13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

1. mál, fjárlög 1986

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í athugasemdum við frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 sem er til 2. umr. segir m.a. að það einkennist af áframhaldandi viðleitni ríkisstj. til að draga úr þenslu í þjóðarbúskapnum og sporna þar með gegn viðskiptahalla og verðbólgu, ná jafnvægi í fjármálum ríkisins og hamla gegn vexti opinberra umsvifa. Nú hefur fjvn. unnið að frv. þessu undanfarnar vikur og mánuði á venjubundinn hátt. Hefur sú saga verið rakin af formanni fjvn. og verður ekki endurtekin, aðeins minnst á nokkur atriði.

Það hefur komið fram og er kunnara en frá þurfi að segja að við þessa fjárlagagerð hefur nefndin talið sér rétt og skylt að gæta ýtrustu hófsemi og sparnaðar. Hefur þessi stefna að sjálfsögðu leitt til þess að fjárveitingar eru yfirleitt skornar mjög við nögl. Mörgum beiðnum hefur alveg verið synjað sem átt hefðu skilið að fá betri meðferð og afgreiðslu. Má því ætla að margir verði fyrir vonbrigðum þegar frv. þetta verður að lögum ef samþykkt verður í svipaðri mynd og nú blasir við. Það er raunar deginum ljósara að miðað við núverandi ástand og horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar verður að hægja ferðina og reyna að draga úr ríkisútgjöldum svo sem verða má. Þarf því engum að koma á óvart þó að ýmsar þarfar og þjóðnýtar framkvæmdir verði að bíða um sinn og skattalækkanir frestist lengur en ætlað var.

Þetta er að sönnu enginn gleðiboðskapur. En nú er svo komið að öllum er ljóst að ekki verður lengra haldið áfram á þeirri braut að auka opinberar lántökur og skuldir erlendis ár frá ári. Þvert á móti ber að leggja allt kapp á að lækka skuldir við önnur lönd í áföngum frá ári til árs svo sem frekast er unnt.

En margs þarf búið við og það er dýrt að halda uppi fámennri frjálsri þjóð, sem býr í harðbýlu landi þótt gott sé og gagnauðugt að mörgu leyti. Það er ærið kostnaðarsamt að semja sig að háttum gróinna velferðarríkja og leggja metnað sinn í að standa þeim hvergi að baki í listinni að lifa. Það kostar mikið fé fyrir fámenna þjóð að halda uppi byggð í stóru landi og búa þegnum sínum sambærileg lífsskilyrði, hvar á landinu sem þeir kjósa að starfa og eyða ævidögum sínum. En við höfum valið þann kost að búa í frjálsu landi og byggja landið allt. Þetta hlutverk leggur okkur þungar skyldur á herðar og ríka ábyrgð.

Það er rétt að kapp er best með forsjá. Hvarvetna um land er mikill framfarahugur í mönnum og framkvæmdagleði. Það er því mikið áhyggjuefni allra þeirra alþm. sem vilja vinna að vexti og hagsæld byggðanna um land allt hvað hið svokallaða framkvæmdafé eða fé til opinberra framkvæmda hefur dregist saman á síðustu árum. Hér er um að ræða opinbert fé sem samkvæmt ákvæðum laga á að renna til skóla og íþróttamannvirkja, dagvistarheimila, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða víða um land, enn fremur til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, sjóvarnargarða, framkvæmda á flugvöllum, landþurrkunar og landgræðslu og samgöngubóta. Allt eru þetta þörf og aðkallandi verkefni sem miða að því að bæta og jafna aðstöðu og lífsskilyrði fólksins í landinu og létta því lífsbaráttuna. Oft er hér um að ræða sameiginleg viðfangsefni ríkis og sveitarfélaga þar sem stofnkostnaður hvílir á báðum aðilum í ákveðnum hlutföllum. Einstaklingar, forráðamenn sveitarfélaga og samtök þeirra binda að sjálfsögðu vonir við að fylgt sé ákvæðum laga um fjárframlög og þátttöku í kostnaði við framkvæmdir.

Í stjórnarskránni er hið alkunna ákvæði þess efnis að rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skuli skipa með lögum. Sveitarfélögin eru sérstaklega mikilvægar einingar í þjóðfélagsbyggingunni. Milli þeirra og ríkisvaldsins þarf að ríkja gagnkvæmt traust. Hið opinbera, sem svo er kallað, sem ætlast til þess að sérhver þegn þjóðarinnar fylgi landslögum í einu og öllu verður einnig á sinn hátt að sjá til þess að standa við allar löglegar skuldbindingar við einstaklinga og samtök þeirra, leggja áherslu á að allir landsmenn geti náð rétti sínum og notið hans svo sem framast er unnt.

Á hinn bóginn er alveg ljóst að vanda verður allan undirbúning að dýrum framkvæmdum hvar sem þær eru á landinu þar sem þátttaka ríkisins kemur til greina og gæta fullrar hagsýni. Þar getur oltið á miklum fjárhæðum eftir því hvernig á málum er haldið. Sá hugsunarháttur að lítið geri til þó að reikningar séu háir ef ríkið borgi þyrfti að víkja.

Sú staðreynd að fé til opinberra framkvæmda hefur dregist saman svo mjög hin síðari ár leiðir af sér að ógerlegt má telja að skipta því rétt niður milli manna og málefna. Ég hygg að flestallar fjárveitingar af þessu tagi megi því gagnrýna meira og minna að þessu leyti. Um skiptingu þess fjár er varla við neinn einstakan alþingismann að sakast. Hins vegar má gagnrýna okkur alla fyrir að opinbert framkvæmdafé hefur rýrnað svo mjög og sigið saman í höndum okkar á liðnum árum. Það er ekki vansalaust og raunar ekki hættulaust heldur að hafa allar fiskihafnir landsins í algjöru fjársvelti að heita má annað árið í röð. Svipaða sögu er að segja af uppbyggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva víðast hvar um landið og fé til skólamannvirkja og íþróttaunnenda hefur því miður verið allt of naumt skammtað þar sem brýn og aðkallandi þörf er fyrir hendi.

Um einstök erindi sem nefndinni hafa borist mætti margt ræða svo og tillögur hennar til fjárveitinga á ýmsum sviðum. Eitt skal sérstaklega nefnt. Það eru framlög til vegamála á næsta ári sem talið er að geti numið um 2% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu það ár, en í þeim efnum er vitað að hæstv. samgönguráðherra hefur haldið fast á málum til að hverfa ekki að ráði frá þeirri meginstefnu sem allir þingmenn stóðu saman um að móta fyrir nokkrum árum. En það er alkunna að úrbætur í samgöngumálum á landi okkar eru meðal stærstu hagsmunamála allra landsmanna sameiginlega. Vegabætur eru arðsamar á öllum meginleiðum a.m.k. Það er stórt atriði að geta sýnt fram á arðsemi þó að slíkt mat sé ekki einhlítt í öllum greinum. Við smíði fjárlagafrv. hefur þjóðhagsáætlun fyrir árið 1986 að sjálfsögðu verið lögð til grundvallar og önnur gögn frá spökum mönnum og ráðhollum. Allar spár eru þó háðar óvissum forsendum framtíðar og þeim duttlungum framvindunnar sem enginn fær séð né gert sér grein fyrir að nokkru ráði.

Í ítarlegri framsöguræðu formanns fjvn. komu fram margar athyglisverðar staðreyndir og fróðlegar athugasemdir ásamt grg. um þær fjárveitingar sem nefndin hefur samþykkt. Sérstaka athygli vakti tilvitnun hans í ræðu hv. 5. þm. Reykn. sem hann flutti við sams konar tækifæri fyrir nokkrum árum. Þá var hv. 5. þm. Reykn. formaður fjvn. og hafði framsögu af hálfu nefndarinnar við 2. umr. um fjárlagafrv. þeirrar tíðar. Ég heyrði ekki betur en skoðanir þessara tveggja reyndu formanna færu saman í öllum meginatriðum um þau efni sem vitnað var til. Enda fer því jafnan svo, að svipuð viðfangsefni og sú, ábyrgð sem vandasömu starfi fylgir, þoka skynsömum mönnum saman í skoðunum og viðhorfum öllum. Vandann, hver sem hann er, verður að leysa á einhvern hátt, og þá komast ráðamenn einatt að þeirri niðurstöðu að ekki sé um margar leiðir eða lausnir að ræða, aðeins að reyna að ljúka verkinu af bestu samviskusemi og tiltækri þekkingu og helst af öllu á mannlegan hátt.

Af orðum hinna tveggja hyggnu formanna, sem hér hafa verið nefndir, mátti nema þau sígildu sannindi að ekki dugar að hlaða sífellt nýjum og nýjum útgjaldapinklum á ríkissjóð nema sjá jafnframt fyrir tekjum á móti til að standa undir auknum útgjöldum. Það er ekki unnt að veita sjálfum sér né óðrum allt sem hugurinn girnist nema vera viðbúinn því að greiða andvirði þess svo að segja út í hönd. Óhófleg skuldasöfnun ógnar fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinga og þjóða.

Eina færa leiðin er að auka þjóðarframleiðsluna í einhverri mynd, auka þann sjóð og efla sem komið getur til sameiginlegra skipta í þjóðarbúinu. Þar koma m.a. til álita nýjar og vaxandi búgreinar svo sem fiskeldi og ferðamannaþjónusta svo aðeins tvö dæmi séu nefnd. Og ég vil sérstaklega minna á hvað árleg fjárlagagerð og lánsfjárlög hafa mikil áhrif á allan rekstur þjóðarbúsins. Alls staðar verður að spara og gæta hófs. Samt sem áður má ekki gleyma því, sem mikilvægast er, að haga seglum svo að allir landsmenn hafi næga atvinnu og grunnur atvinnulífsins verði treystur til sjávar og sveita um allt land.

Flestar eða allar menningarþjóðir víðs vegar um heim telja sér rétt og skylt að styðja höfuðatvinnuvegi sína til sjós og lands, suma með gífurlegum fjárhæðum á okkar mælikvarða. Það ber ekki ýkjamikið á slíkum stuðningi í þessu frv. enda erfitt árferði og ágjafir á þjóðarskútuna. Þessu meginatriði má þó alls ekki gleyma þó að lítið sé hægt að reiða fram úr ríkiskassanum fyrr en batnar í fjárhagsári.

Við þá afgreiðslu fjárlaga sem nú stendur fyrir dyrum verðum við að vona að þeir erfiðleikar, sem nú er við að fást í sameiginlegum búskap landsmanna, séu él eitt sem gengur yfir uns birtir á ný.

Till. minni hl. fjvn. þess efnis að afgreiða fjárlagafrv. nú með rökstuddri dagskrá, tel ég fráleita. Eigi að síður þakka ég þeim og öðrum nm. í fjvn. gott samstarf.