14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. þetta um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. er ein hliðin á máli Hafskips hf., en það félag var tekið sem kunnugt er til gjaldþrotaskipta 6. desember s.l. Skiptaráðandinn í Reykjavík fer nú með forræði þrotabús félagsins og er hlutverk hans m.a. að rannsaka hvort einhver lögbrot tengist gjaldþroti fyrirtækisins og byggt er á gjaldþrotalögum.

Mál þetta hefur aðra hlið en þá sem snýr að gjaldþroti Hafskips hf. og hugsanlega refsiverðu athæfi í tengslum við það. Það er ljóst að Útvegsbanki Íslands, sem Hafskip hf. hafði sín bankaviðskipti við, mun tapa mjög verulegum fjárhæðum vegna gjaldþrots félagsins. Með hliðsjón af því taldi ríkisstj. þörf á því að auk þeirrar rannsóknar sem beinist að hugsanlega refsiverðri háttsemi í tengslum við gjaldþrotið fari fram sérstök könnun sem lúti að viðskiptalegum þáttum málsins. Af þeim sökum hefur þetta frv. verið lagt fram.

Í því er kveðið á um að sett verði á laggirnar þriggja manna nefnd, sem Hæstiréttur tilnefni, og skal hún hafa það hlutverk að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. á undanförnum árum. Ekki þótti fært að binda könnunina við ákveðið árabil, enda liggur ekki fyrir á þessari stundu hvenær verulega tók að halla undan fæti í rekstri félagsins né heldur með hvaða hætti og á hvaða tíma til varð sú skuldaaukning við bankann sem nú hefur leitt til mikils fyrirsjáanlegs tjóns hans við gjaldþrot félagsins.

Við könnun sína skal nefndin m.a. athuga hvort lánafyrirgreiðsla bankans til fyrirtækisins hafi verið í eðlilegu samræmi við umfang starfa fyrirtækisins, eiginfjárstöðu þess og tryggingar fyrir skuldum. Könnun nefndarinnar skal þó ekki aðeins bundin við óeðlilega viðskiptahætti heldur skal hún enn fremur beinast að öðrum viðskiptalegum þáttum málsins sem henni þykja þurfa athugunar við, þó ekki þeim atriðum sem unnin eru af opinberum rannsóknaraðilum lögum samkvæmt.

Þykir mikilvægt að könnun nefndarinnar verði komið fyrir með þeim hætti að ekki valdi töfum eða röskun á rannsókn skiptaráðenda eða annarra opinberra rannsóknaraðila.

Í 3. gr. þessa frv. segir m.a. að nefndinni sé heimilt í samráði við skiptaráðanda að krefjast munnlegra og skriflegra skýrslna af opinberum aðilum, m.a. starfsmönnum Útvegsbanka Íslands. Þá er nefndinni veittur aðgangur að gögnum bankans svo og gögnum Hafskips hf. eftir því sem skiptaráðanda þykir fært vegna annarra rannsóknarhagsmuna. Í sömu grein segir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skuli veita nefndinni aðstoð við öflun upplýsinga eftir því sem þörf er á.

Gert er ráð fyrir að nefndin hraði störfum og skili skýrslu til viðskrh. Síðan yrði metið hvernig bregðast ætti við þeim upplýsingum sem fram kæmu í nefndarskýrslunni, m.a. hugsanlegum áfangaskýrslum með tilliti til hugsanlegra breytinga á löggjöf og starfsháttum banka við viðskiptavini sína.

Þótt ekki sé gert ráð fyrir að nefndin starfi beinlínis fyrir opnum tjöldum er gert ráð fyrir að allt sem máli skiptir og eðli málsins samkvæmt þarf ekki að fara leynt verði gert opinbert þegar þar að kemur þannig að sem flestir geti haft áhrif á hvaða ráðstafanir þurfi hugsanlega að gera til úrbóta.

Þess er óskað frá minni hálfu að þetta frv. fái skjóta meðferð og þannig að könnun á viðskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. geti hafist sem fyrst.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.