14.12.1985
Neðri deild: 29. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þessi umræddi skattur, sem hér er til umfjöllunar, var búinn til á haustmánuðum árið 1978. Honum var þá aldrei ættað að standa nema skamma hríð, því lýst yfir við þá afgreiðslu að þetta væri bráðabirgðaákvörðun sem ætti að afnema, enda væri skattur á lagður eins og hér um ræðir ekki sem heppilegastur heldur væri eðlilegra, ef menn ætluðu að fara út á þessa braut, að nota þá eignarskattsfyrirkomulagið sem fyrir er.

Þáverandi stjórnarandstaða, Sjálfstfl., barðist mjög hart gegn þessum skatti og hefur marglýst því yfir, bæði opinberlega og hér á Alþingi, að eitt af þeim fyrstu verkum sem hann mundi framkvæma þegar hann kæmist aftur til stjórnar á landinu væri að afnema þennan skatt. Sjálfstfl. er nú búinn að vera við stjórnvölinn í nokkuð mörg ár, en hefur ekkert aðhafst til að standa við þetta loforð, enda var eitt síðasta verk Sjálfstfl. að víkja þeim manni úr ráðherraembætti sem hafði opinberlega heitið því að við þetta margumrædda loforð yrði staðið og var það hermt upp á hann í tbl. af Verslunartíðindum sem kom út fyrir nokkrum mánuðum. (HBl: Við höfum nú fleiri lofað því, held ég.) Já, það er alveg rétt hjá hv. skrifara þessarar deildar að það hafa fleiri lofað því, en það eru líka fleiri sem ekki hafa staðið við það loforð og deila þeir þá sökinni sín á milli, hann og aðrir flokksbræður hans.

Við Alþýðuflokksmenn höfum áður á þingum flutt till. um að þessi skattur yrði afnuminn í áföngum, en einnig þær till. hafa verið felldar. Eins og nú háttar hjá ríkissjóði teljum við eftir ástæðum e.t.v. eðlilegt að halda skattinum áfram um hríð, en við höfum boðað að við munum leggja fram í þinginu frv. til 1. um breytingu á lögum um eignarskatt þess eðlis að leggja stighækkandi eignarskatt á stóreignir. Með því móti væri þessi skattheimta gerð algerlega óþörf. Er eðlilegt að menn séu ekki með margar aðferðir við skattlagningu á sama skattstofni heldur beiti einni aðferð við slíkar skattlagningar. Þess vegna munum við Alþýðuflokksmenn láta þessa afgreiðslu, sem nú á að fara fram, fram hjá okkur fara, en ég ítreka að við boðum brtt. við lögin um eignarskatt þess efnis að leggja á stighækkandi stóreignaskatt sem nær sama takmarki og þessi skattur en er aftur á móti miklu einfaldari í framkvæmd og byggist á skattstofni og skattalögum sem fyrir eru og er komin reynsla af.