14.12.1985
Efri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

179. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka viðskipti Hafskips

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það er nú þegar kominn hálfur klukkutími fram yfir þann tíma sem samkomulag hefur orðið um að þessi fundur deildarinnar stæði og ég þakka bæði forseta og deildarmönnum fyrir að þetta mál skuli vera tekið á dagskrá. Ég mun ekki eyða löngum tíma í umræðu um þetta, aðeins mæla fyrir till., þannig að reynt verði að standa við samkomulag um tíma eins og kostur er. Ég hefði reyndar haft áhuga fyrir að spjalla um þetta mál á breiðari grundvelli út frá þessari till., en ég mun ekki gera það fyrst svo er komið tíma sem raun ber vitni.

Flm. till. þessarar eru auk mín hv. þm. Ragnar Arnalds og Helgi Seljan. Till. er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

"Till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka viðskipti Hafskips og Útvegsbanka Íslands, öll viðskipti Hafskips við innlend og erlend fyrirtæki og viðskipti annarra skuldugra stórfyrirtækja við ríkisbankana þrjá.

Efri deild Alþingis ályktar að kjósa sjö manna rannsóknarnefnd skv. ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Verkefni rannsóknarnefndarinnar séu:

1. Að rannsaka öll viðskipti Hafskips hf. við Útvegsbanka Íslands á s.l. 10 árum, þar á meðal dagsetningar, upphæðir og veð lána og umfjöllun bankans um þau, eftirlit með rekstri og bókhaldi fyrirtækisins og sannleiksgildi þeirra skýrslna sem Hafskip hf. lét Útvegsbankanum í té.

2. Að rannsaka öll viðskipti Hafskips hf. við innlend og erlend fyrirtæki í því skyni m.a. að sannreyna upplýsingar um að fjármunir hafi verið fluttir út úr fyrirtækinu og til annarra fyrirtækja í eigu stjórnenda Hafskips, kanna staðhæfingar um að blekkingum og fölsunum hafi verið beitt í bókhaldi Hafskips og kanna einnig öll önnur atriði sem snerta viðskipti og reikningshald Hafskips.

3. Að rannsaka öll afskipti ráðherra, alþingismanna og annarra forustumanna í stjórnmálum, svo sem fyrrum starfsmanna fulltrúaráða og formanna flokksfélaga og kjördæmissambanda, af málefnum Hafskips á liðnum árum í því skyni að leiða í ljós hvort sannar séu ásakanir um að fyrirtækið hafi á beinan eða óbeinan hátt notið velvildar og fyrirgreiðslu pólitískra áhrifaaðila.

4. Að rannsaka skuldastöðu helstu stórfyrirtækja sem meiri háttar lán hafa fengið frá ríkisbönkunum þremur og skal í þeirri athugun tekið mið af: a. sérstakri aukningu lána til einstakra fyrirtækja á s.l. tveimur árum og veðum þeirra lána; b. skuldastöðu þeirra 10 fyrirtækja sem skuldugust eru við hvern ríkisbanka, alls 30 fyrirtæki; c. ábendingum frá bankaeftirlitinu um hvaða fyrirtæki þurfi að athuga sérstaklega.

Rannsóknarnefndin skal einnig kanna aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til og nauðsynlegt reynist.

Í samræmi við 39. gr. stjórnarskrárinnar skal rannsóknarnefndin hafa í störfum sínum fullan rétt til allra upplýsinga frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum eftir því sem nauðsyn reynist. Fundir rannsóknarnefndarinnar skulu haldnir í heyranda hljóði.

Rannsóknarnefndin skal hafa heimild til að ráða í sína þjónustu sérfræðinga, svo sem lögfræðinga, rekstrarfræðinga og bókhaldsfræðinga, eftir því sem nauðsynlegt reynist og skal kostnaður við störf nefndarinnar greiðast úr ríkissjóði.

Rannsóknarnefndin skal mánaðarlega skila Alþingi bráðabirgðaskýrslum um störf sín og lokaskýrslu eigi síðar en innan fjögurra mánaða frá samþykkt þessarar ályktunar.

Kjósi Nd. sams konar rannsóknarnefnd skuli nefndirnar vinna saman að athugun þessara mála.“

Eins og ég nefndi í upphafi er tími deildarinnar raunverulega liðinn og þegar hefur átt sér stað mikil umræða um þetta mál þannig að flestir þættir þess eru ljósir. Ég tel þó ástæðu til að nefna einn þátt sem nefndur hefur verið í umræðum um þetta mál. Það er ákveðinn samanburður á gjaldþroti Hafskips og greiðsluvandræðum og uppboðum á fiskiskipum. Hæstv. fjmrh. lét sig hafa það í útvarpsumræðum að jafna gjaldþroti Hafskips við vandamál togaranna og nefndi þar að lútandi tölur. Hann jafnaði sem sagt gjaldþroti Hafskips við vandamál sjávarútvegsins, vandamál skipa sem stunda tekjuöflun fyrir þjóðarbúið, hafa í hverjum róðri komið fullhlaðin af verðmætum til landsins. Hann jafnaði því við rekstur þeirra skipa sem á meginhluta rekstrartímabilsins hafa farið á milli Evrópu og Íslands hálftóm, rekin undir nafni samkeppninnar á þann máta að við vitum að með rekstri þeirra þriggja skipafélaga sem hér hafa verið í gangi á þessum tíma hefur þjóðin verið að borga stóra skatta umfram þann gjaldþrotaskatt sem Hafskip kallar nú sérstaklega á.

Ég vil benda á í sambandi við fiskiskipin, sem nú er verið að bjóða upp, þegar verið er að bera þessa hluti saman, að á síðasta ári var afskriftareikningur útlána Fiskveiðasjóðs Íslands, sem er lánveitandi þeirra skipa, 222 millj. kr. Á sama tíma var höfuðstóll Fiskveiðasjóðs tæpar 500 millj. kr. og á sama tíma var verðtrygging eigin fjár Fiskveiðasjóðs 1,1 milljarður kr. Þessi sjóður hafði sem sagt tryggt sig fyrir því að það gæti komið fyrir að íslensk fiskiskip yrðu boðin upp á nauðungaruppboðum og að sjóðurinn yrði að taka á sig ákveðinn skell. Hjá hverjum hafði Fiskveiðasjóður tryggt sig? Hjá þessum sömu viðskiptaaðilum, hjá íslenskum sjávarútvegi, hjá íslenskum fiskiskipum. Það er því algjörlega út í hött að jafna saman því sem átt hefur sér stað í rekstri Hafskips og rekstri íslenskra fiskiskipa. Það er mjög fjarstæðukennt. Fiskveiðasjóður hefur á undanförnum árum byggt upp sjóði til að taka á móti skakkaföllum í sambandi við fiskiskipin, en eins og raun ber vitni eru engir sjóðir til og það er gengið beint í sjóði landsmanna í sambandi við gjaldþrotsmál líkt og Hafskips. Ég mun ekki eyða lengri tíma í þessa umræðu, en að henni lokinni legg ég til að þessi till. fari á sama veg og frv. áðan, henni verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og síðari umræðu.