálaráðuneyti höfuðatvinnuveganna og á þeim tíma var ósköp eðlilegt að kostnaður við þær væri greiddur úr ríkissjóði. En það er ekki eðlilegt í dag. Það er ekki eðlilegt að þjónustuverkefni, sem unnin eru fyrir atvinnustarfsemina í landinu, séu alfarið greidd eða því sem næst alfarið greidd af ríkinu. Það er eðlilegt að ríkisvaldið styðji slíka rannsóknastarfsemi með fjárframlögum en það er líka jafneðlilegt að átvinnuvegirnir standi sjálfir undir kostnaði af rannsóknum og tilraunum sem gerðar eru að beiðni þeirra og í þeirra þágu. Þessar stofnanir eiga að vera sjálfseignarstofnanir, ekki ríkisstofnanir, hvorki í A-hluta né í B-hluta, sjálfseignarstofnanir sem ráða verkefni sínu og starfssviði sjálfar, þiggja stuðning frá ríkinu en viðkomandi atvinnuvegir eiga sjálfir að greiða kostnaðinn af þeim verkefnum sem unnin eru í þeirra þágu. Það er óeðlilegt að skattborgarar geri slíkt.

Með sama hætti verða menn að sjálfsögðu að taka fyrir bæði 5. gr., þ.e. B-hluta stofnanirnar, og strika þar alveg óhikað út þá rekstrarliði sem eðlilegra er að vista hjá frjálsu atvinnulífi fremur en að gera ráð fyrir þeim beint eða óbeint á vegum ríkissjóðs. Og með sama hætti verða menn að taka fyrir heimildargreinarnar í fjárlögunum sem eru orðnar upp á fleiri, fleiri síður. Það væri gaman fyrir menn að bera saman 6. gr. í fjárlagafrv. eins og hún er núna og 6. gr. í fjárlagafrv. eins og hún var t.d. fyrir 15 árum síðan. Nú er síða upp og síða niður um undanþágur fyrir þennan eða hinn aðilann frá að greiða almenn opinber gjöld sem öðrum er ætlað að greiða. Auðvitað er þetta óeðlilegt. Ef menn á annað borð eru að leggja á skatta sem eru réttlátir þá felst réttlæti í skattheimtunni í því að hún gangi yfir alla. Það er óeðlilegt að gera ráð fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að jafnmikið af undanþágum sé veitt eins og gert er ráð fyrir að veita í 6. gr.

Herra forseti. Þetta voru aðeins nokkrar ábendingar sem ég kom með og ætla nú ekki að hafa þessi orð fleiri. En þessar ábendingar eru einmitt um það efni sem við í stjórnarandstöðunni erum að bjóðast til þess að vinna að með ríkisstj., þ.e. að stokka upp fjárlagagerðina frá grunni, leggja fram okkar tillögur og hvaða breytingar væri hægt að gera, hvaða breytingar þarf að gera og vinna síðan með stjórnarflokkunum við að reyna að ná fram sameiginlegri lausn málsins.

Það er oft sagt að virðing Alþingis hafi beðið hnekki. Það má vel vera að svo sé. Það kynni þá e.t.v. að vera vegna þess að Alþingi tekur ekki nema takmarkaðan þátt í stjórnsýslustörfum og framkvæmdavaldið er í stöðugt auknum mæli farið að seilast inn á verksvið Alþingis. Það er verkefni Alþingis að ganga frá fjárlagagerð. Menn hljóta að vera sammála um að ef það er álit Alþingis að fjárlög séu ekki nógu traust þá sé það Alþingis að leysa það vandamál. Það er líka vandamál stjórnarandstæðinga eins og stjórnarsinna að leysa slíkt mál með sæmilega farsælum hætti. Þess vegna held ég, herra forseti, að ríkisstj. ætti að hugleiða það mjög alvarlega að taka tilboði stjórnarandstöðunnar um að reyna að vinna þetta verk með stjórnarflokkunum, veita þeim greiðsluheimildir sem gera þarf til þess að svigrúm skapist til að vinna það verk og leggja síðan fram ábyrgar tillögur um hvernig eigi að vinna að þeirri endurskoðun sem ég held að allir séu sammála um innst inni að fram þurfi að fara á þeim fjárlögum sem nú er ætlunin að láta afgreiða hér í þinginu.