23.10.1985
Neðri deild: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samgn. Nd. hefur fjallað um þetta mál. Á fund nefndarinnar komu Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Ólafur Steinar Valdimarsson, ráðuneytisstjóri í samgrn., Birgir Guðjónsson, starfsmaður í samgrn., Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða hf., Margrét Guðmundsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, og Erla Hatlemark sem er formaður samninganefndar Flugfreyjufélags Íslands.

Það kom fram á þessum fundi, ekki síst hjá sáttasemjara, að hann mat málið þannig að bilið hefði verið það stórt á milli samningsaðila að báðir aðilar hefðu verið sammála um að það væri þýðingarlaust að koma fram með sáttatillögu eins og málið stóð. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að hér er ekki um að ræða neitt mat á þessari kjaradeilu, þ.e. á kröfu flugfreyjanna annars vegar, heldur er hér um að ræða að koma í veg fyrir að þetta verkfall standi og að setja kjaradóm sem fjalli um þessa kjaradeilu, en þetta frv., ef að lögum verður, fellur úr gildi um næstu áramót.

Ég vil skýra frá því að nefndin klofnaði um málið. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir það nál. skrifa auk mín Friðjón Þórðarson, Eggert Haukdal og Stefán Guðmundsson.