14.12.1985
Neðri deild: 30. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

84. mál, skráning skipa

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og varð þá ekki útrætt og lagði ég það aftur fram í haust. Ed. gerði á því nokkrar smávægilegar breytingar sem breyta ekki efni frv.

Meginbreytingin á skráningu skipa er sú að aðrar reglur gilda erlendis um skráningu skipa og getur óhagræði af því hlotist. Það má gera ráð fyrir auknum atvinnumöguleikum íslenskra sjómanna með breytingu þeirri sem hér er gert ráð fyrir og að endurnýjun skipastóls verði auðveldari og sömuleiðis minni kostnaður.

Með því að takmarka íslenska skráningu erlendra skipa við undanþágur sem ráðherra veitir og með þeim skilyrðum sem hér er lagt til ættu hagsmunir Íslendinga að vera tryggðir gagnvart þeim erlendu aðilum sem hugsanlega vildu hefja hér kaupskipaútgerð, en rétt er að vekja athygli á að þessi breyting nær eingöngu til kaupskipa en ekki fiskiskipa.

Samtök sjómanna, bæði yfirmanna og undirmanna, hafa bent á að stemma verði stigu við erlendum leiguskipum þannig að tryggt sé að íslenskir sjómenn sitji fyrir um atvinnu. Breytingin, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá gildandi lögum, hnígur einmitt í þá átt að gera þessa hluti auðveldari. Segja má að hér sé því um sameiginlegt áhugamál allra, sem þetta mál varðar mestu, að ræða.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.