14.12.1985
Neðri deild: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 269 brtt. við frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Eins og kunnugt er herja veruleg vandamál á ríkissjóð um þessar mundir og það eru tillögur uppi um að afgreiða hann með mjög miklum halla þriðja árið í röð í tíð þessarar ríkisstj. Hún getur bersýnilega aldrei skilað hallalausum ríkissjóði og lagast ekkert þó að nýr fjmrh. komi. Það versnar heldur ef eitthvað er. Vegna þess að stjórnarandstaðan, eða a.m.k. Alþb., vill umgangast þessa hluti með fullri ábyrgðartilfinningu flytjum við hér till. um að hækka nokkuð skatta á verslunar- og skrifstofuhúsnæði til að koma til móts við þann vanda sem ríkisstj. stendur í við að koma saman fjárlögum þótt ekki komi annað til. Þess vegna er hér gerð till. um að afla hér 120 millj. kr. í ríkissjóð með því að tvöfalda skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Munum við taka grannt eftir því hvort stjórnarliðar styðja þessa till. eða ekki. Auðvitað ættu þeir að gera það ef þeim er umhugað um að reyna að koma ríkissjóði saman með skikkanlegum hætti, en það er eftir að sjá hvaða afstöðu þeir munu hafa.

Till. er ekki einasta flutt vegna þess að menn beri sérstaka umhyggju fyrir ríkissjóði heldur og vegna þess að það er um að ræða geysilega fjárfestingu í verslunar-og skrifstofuhúsnæði. Þessi atvinnugrein er allt að sliga, m.a. frumvinnslugreinarnar í landinu, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur bent manna best á hér á Alþingi. Þess vegna er eðlilegt að lagður verði á skattur til að draga úr þessari fjárfestingu. Ég hef trú á því að ef þessi skattur yrði jafnþungur og hér er gerð till. um gæti það nokkuð dregið úr þeirri miklu fjárfestingu og þenslu sem er í versluninni á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna, herra forseti, hef ég lagt fram þessa till. og vænti þess að hún fái góðan stuðning bæði stjórnarliðs og stjórnarandstöðu.