14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Þegar umræður hófust um þetta mál í kjölfar þess að stjórn Hafskips ákvað að gefa fyrirtækið upp til gjaldþrotaskipta voru strax nokkuð skiptar skoðanir um hvernig rannsókn málsins skyldi hagað. Í ljós kom nokkur tregða af hálfu ríkisstj. að mál þetta væri tekið sérstökum tökum. Ég hygg að margir muni minnast þess að einmitt sami maður og mælti fyrir þessu frv., hæstv. viðskrh., taldi fráleitt með öllu að sérstakri nefnd væri falið að rannsaka þetta mál, heldur bæri skiptaráðanda að taka það til meðferðar og rannsaka alla þætti þess. Þessa yfirlýsingu gaf hæstv. ráðh. aftur og aftur í fjölmiðlum og þarf ekki að rifja það frekar upp.

Sama tregða á almennri rannsókn málsins kom fram hjá hæstv. fjmrh. sem tók undir með hæstv. viðskrh., taldi enga þörf á því að annar aðili rannsakaði þetta mál en skiptaráðandi, en slíkur var þrýstingurinn hjá almenningsálitinu og í umræðunni um þetta mál í kjölfarið að forustumenn Sjálfstfl. skiptu um skoðun og er það þakkarvert. Þess vegna er þetta frv. komið fram. Það er sem sagt ágreiningslaust að mál þetta beri að rannsaka. Það eru allir flokkar því samþykkir að málið verði tekið til sérstakrar rannsóknar, en það er uppi töluverður ágreiningur um hvernig þessari rannsókn skuli hagað.

Í fyrsta lagi er spurningin sú hverjir eigi að rannsaka málið og þá um leið hverjir eigi að skipa rannsóknarnefndina. Hér er gerð tillaga um að Hæstiréttur velji þrjá menn til rannsóknar á þessu máli, en eins og kunnugt er hafa tveir þingflokkar, reyndar fleiri en það, líklega fjórir þingflokkar, ásamt nokkrum einstökum þm. gert það að tillögu sinni að málið verði rannsakað af sérstakri rannsóknarnefnd sem kosin verði af Alþingi.

Í öðru lagi er sannarlega ágreiningur um hvað eigi að rannsaka og hversu víðtæk rannsóknin skuli vera.

Í þriðja lagi er ágreiningur um hverjir eigi að hafa rétt til að fylgjast með þessu máli, hvort rannsóknin verði lokuð eða hvort hún fari fram með þeim hætti að alþm. og almenningur allur hafi einhverja aðstöðu til að vita hvað er að gerast í þessari rannsókn og geti því fylgst jöfnum höndum með því hvort rannsóknin fer fram með eðlilegum hætti.

Hvað snertir fyrsta atriði málsins, þ.e. hverjir eigi að rannsaka málið, hverjir eigi að skipa rannsóknarnefndina, er sannarlega rétt að minna á að það er fólkið í landinu sem verður látið borga brúsann á endanum og Alþingi verður væntanlega að veita allhárri fjárveitingu til þess ríkisaðila sem verður þarna fyrir þyngstum skell. Alþingi á líka að ákveða framhald málsins, þ.e. með hvaða hætti Útvegsbankanum verður bjargað úr þessari klípu. Alþingi þarf því að vita allan sannleikann í þessu máli. Alþingi þarf að vita hver var hlutur fyrrv. viðskrh. í þessu máli. Alþingi þarf að vita hver var hlutur Seðlabanka Íslands, bankaeftirlitsins og bankaráðs Útvegsbankans.

Í þessum tilvikum er út af fyrir sig ekki verið að ræða fyrst og fremst um hvort þessir aðilar hafi framið lögbrot. Það er fyrst og fremst verið að spyrja um hvernig þær ákvarðanir urðu til sem teknar voru og hver ber ábyrgð á þeim, hvernig það gat gerst sem gerst hefur og hvernig má koma í veg fyrir að þessir hlutir endurtaki sig.

Allt eru þetta spurningar, viðfangsefni og umræðuefni sem svo sannarlega varða Alþingi og því er það fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi eigi sjálft og þar með allir flokkar á Alþingi aðild að þessari rannsóknarnefnd.

Ég vil satt að segja lýsa furðu minni á því að í jafnviðkvæmu máli og þessu skuli ríkisstj. ekki hafa dottið í hug að leita samstarfs við aðra flokka á Alþingi en þá sem sitja í stjórn. Ég hygg að sú leið hefði verið valin af flestum öðrum ríkisstjórnum sem hafa starfað í landinu áður. Menn hefðu viðurkennt að málið væri þess eðlis. Þar sem um er að ræða stærsta gjaldþrot í Íslandssögunni og um það að ræða að ríkisbanki er á heljarþröm hefðu menn talið það sjálfsögð og eðlileg vinnubrögð að leita til stjórnarandstöðunnar um það hvernig haldið yrði á þessu máli. En það var ekki gert. Það er ég viss um að er einsdæmi því að þau vinnubrögð geta ekki flokkast undir neitt annað en hrokagikkshátt, að vilja taka ákvörðun einir og án samráðs við nokkra þá sem skipa stjórnarandstöðuna.

Auðvitað er alveg ljóst að í þessu máli þarf að rannsaka ýmislegt fleira en frv. gerir ráð fyrir. Það þarf svo sannarlega að rannsaka fleira en viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips, eins og frv. gerir ráð fyrir. Í till. okkar Alþýðubandalagsmanna, sem lögð hefur verið fram hér í hv. Ed. eins og í hv. Nd. og væntanlega verður tekin til umræðu strax að lokinni afgreiðslu þessa máls, er gerð grein fyrir því hvað þarf að ræða og rannsaka í þessu máli til viðbótar við viðskipti Hafskips og Útvegsbanka Íslands. Það þarf fyrst og fremst að rannsaka öll viðskipti Hafskips við innlenda og erlenda aðila sem gætu verið þess eðlis að fjármunir hefðu verið fluttir út úr fyrirtækinu á liðnum árum til annarra fyrirtækja í eigu stjórnenda Hafskips og það þarf að kanna staðhæfingar, sem fram hafa komið í blöðum frá þeim sem vel þekkja til, um það að blekkingum og fölsunum hafi verið beitt í bókhaldi Hafskips og að þessar blekkingar tengist öðrum sjálfstæðum fyrirtækjum utan reikningshalds Hafskips.

Það þarf líka sérstaklega að kanna öll afskipti ráðherra, alþm. og annarra forustumanna í stjórnmálum af þessu máli. Í till. okkar er reyndar gert ráð fyrir því að í leiðinni verði skuldastaða helstu stórfyrirtækja, sem hafa fengið meiri háttar lán hjá ríkisbönkunum þremur, tekin til sérstakrar athugunar. Ég vek á því athygli að í till. okkar Alþýðubandalagsmanna er bent á miklu fleiri rannsóknarviðfangsefni en þau sem felast í stjfrv.

Í sambandi við þá spurningu hverjir eigi að skipa rannsóknarnefndina er rétt að benda á að málið í heild kann að koma til meðferðar Hæstaréttar á síðara stigi. Því er á margan hátt mjög óeðlilegt, að ekki sé nú meira sagt, að Hæstiréttur gerist óbeinn aðili þessarar rannsóknar með því að skipa rannsóknarnefndina.

En í sambandi við rannsóknarnefndina er meginatriði að örugglega sé spurt þeirra spurninga sem spyrja þarf og ekkert dregið undan. Það er því sérstaklega brýn þörf á því að þeir sem skipa rannsóknarnefndina komi úr ýmsum áttum, úr ýmsum pólitískum hópum þjóðfélagsins þannig að málið verði örugglega skoðað frá öllum hliðum og ekkert undan dregið.

Ég er ekki að draga í efa óhlutdrægni Hæstaréttar, en ég bendi hins vegar á að honum getur mistekist í vali þessara þriggja manna. Hann getur valið þá út frá of einhæfu sjónarmiði. Það er áreiðanlega miklu meiri trygging fyrir því að rannsóknarnefndin verði skipuð mönnum sem spyrja allra þeirra spurninga sem spyrja þarf ef Alþingi kýs þessa rannsóknarnefnd.

Að lokum er rétt að benda á það atriði að þjóðin öll og alþm. eigi þess kost að fylgjast með því sem gerist í þessari rannsókn þannig að tryggt sé að engir rannsóknarþættir verði vanræktir. Ég hygg að málið sé löngu orðið þess eðlis að þörf sé á slíku almennu eftirliti almennings. Við skulum ekkert draga úr gildi þess að almenningur fylgist vel með því sem er að gerast í stjórnmálum. Við vitum að mál eru rædd á víðtækari grundvelli ef fjölmiðlar hafa einhvern kost á því að vita hvað er að gerast í rannsókn af þessu tagi. Og það er rétt, sem bent hefur verið á í þessari umræðu, að í mörgum löndum tíðkast rannsóknir þar sem einstakir þættir rannsóknanna fara fram í heyranda hljóði.

Þegar sagt er í tillögu að fundir eða störf ákveðinnar stofnunar skuli fara fram í heyranda hljóði þarf það ekki endilega að þýða að aldrei megi koma saman í nefndinni og ræða málin eða yfirheyra menn án þess að fjölmiðlar eða almenningur eigi aðgang að fundunum. Það er t.d. sagt í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að fundir Alþingis skuli haldnir í heyranda hljóði. Eftir sem áður er að sjálfsögðu heimilt á Alþingi að halda lokaða fundi þegar sérstaklega stendur á. Hér er því meira spurning um almenna reglu, þ.e. hvort rannsóknin fer að meginstofni til fram þannig að fjölmiðlar geti fylgst með henni og síðan sé í undantekningartilfellum hægt að loka fundum nefndarinnar við yfirheyrslur þegar sérstaklega stendur á. Þetta er nákvæmlega eins og í réttarhaldi þar sem fjölmiðlar geta vissulega verið og hlýtt á hvað er að gerast t.d. í borgardómi eða hvað gerist í yfirheyrslu yfir sakamanni fyrir dómi. En það er líka hægt að loka þeim réttarhöldum.

Ég tel sem sagt að þarna sé spurningin hvort það sé aðalregla að yfirheyrslurnar og rannsóknin séu opin og í undantekningartilvikum þá lokað fyrir hana eða hvort gengið sé út frá því, eins og virðist gengið út frá í frv., að þetta sé allt lokað og enginn geti fylgst með því hvað þarna sé að gerast. Á þessu er reginmunur.

Virðulegi forseti. Ég hafði látið uppi að ég mundi ekki ræða lengi um frv. við 1. umr. ef við Alþýðubandalagsmenn ættum þess kost að fá að mæla fyrir till. sem við flytjum á þessum fundi þannig að hún mætti einnig komast til nefndar og sé því ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vænti þess fastlega að bæði þessi mál og efni þeirra verði rannsökuð og rædd í nefndinni sem fær málið til meðferðar.

Ég vil skjóta því að í framhjáhlaupi að ég hefði fljótt á litið haldið að mál af þessu tagi ætti að fara til allshn. og er dálítið undrandi á því að gerð sé tillaga um fjh.- og viðskn., en kannske má velta því nánar fyrir sér og ekki ætla ég að gera það að neinu stórmáli. En málið er þess eðlis sýnist mér að það ætti miklu frekar heima í allshn. þar sem öll mál sem eru réttarlegs eðlis eða eru dómsmál í eðli sínu eru venjulega til umfjöllunar.

Ég legg áherslu á það að lokum að þetta er mál sem svo sannarlega varðar Alþingi. Ég legg áherslu á að Alþingi eigi aðild að þessari rannsókn og ég legg áherslu á að rannsóknin verði ekki lokuð. Ég vænti þess fastlega að hæstv. ríkisstj. hverfi frá þeirri stefnu sinni að hafa ekkert samráð við stjórnarandstöðuna um þetta mál, heldur verði samkomulag í nefndinni um nauðsynlegar breytingar á þessu frv.