13.12.1985
Sameinað þing: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

1. mál, fjárlög 1986

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki mikið sem ég ætla að ræða viðvíkjandi þessu frv. Það eru tvö efnisatriði sem ég ætla að fara ofurlítið ofan í og spyrja helstu aðstandendur frv. um, hv. þm. Pálma Jónsson, hæstv. fjmrh., og gjarnan hefðu viðkomandi hæstv. fagráðherrar mátt vera viðstaddir. Á ég þar alveg sérstaklega við hæstv. núv. menntmrh., Sverri Hermannsson, því ég ætla að spyrja hann að gefnu tilefni út í mjög afgerandi loforð sem hann gaf - ég hygg að það hafi verið á fyrstu sólarhringum ráðherradóms hans í menntmrn. - um það að í fjárlögum þessum, þ.e. á fjárlögum næsta árs, yrði séð fyrir því að háskólakennsla gæti hafist á Akureyri næsta haust, eða nám á háskólastigi. Það hefur væntanlega þýtt það, þegar hæstv. menntmrh. lofaði þessu, að hann ætlaði sér að sjá fyrir fjárveitingum til verksins á þessum fjárlögum. Ég hef lesið alveg samviskusamlega í gegnum fjárveitingar til menntmrn. undir hverjum Háskóli Íslands er skráður, fjárveitingalið 02-201, og einnig farið í skýringar við þennan sama lið aftar í frv. á bls. 217 og 218 og þar er ýmislegt gott sagt um Háskólann og þetta er allt útskýrt hvernig verja á því fé sem hann fær, og hvergi finn ég þennan umrædda lið, hvergi nokkurs staðar, ekki eina einustu krónu, ekki aur. Þess vegna er ég farinn að óttast það að hæstv. menntmrh. verði gerður ósannindamaður, að honum verði ekki gert kleift að standa við þetta eindregna loforð sem hann þarna gaf. Það eru mjög alvarlegir hlutir, herra forseti, ef hæstv. ráðherrar standa uppi ómerkir orða sinna sem þeir gefa í krafti síns embættis, og verður þá annað hvort að gerast: að þeir hætti að gefa slíkar yfirlýsingar og hafi taumhald á tungu sinni eða standi við þær ella. Því það er auðvitað algjörlega óþolandi að ráðherrar fari með þeim flysjungshætti í embætti sínu að þeir gefi slíkar yfirlýsingar og slík loforð og séu svo ekki menn til að standa við þau.

Ég gæti haft um þetta sérstaka mál býsna langa ræðu, herra forseti, en ég sé svo sem ekki ástæðu til þess. Ég rökstuddi það nokkuð ítarlega í ræðu hér á hinu háa Alþingi í fyrra, bæði í fyrirspurnatímum og einnig þegar ég mælti fyrir brtt. við fjárlög s.l. árs, hvers vegna ég teldi tímabært að taka upp þennan fjárveitingalið. Ég held reyndar að ekki þurfi ýkja háa fjárveitingu til að hleypa þessari starfsemi af stokkunum því eðli málsins samkvæmt kæmi hún einungis til á síðari hluta ársins, þ.e. fyrri hluta þess skólavetrar og einhverjar fjárveitingar þyrfti þá til undirbúningsstarfa einnig. Enn fremur liggur það fyrir að Akureyrarbær er tilbúinn að leggja mikið af mörkum, þ.e. leggja starfinu til húsnæði og stendur það tilboð. Það hefur einnig náðst um þetta mál mikil samstaða. Það er kannske það sem helst hefur breyst síðan þetta mál var hér til umfjöllunar síðast að nú hefur allur Norðlendingafjórðungur - og reyndar menn víðar að á landinu - lagt þessu máli lið og lýst yfir við það stuðningi og, eins og ég hef áður rakið, sjálfur hæstv. núv. menntmrh., sem reyndar gaf fyrst slíkar stóryrtar yfirlýsingar sem iðnrh. og var svo vinsamlegur að endurtaka þær á fyrstu dögum ráðherradóms síns í menntmrn.

Hv. þm. Halldór Blöndal er fjarstaddur, eins og oftar. Hann hefur einnig gefið út býsna sterkar yfirlýsingar um þessi mál, að vísu ekki á Alþingi, en ég held ég megi fara með það hér að hann hafi á fjórðungsþingi Norðlendinga s.l. sumar tekið mjög sterkt til orða í þessum efnum og nánast fullyrt það við þinggesti að þessari starfsemi yrði hleypt af stokkunum á næsta ári. Og þegar tveir svona merkir menn, svona gagnmerkir menn, herra forseti, hæstv. menntmrh. og hv. þm. Halldór Blöndal, í sama flokki og hæstv. fjmrh., eru búnir að taka svona til orða eru það nokkur tíðindi ef þeir eru báðir rassskelltir með þeim hætti sem mér sýnist eiga að gerast í þessu frv. til fjárlaga ef samþykkt verður óbreytt hvað þetta varðar.

Ég vil því, herra forseti, beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. - og þó hann sé fjarstaddur vona ég að hann geti þá svarað því við síðustu umræðu fjárlaga - hvers vegna, ef hann ætlar ekki að standa við þessi loforð sín, hann gerir það ekki. Ég krefst skýringa, herra forseti, á þeim ummælum hæstv. menntmrh. að hleypa eigi þessari starfsemi af stað ef síðan á ekki að standa við þau.

Ég vil spyrja þá aðra nánustu aðstandendur frv. sem hér eru staddir hins sama og vonast til að fá á því skýringar á eftir þar sem hv. þm. og formaður fjvn. Pálmi Jónsson er hér í salnum og ég sé hæstv. fjmrh. bregða fyrir svona við og við hér í hliðarsölum.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að ræða, herra forseti, varðar fjárveitingar undir liðnum Utanríkisráðuneyti. Og þá er einnig nokkur harmur að oss kveðinn að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera til staðar og ég sé ástæðu til að spyrja virðulegan forseta hvort það sé ekki góð þingvenja að fagráðherrar séu jafnframt til staðar þegar rædd eru fjárlög vegna þess að það er ekki óeðlilegt að menn vilji beina spurningum til þeirra einnig þegar til umfjöllunar eru fjárveitingar til einstakra fagráðuneyta. Þó ég sé ekki þar með að draga úr því að hæstv. fjmrh. og hv. formaður fjvn. séu fullmektugir að svara til getur einnig verið eðlilegt að menn vilji eiga orðastað við hæstv. fagráðherra.

Því beini ég spurningu til hæstv. utanrrh., og leyfi mér að gera það þó hann sé ekki viðstaddur, í von um að hann sjái þó sóma sinn í að svara henni við síðustu umræðu fjárlaga. Sú spurning varðar tvennt, annars vegar fjárveitingar til svonefndrar varnarmálaskrifstofu og hins vegar fjárframlög Íslendinga til þróunaraðstoðar. Mér finnst, herra forseti, koma fram í þessum tveimur fjárveitingaliðum, þ.e. annars vegar þeirri miklu hækkun fjárveitingar til varnarmálaskrifstofu svonefndrar sem hækkar úr 5961 þús., sem var á fjárlögum ársins 1985, í 11 135 þús. Þessi hækkun er langt umfram verðlagsforsendur frv. og miklu meiri en líklega flest önnur starfsemi af þessu tagi fær í frv., og þess vegna hljóta menn að spyrja sig: Hvað er það sem er svo brýnt og svo aðkallandi í þessari starfsemi að hún er dregin svona skýrt út úr með þessum hætti? Er hægt að færa fyrir því einhver augljós rök að það sé algjörlega óhjákvæmilegt fyrir íslensku þjóðina að hækka þetta framlag svona mikið? Er það þjóðarheill sem er þar í húfi, herra forseti? Vegna þess að hvar sem borið er niður í þetta frv. annars staðar er svo naumt skammtað og margri þjóðþrifastarfsemi skorinn svo þröngur stakkur að við það verður naumast unað.

Ég ætla að fletta einni blaðsíðu í frv., eða skýringum við einstaka fjárveitingaliði, og fara af blaðsíðu 233 yfir á blaðsíðu 234 og þar er liðurinn 390, Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Hvað gefur þar að líta, herra forseti? Þar er um miðja síðuna tekið saman í einni töflu það sem við Íslendingar ætlum að verja á næsta ári til þróunaraðstoðar samtals. Þetta er blaðsíða 234 ef menn eru ekki búnir að finna það. Þar hækka framlög úr 77 420 þús. kr. á s.l. ári í 91 millj. kr. Og þetta er rétt nálægt verðlagshækkun frv. að öðru leyti. Þar er t.d. liður sem heitir Sérstök -eða hét á síðustu fjárlögum - matvælaaðstoð. Hún heitir núna Matvæla- og neyðaraðstoð skv. nánari ákvörðun ríkisstj. Ég held ég fari rétt með það að einmitt við þennan lið eru brtt. frá meiri hl. fjvn. ef ég man rétt. Í hvaða átt eru þær brtt.? Þær eru til lækkunar. Liðurinn Matvæla- og neyðaraðstoð skv. nánari ákvörðun ríkisstj. er lækkaður. Sennilega er þessi lækkun, milljón minna, eða hvað það nú var, það sem átti að veita til bágstaddra í Kólumbíu. Ég gæti vel ímyndað mér að fréttatilkynning ríkisstj. hefði verið notuð til að lækka liðinn en ekki hækka hann þegar hún sló sér á brjóst, hæstv. ríkisstj., og ætlaði af miskunnsemi sinni og mannúð að veita örfáum krónum til þeirra tugþúsunda ef ekki hundraða þúsunda sem búa nú við sárustu neyð og örbirgð vegna náttúruhamfaranna í Kólumbíu.

Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, að siðgæðið sem felst í því að fara svona með þessa tvo fjárveitingaliði sem er þunn blaðsíða skilur að í fjárlögunum er algjörlega ofvaxið mínum skilningi. Það er algjörlega ofvaxið mínum skilningi að okkur á Alþingi Íslendinga skuli vera boðið upp á það, á þessu herrans ári, að eiga að hækka langt umfram verðlag framlög til hermála, til þeirra einu hermála sem við Íslendingar höfum útgjöld af, en lækka framlög til þróunaraðstoðar og neyðaraðstoðar við bágstadda í heiminum. Og er þá ekki allt upp talið, herra forseti, því málið er verra en þetta. Virðingu Alþingis er meira misboðið en þetta, herra forseti, vegna þess að það eru ekki nema nokkrir mánuðir liðnir síðan Alþingi Íslendinga samþykkti bindandi þál. samróma, einróma - hver einasti þm. í þingsalnum rétti upp hendina - um að auka framlög Íslands til þróunaraðstoðar í jöfnum áföngum á næstu sjö árum, á næstu sjö árum. Ég ætla að lesa, herra forseti, þessa þál. sem var 507. mál á þskj. 947 á síðasta löggjafarþingi. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjunum verði 0,7% af þjóðarframleiðslu. og endurtek, herra forseti: „með reglubundinni aukningu framlaga“, og það er ekki hægt að lesa út úr orðunum reglubundin aukning annað en það að hún sé með einhverjum jöfnum áföngum allt tímabilið, annað hvort jöfn upphæð eða jafn hundraðshluti sem bætist við á hverju ári, því annars er hún ekki reglubundin, svo einfalt er það.

Og hvað er meiri hl. hv. fjvn. að bjóða okkur upp á hér með þessu frv. til fjárlaga? Að brjóta þessa stefnu, að vanvirða þessa ákvörðun Alþingis sem er ekki einu sinni ársgömul og það þegar ástand heimsmálanna er eins og það er, þegar fréttir fjölmiðlanna undanfarnar vikur hafa verið eins og raun ber vitni um hungursneyðir, um náttúruhamfarir o.s.frv., o.s.frv., og einni blaðsíðu framar er hækkun til hermála.

Og þá ætla ég að fara að annarri þál. sem einnig var samþykkt einróma, einróma hér á hv. Alþingi. Og hvernig var hún? Það var þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Og hvað stendur þar, herra forseti? Þar stendur í 2. málsgr.: „Enn fremur telur Alþingi mikilvægt að verulegur hluti þess gífurlega fjármagns, sem nú rennur til herbúnaðar, verði veittur til þess að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja árlega úr hungri og sjúkdómum.“ Hvernig samræmast þessar áherslur hæstv. ríkisstj., meiri hl. fjvn., þessum tveimur þál.? Þær gera það ekki. Þær eru vanvirða við báðar þessar ályktanir. Þær ganga gegn þeim áður en þær eru orðnar ársgamlar.

Ég skal svara hv. 2. þm. Reykv. hvers vegna ég flyt ekki brtt. nú við þessa umræðu. Það er vegna þess að ég styð þá afstöðu minni hl. fjvn. að gera það ekki við þessa umræðu. Við teljum ýmislegt þannig í pottinn búið að það sé ekki rétt, og að sjálfsögðu styð ég það eins og aðrir. En ég, í staðinn fyrir að flytja brtt., skora á þá hv. þm., sem þó eru eftir í þingsalnum og sjá sóma sinn til þess og mættu vera fleiri, að hugsa málið fram að síðustu umræðu fjárlaga, að hugsa málið: Er það samboðið virðingu Alþingis að brjóta þá stefnu sem það hefur einróma markað nokkrum mánuðum áður með þessum hætti, áður en þær ákvarðanir eru einu sinni orðnar ársgamlar, og gera í raun gott betur? Að ganga þvert gegn þeim með því að hækka eins og ég hef rakið þann lið einan sem teljast má framlög til hermála eða málaflokka tengdum hernaði í íslensku fjárlögunum.

Ég held, herra forseti, að sú hækkun sé gersamlega óþörf og ástæðulaus, gersamlega. Mér er ekki kunnugt um að þessir drengir í varnarmálaskrifstofunni séu svo ofhlaðnir störfum að þeir þurfi tvo eða þrjá ritara í viðbót, eða hvað það nú er. Ég hef ekki betur séð en þeir hafi nógan tíma til að sitja í hliðarsölum Alþingis í rólegheitum lon og don t.d. og fylgjast með umræðum, og er ég ekkert að lasta það. Það getur verið hluti af þeirra starfi. En ég hef ekki séð að þeir hefðu það svo erilsamt öðrum mönnum fremur, né kem ég auga á þau aðkallandi og brýnu verkefni sem þar séu á bænum að það réttlæti að þeir séu dregnir út úr, nánast einir, með þessum hætti og hlaðið undir þá né sé ég heldur ástæðu til þess, herra forseti, að við Íslendingar sem engan höfum herinn séum að kosta sérstakan mann út í Brussel til að sinna þeim málum. Ég sé satt best að segja enga ástæðu til þess fyrir nú utan það að það er auðvitað hrein ögrun, það er hrein ögrun í ljósi þeirra deildu meininga sem eru um utanríkismál, herra forseti, að ganga fram með þessum hætti.

Ráðdeild og aðhald og sparnaður eiga að vera einkunnarorð þessa frv. Það er nú meira aðhaldið og það er nú meiri ráðdeildarsemin að bæta við fulltrúum og riturum og hvað það nú er í þessari varnarmálaskrifstofu og einhverjum sérstökum hernaðarspekingi, snarvitlausum manni sem ráðinn var þar vegna þess að ekki var hægt að hafa hann í störfum annars staðar, að vera að ráða hann þarna inn sem einhvern sérstakan hermálaspeking. Ég verð að segja það að virðingu minni er a.m.k. gróflega misboðið og það kemur mér á óvart ef engum öðrum hv. þm. þykir þetta svolítið brogað siðgæði að standa svona að þessum hlutum. Og ég hefði gaman af því að spyrja hv. varaformann fjvn. af því að hann situr hér, góðkunningi minn, í þingsalnum hvort hann sé alveg sáttur við þessa áherslu sem þarna birtist.

Herra forseti. Það er e.t.v. ekki ástæða til að hafa þennan lestur lengri yfir þessum fáu sálum sem hér eru enn þá, en ég hefði vel haft skap í mér til þess að ræða þessi mál nokkuð ítarlega, m.a. við hæstv. utanrrh., og m.a. við aðra þá þm. sem messa í kirkjum og eru með munninn fullan af bágindunum í heiminum og ranglætinu og óréttinum og sýna svo vilja sinn í verki með þessum hætti. Og sómamaðurinn Pálmi Jónsson frá Akri, hv. formaður fjvn., lætur bjóða sér þetta. Er virðingu engra misboðið í þessum efnum, ég verða að segja alveg eins og er, að flytja um það sérstaka brtt. að lækka liðinn Matvælaaðstoð og neyðaraðstoð skv. nánari ákvörðun ríkisstj.?

Síðasta spurning mín í þessari umræðu er til hæstv. fjmrh. og hv. formanns fjvn.: Hvar fann hæstv. ríkisstj. það batnandi ástand í heiminum, hvar voru þau börn hætt að svelta, hvar voru þeir sjúkdómar læknaðir sem réttlættu það að taka þessa einu milljón í burtu? Nefnið mér dæmin.